Author: Sveinn Þorgeirsson
Viðtal um íþróttir barna á Bylgjunni

Hlekkur á viðtalið sjálft frá því í morgun.
https://www.visir.is/k/361a9642-9c18-4015-b6c3-19205fb7159e-1618300705326?jwsource=cl
SÞ
Tölfræðilegir lykilþættir á HM í handbolta?
Það er auðvelt að greina ástæður þess að eitt lið vann og annað tapaði, svona úr sjónvarpinu,- eftir á. Eða hvað? Frammistöðugreining (performance analysis) í handbolta hefur stóraukist undanfarin ár með bættu aðgengi að tölfræði leikja og meiri söfnun hennar.
Þegar niðurstöður eru greindar eftir á, út frá leikatriðum má finna þá þætti sem best aðgreina sigurvegarana frá hinum. Þessi eftir-á-aðferð getur gefið vísbendingar um mikilvægi þessara leikatriða, en gefa auðvitað enga skýringu á ferlinu á bakvið viðkomandi þætti eða tengslum þeirra í milli. En af því HM er að bresta á er því viðeigandi að kíkja á nokkur atriði.
Það hefur til dæmis komið í ljós við greiningu á leikjum á HM að betri nýting skota úr horninu, og fyrir utan 9m ásamt fleiri vörðum skotum í vörn greinir liðin sem komust í 8 liða úrslit frá hinum sem komust ekki svo langt. Þá virðist nýting í skotum úr hornum heilt yfir hafa farið batnandi og færri skot eru að jafnaði varin af vörninni (Almeida et al., 2020). Þetta myndi ég túlka sem bætta taktíska ákvörðunartöku í sókninni.
Rannsókn sem skoðaði þróun leiks á HM frá 2005 til 2019 benti á betri skotnýtingu úr gegnumbrotum, betri markvörðslu, betri nýtingu skota af 6m ásamt fleiri stolnum boltum sem einkenni þeirra liða sem komust í undanúrslitin umfram önnur lið (Meletakos et al., 2020). Það er þá eitthvað til í áherslu þjálfara á dauðafærin 🙂
Að lokum, ef við viljum reyna að spá fyrir þá tölfræðiþætti sem gætu skilað sigri liða á næstu dögum. Þá tilgreindi rannsókn á HM karla frá 2015 (Daza et al., 2017) eftirfarandi leikatriði til að auka sigurlíkurnar í þessari mikilvægisröð. Það gæti verið gaman að hafa auga með eftirfarandi þáttum í leik hjá íslenska landsliðinu á næstu leikjum á HM:
Lið þurfa að spila með…
- færri en 12 tapaða bolta
- færri en 12 bolta varða af markmanni andstæðingsins
- 12 eða fleiri markvörðslur
- 5 eða fleiri stolna bolta

Áfram Ísland
SÞ
Heimildir
Almeida, A. G., Merlin, M., Pinto, A., Torres, R. da S., & Cunha, S. A. (2020). Performance-level indicators of male elite handball teams. International Journal of Performance Analysis in Sport, 20(1), 1–9. https://doi.org/10.1080/24748668.2019.1694305
Daza, G., Andrés, A., & Tarragó, R. (2017). Match Statistics as Predictors of Team’s Performance in Elite competitive Handball. [Estadística del partido como predictor del rendimiento de equipo en el balonmano de élite]. RICYDE. Revista Internacional de Ciencias Del Deporte, 13(48), 149–161. https://doi.org/10.5232/ricyde2017.04805
Meletakos, P., Konstantinos, N., & Iaoannis, B. (2020). Stable and changing characteristics of high-level handball as evidenced from World Men’s Championships. Journal of Physical Education and Sport, 20(03), 1354–1361. https://doi.org/10.7752/jpes.2020.03187
Er til betri leið?
Ert til betri leið til að nota líkamsræktina? spurði blaðamaður Morgunblaðsins mig um daginn. Í sérblaði Moggans um heilsu frá því um síðustu helgi er að finna mitt stutta og klippta svar við þessari áhugaverðu spurningu.

Ég var glaður með að fá að koma að þeirri nálgun í fjölmiðil að grundvallaratriðin varðandi hreyfingu til heilsuræktar skipta mestu máli, og þau eru vel þekkt. Þau eru þó líkast til ekki þau “söluvænlegustu” skilaboðin eða það sem fólk vill heyra þegar það er að hefja æfingar. Það er þeim mun mikilvægari að þessi skilaboði komist að í fjölmiðlum og skili sér svo við föllum síður fyrir gylliboðum sem eru oftast of góð til að vera sönn.
