Orðasafn: Hvað eru hreyfivistkerfi?

Hreyfivistkerfi er samsett orð sem vísar til bakgrunns þessara kenninga. Hreyfi- forskeytið er einfaldlega vísun í að þessar kenningar hafi með hreyfingu að gera, sem er mikilvæg aðgreining því “vistkerfi” ein og sér eru til í öðru samhengi en sambærilegri merkingu. Orðið hreyfivistkerfi varð til við samstarf mitt við Ágústu Þorbergsdóttur hjá Árnastofnun. Við leggjum til að það verði íslenska heitið á kenningasafni sem heitir á ensku ecological dynamics.

Vist vísar í sálfræðilega nálgun (ecological perspective) við að skoða hegðun og atferli okkar (og nú hreyfingar líka). Það er gert í samhengi við það umhverfi sem við erum í því umhverfið hjálpar okkur að skilja þær hreyfingar sem við sjáum myndast. Kerfi í þessu samsetta heiti vísar til kenninganna um kvik og flókin kerfi (dynamical systems) sem lúta ákveðnum lögmálum og er fengin að láni frá öðrum fræðigreinum og sett í samhengi hreyfinga, líkt og vistfræðileg nálgun sálfræðinnar. Þannig eiga undirstöður kenninga um nám og þróun hreyfinga sér dýpri rætur í kenningum af öðrum sviðum sem hjálpa okkur að skýra flókin fyrirbæri í öðru samhengi.

Þar sem þessar tvær stóru hugmyndir mætast (1. umhverfið hefur áhrif og 2. hreyfingar eru flóknar) tölum við um hreyfivistkerfi. Við þær eru fleiri tengingar og nefni ég hér þær fjórar helstu.

Bein skynjun er einföld þýðing á direct perception sem er ein af grunnhugmyndum J. Gibson og snýr að nokkru við okkar hugsun frá því að horfa inn á við og hvernig getum við unnið úr upplýsingum? Yfir í það að horfa í umhverfið og hugsa, – hvað er í umhverfi okkar til að skynja? Þessi hugsun tengist hreyfiboðum (affordances) sem við sjáum í umhverfi okkar, en þau lúta að þeim tækifærum sem við skynjum til hreyfingar hverju sinni. Nánar um það síðar.

Hugmyndin um að hreyfingar okkar séu takmarkaðar kemur frá K. Newell sem flokkar helstu takmarkanirnar í þrjá megin flokka, það er einstaklinginn sjálfan, verkefnið og umverfið. Það er því ótrúlega margt sem hefur áhrif á hreyfingar okkar hverju sinni. Innri þættir og ytri og þættir sem breytast að jafnaði lítið og hægt (hlaupabraut, líkamshæð, sjón) og yfir í þætti sem við getum breytt mikið og hratt (t.d. verkefnisþættir). Hver takmörkun myndar með öðru eins konar girðingar þær lausnir sem geta komið fram. Þrátt fyrir miklar takmarkanir geta komið fram ótal ólík eða sambærileg hreyfimynstur, allt eftir því hver markmiðin eru.

Ein sú hugmynd sem vatt þessu öllu af stað er frelsisgráðuvandinn sem N. Bernstein setti fram fyrir hálfri öld síðan (degrees of freedom problem). Þar leggur Bernstein grunninn að þeirri stefnu sem þessar kenningar hafa tekið með því að segja að sömu hreyfinguna sé ekki hægt að endurtaka alveg eins aftur (repetition without repetition). Ástæðan er sú að breytileikinn er einfaldlega of mikill auk þess sem við erum að vinna með kvik og breytileg kerfi (líkami okkar, lið og mótherja) þar sem aðstæður geta breyst og haft áhrif á hreyfingarnar.

Út frá þessari hugmynd um frelsisgráðurnar sem eru miklu fleiri en við þurfum til að leysa markmiðin kemur spurningin hvernig þessar hreyfingar eru samhæfðar milli líkamshluta. Í flóknum kerfum þar sem margar sjálfstæðar einingar koma að á sér stað sjálfsskipulag, það er, að það er ekki einn stjórnandi sem þrýstir á hnappa og lætur hlutina gerast. Í stað þess að vera einfaldlega stýrt, þá verða hreyfingar til, myndast, birtast líkt og fellibylir sem verða til við tilteknar aðstæður hverfa þegar skilyrðin eru ekki lengur fyrir hendi.

Hér er svo skýringarmyndin þar sem kenningarnar eru tengdar saman.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s