Grunnstefið í þeim skilaboðum hlýtur að vera að áhuginn sé til alls fyrstur. Að hafa áhuga (og það má rækta þann áhuga, t.d. með markmiðasetningu) á þeirri hreyfingu sem maður kýs sér til heilsuræktar, og gera hana hreyfingarinnar sjálfrar vegna, en ekki annarra ytri hvata myndi ég segja að væri fyrsta skrefið. Flestir þurfa að prófa ýmislegt, og stundum oftar en einu sinni til að vita hvort það ákveðið form hreyfingar henti, sérstaklega með hliðsjón af getu og þjálfunarsögu hvers og eins.
Undirstaðan á bakvið góða þjálfun þegar út í hreyfinguna er komið er svo að fylgja grundvallarreglum þjálffræðinnar. Þar gildir að
þjálfunin þarf að vera gerð af nógu miklum ákafa, og að vera fjölbreytt til að áreita jafnvægi líkamans og kalla fram varnarviðbrögð. Hún þarf að vera stigvaxandi, einstaklingsmiðuð, skipulögð og hugsuð til lengri tíma.
Sveinn Þorgeirsson
SÞ
Handboltafólk: Viljið þið hanga lengur… – í loftinu?
Væri ekki geggjað að hafa aðeins meiri tíma í loftinu til að ákveða skotið? til að ná skotinu yfir vörnina? til að hækka hávörnina?
Með stökkþjálfun má með nokkuð öruggum hætti auka stökkkraft hjá unglingum (15-20 ára) um rúmlega 6,4 sentimetra að meðaltali (4.9-8.4 sm). Þetta kemur fram í nýlegri samantektargrein um stökkþjálfun í handbolta á keppnistímabili (Ramirez-Campillo et al., 2020). Þessum bætingum má ná fram með aðeins 2x æfingum í viku á 8-10 vikna tímabili af skipulagðri þjálfun.
Um er að ræða samantekt niðurstaðna af 5 rannsóknum þar sem notast var við frá 1000-2000 stökk í hverju prógrammi. Sumar rannsóknir þjálfuðu spretti, styrk og stefnubreytingar samhliða stökkþjálfuninni.
Hér má sjá dæmi um stökkþjálfunaráætlun sem var framfylgt í einni af rannsóknunum samhliða handboltaþjálfun.
Vika | Neðri hluti æfing x sett x endurtekningar | Efri hluti æfing x sett x endurtekningar |
1 | 40 sm grindarhopp x 5 x 10 | dýnamísk armbeygja x 3 x 10 |
2 | 40 sm grindarhopp x 7 x 10 | dýnamísk armbeygja x 3 x 10 |
3 | 40 sm grindarhopp x 10 x 10 | dýnamísk armbeygja x 3 x 11 |
4 | 60 sm grindarhopp x 5 x 10 | dýnamísk armbeygja x 3 x 12 |
5 | 40 sm fallhopp x 4 x 10 | dýnamísk armbeygja x 4 x 10 |
6 | 40 sm fallhopp x 4 x 10 | dýnamísk armbeygja x 4 x 11 |
7 | 40 sm fallhopp x 4 x 10 | dýnamísk armbeygja x 4 x 10 |
8 | 40 sm fallhopp x 4 x 10 | dýnamísk armbeygja x 4 x 12 |
Það er því engin ástæða til að tapa bætingum frá undirbúningstímabilinu, þvert á móti sýna þessar niðurstöður fram á hið gagnstæða, – það er hægt að halda áfram að bæta sig.

Hafið eftirfarandi atriði í huga áður en farið er af stað
- Þessi þjálfun getur í mörgum tilfellum verið hrein viðbót við það sem þegar er verið að gera.
- Ef leikmenn eru ekki vanir stökkþjálfun eða hafa lítinn grunn er skynsamlegra að byrja rólega, t.d. með sippþjálfun og vinna sig upp, styttri lotur í einu og fjölga svo stökkum jafnt og þétt.
- Leikmenn sem eru með góðan stökkkraft nú þegar koma til með að bæta sig minna í sentimetrum talið en þeir sem eru styttra á veg komnir
- Leggið áherslu á góða framkvæmd stökks, tækni umfram allt, sérstaklega hjá ungum iðkendum.
- Það getur verið mjög áhugavert og hvetjandi að setja upp mælingu í upphafi þjálfunar og svo aftur um 6 vikum síðar. Hægt er að styðjast við lóðaplötu, málband og bandspotta + hendur á mjöðm útgáfuna t.d. í lóðréttu jafnfættu uppstökki.
*Ég mæli ekki með þessu stökkprógrammi sérstaklega umfram önnur. Mikilvægast er að aðlaga þjálfunina einstaklingnum hverju sinni.
SÞ
Heimildir
Chelly, M. S., Hermassi, S., Aouadi, R., & Shephard, R. J. (2014). Effects of 8-Week In-season Plyometric Training on Upper and Lower Limb Performance of Elite Adolescent Handball Players: Journal of Strength and Conditioning Research, 28(5), 1401–1410. https://doi.org/10.1519/JSC.0000000000000279
Ramirez-Campillo, R., Alvarez, C., Garcia-Hermoso, A., Keogh, J. W., García-Pinillos, F., Pereira, L. A., & Loturco, I. (2020). Effects of jump training on jumping performance of handball players: A systematic review with meta-analysis of randomised controlled trials. International Journal of Sports Science & Coaching, 174795412092893. https://doi.org/10.1177/1747954120928932
Ofurþjálfun eða ofþjálfun? Innlit í tíma á afreksíþróttasviði
Vildi gefa smá innsýn í þá kennslu sem fram fer á afreksíþróttasviðinu þessa dagana. Önninni er að ljúka. Hún hefur verið gríðarleg áskorun og það hefur verið gaman að glíma við hana, ekki spurning!
Hlekkur á YOUTUBE með 25 mín kennslumyndskeiði
Nemendur unnu svo verkefni upp úr þessari innlögn.
Í útvarpinu…
Ég var fenginn í útvarpsviðtal á Samfélaginu á Rás 1 í síðustu viku. Gaman að fá að fjalla um hvernig ég hef verið að upplifa áskoranir ungs íþróttafólks á þessum tímum í gegnum kennsluna í Borgarholtsskóla til dæmis.
https://www.ruv.is/utvarp/spila/samfelagid/23617/7hl5dv
Sveinn Þorgeirsson íþróttafræðingur: Fjallað er um hreyfingu á tímum Covid, þegar skipulögðum æfingum og mótum sleppir, hvernig viðheldur bæði afreksíþróttafólk og almenningur árangri sínum?
SÞ
21 dagur til stefnu, – gerum þetta vel
Það má gera ráð fyrir auknu fútti í æfingum þann 4. maí hjá mörgu íþróttafólki. Það glittir í bjartari daga í sportinu með afléttingu takmarkana. Ef ég væri þjálfari að hefja æfingar á nýjan leik á þeim tímapunkti myndi ég biðja mitt íþróttafólk að koma með æfingadagbók síðustu 3ja vikna með sér.
Þannig mætti betur áætla það stand sem íþróttafólkið er í og hvernig sé óhætt að hefja æfingar á nýjan leik út frá magni og ákefð, og jafnvel einstaklingsbundið. Einstaklingar sem hafi sinnt sér illa, æft lítið á þessum tíma fengju ekki að æfa af sama krafti og hinir þegar allt fer á fullt. Ábyrgðin er þeirra. Æfingar dagsins í dag byggja á því sem gert var í gær.
Skráningin þarf ekki að vera flókin eða tímafrek til að vera gagnleg. Einfalt væri t.d. að setja þetta upp á þessa leið.
Excel skráningarform fyrir 21 dags dagbók
Lykiltölurnar um ákefð og magn eru inni í þessari einföldu formúlu fyrir æfingaálag. Þær segja sögu, ekki alla, en þó nógu mikið til að þjálfari hafi gagn af. Það væri t.d. ekki skynsamlegt að byrja 5x 90 mín æfingar í viku þann 4. maí ef íþróttafólkið þitt hefur aðeins verið að æfa 3×30 mínútur. Það er ávísun á vandræði. Sömuleiðis þarftu að huga vel að ákefðinni ef viðkomandi hefur haft það of kósí í samkomubanninu.
Kæri íþróttamaður. Það er nægur tími til að koma vel undirbúin til æfinga að nýju. Byrjaðu að skrá og byggja þig upp í æfingaálag sem þú varst vön/vanur fyrir samkomubann. Það má því byggja ofan á vikuna á undan. Ekki setja allt á fullt ef þú hefur bara verið í 2 gír.
Kæri þjálfari. Hér ertu með dæmi um tól sem hægt væri að nýta til að hafa ókeypis yfirlit yfir þá þjálfun sem iðkandinn þinn hefur gert á meðan samkomubanninu stendur. Sé það notað á réttan hátt gæti það virkað hvetjandi og gott aðhald við þitt íþróttafólk.
Förum varlega af stað 🙂
SÞ
Heimild vegna RPE skalans
Hvernig lítur hjólabrettið þitt út?
Á þriðju viku heimaæfingafaraldurs gæti verið farið að örla á leiðindum í garð líkamsæfinga, sérstaklega ef þær eru aðeins gerðar æfinganna sjálfra vegna. Ef líkamsæfingaprógrömm vekja svipaðar tilfinningar hjá þér eins og matarræðiskúrar, eru þær líklegar til að hverfa rétt eins og snjórinn þegar vorar. Hvað er þá til ráða? Hvernig getum við gert hreyfingu og heilsurækt meira spennandi?
Hefurðu staðið þig að því að gleyma þér yfir áskorun þannig að tíminn flaug frá þér? Þú varst meðvituð, við stjórn, en samt ekki að hugsa? Þú hefur líklegast upplifað flæði (e. flow) á einum eða öðrum tímapunkti í þínu lífi. Líklegast er að það eigi sér stað við ákveðnar aðstæður, helst þegar ákorun verkefnisins jafnast á við okkar eigin getu til að takast á við einmitt það verkefni. Dæmi um slíkt væri krefjandi púsluspil, sudoku, tölvuleikur á réttu “leveli” eða leikur með jafningjum.
Ein af ástæðum þess að okkur gæti leiðst í þeim æfingum sem við tökum okkur fyrir hendur er að okkur kann að þykja þær of léttar. Þegar verkefnið er allt of erfitt fyrir núverandi getu er hætt við að þeirri upplifun fylgi kvíði. Margir tímaseðlar hafa verið gefnir út á netinu síðustu vikur, með margskonar æfingum, sumum léttum en sumum bara talvert erfiðum. Í þær vantar mikilvægt hráefni sem þjálfarar reyna að huga alla jafna að hugsa út í, en það er einstaklingsmiðun æfinga.
Sambandi verkefnis og getustigs er ágætlega lýst í kenningu Mihaly Csikszentmihalyi um flæði (hvers nafn ég verð alltaf að goolga og c/p til réttritunar). Kenninguna má skýra með einfaldri mynd sem þessari.
Í upphafi væri því best að spyrja þig hvað það er sem þig langar að takast á við, læra og upplifa? Því áhuginn er til alls fyrstur, og svo koma áskoranirnar, fyrst þær auðveldu og svo smátt vaxandi með aukinni færni. Góður kennari/þjálfari tekur áhuga og klæðskerasníðir svo verkefnin eftir vexti hvers og eins.
Eitt af mínum uppáhaldsdæmum þegar kemur að flæði og áskorunum er sú menning sem skapast t.d. í kringum fólk sem æfir sig á hjólabretti (og víðar). Þar á ég við að “æfingar” eigi sér stað oft með óformlegum hætti, án þjálfara, og á svæðinu er oft ungt fólk á misjöfnum aldri og af mjög misjöfnu getustigi. Alveg frá byrjendum upp í sérfræðinga, og allir í “sínu”. Umhverfið er styðjandi og þeir lengra komnu geta leiðbeint og sýnt byrjendum. Öll eru þau á sama svæðinu en í mjög miskrefjandi verkefnum. Þetta finnst mér heillandi, sérstaklega því á bakvið slíka þjálfun hlýtur að liggja innri áhugahvöt. Það er að segja að þjálfunin á sér stað því viðkomandi upplifir hana og hefur gaman af sjálfu athæfinu.
Ég óska þess innilega fyrir þína hönd að þú hafir fundið þitt hjólabretti í lífinu sem í senn er góð líkamleg hreyfing og ánægjuleg ástundunar fyrir þig.
Góðar stundir.
SÞ
Heimildir