Hvernig þjálfum við hið óþjálfanlega?

Nei, ég er ekki að tala um hvernig við strekkjum á íþróttafólki til að auka hæð þeirra. Ég er að tala um það þegar leikmenn leysa aðstæður í leik á aðdáunarverðan hátt, með leikskilningi og viðeigandi hreyfilausnum. Sumir leikmenn virðast eiga betra með að skynja þessar lausnir og útfæra en aðrir. Það eru þessi “Helenu Sverris” eða “Ómars Inga” móment sem eiga stóran þátt í að draga okkur á pallana og að skjánum.

Mín tilfinning er að við sem höfum starfað við þjálfun höfum litið á þessa eiginleika sem óþjálfanlega að mestu, nokkuð sem íþróttafólk fæðist með og þar af leiðandi hefur, nú eða ekki. Ég var leikmaður sem myndi sennilega falla í síðar nefnda flokkinn en aftur að því síðar.

Ástæðan fyrir því að ég tek þetta upp hér er að með núverandi, hefðbundnum þjálfunaraðferðum er mjög hætt við því að við séum ekki að þjálfa einmitt þessa færni (skill) í að skynja upplýsingarnar í umhverfi okkar á æfingum líkt og í leik. Það stafar af því að með hefðbundnum aðferðum er í lagi að slíta í sundur hreyfingar frá skynjun á upplýsingum í aðstæðum (án tillits til þeirra upplýsinga sem eru í boði, = hreyfiboða). Það er í lagi, bara á meðan við hreyfum okkur “eins” og ætlast er til í leik, eftir “réttu” leiðinni. Þannig mætti segja að við værum frekar að byggja upp venjur heldur en færni.

Þetta gerir það að verkum að í mörgum “drillum” eru ekki sömu möguleikar (hreyfiboð) og koma upp í leik sem þýðir að við erum ekki að þjálfa leiklíkt, eða þá færni sem raunverulega skiptir máli í keppni. Samkvæmt þessum hugmyndum er því hætt við að yfirfærslan verði lítil sem engin.

Aðferðir sem byggja á kenningum hreyfivistkerfa (ecological dynamics) nálgast þjálfun út frá öðrum forsendum (nánar fjallað um áður, en fyrst hér, og síðar í hlaðvarpi líka). Þar skiptir umhverfið miklu máli og þær upplýsingar sem við skynjum þar. Raunar er leikmaðurinn og umhverfið ein og sama einigin, óaðskiljanleg í þeim fræðum. Einn hornsteinanna er hugmyndin um hreyfiboð (affordances) sem aftur byggir á hugmyndinni um beina skynjun (direct perception). Bein skynjun byggir á því að upplýsingar í umhverfi okkar getum við nýtt beint án þess að það þyrfi að fara í gegnum meðvitað úrvinnsluferli líkt og haldið er fram í hefðbundnum kenningum (þar sem stjórn hreyfinga er líkt við úrvinnslu tölvu).

Dæmi um það er bolti sem nálgast okkur á lofti. Við skynjum feril boltans og stefnu og auk þess hversu hratt hann nálgast okkur út frá því hvernig hann stækkar í sjónsviði okkar. Umhverfi okkar dags daglega er uppfullt af svona sértækum upplýsingum (specifying information) sem við þurfum/getum brugðist við Önnur hversdagsleg dæmi eru það að mæta fólki á þröngum gangi án þess að rekast á, eða hjólandi umferð á göngustígum. Þetta á líka við keppni í hópíþróttum, en æfingar okkar innihalda oft mun minna af leiklíkum upplýsingum sem þó hafa svo mikið með þær hreyfingar sem við útfærum að gera.

Áhugaverð rannsókn á boxurum hefur til dæmis bent á samhengið milli þess hve langt einn boxari stendur frá andstæðing sínum á stóran þátt í að móta það hverslags högg viðkomandi leitar í. Þegar fjarlægðin er meiri eru stungur augljós kostur. Aðeins nær og þá opnast möguleikarnir á krókum og svo að lokum upphöggum. Þessi fjarlægð (síbreytileg) í bland við varnarhreyfingar andstæðingsins móta svo þau högg (hreyfiboð) sem eru til að velja úr á hverjum tíma.

Ef við horfum svo út frá einstaklingnum, þá skynjar hver einstaklingur aðstæður út frá sínum eiginleikum og því eru hreyfiboðin okkar (affordances) ólík á milli okkar. Þetta er lykilhugmynd sem hjálpar okkur við að útskýra ofangreinda eiginleika þessara leikmanna. Þau einfaldlega hreyfa sig og skynja (og skynja til að hreyfa) aðra möguleika en annað íþróttafólk í “sömu” aðstæðum.

Anja Andersen er eitt dæmi um leikmann sem sá og nýtti hreyfiboðin í umhverfinu á annan hátt en stöllur hennar.
Þessi hreyfing var líklega ekki “kennd” sérstaklega sem góð lausn við því hvernig skal snúa leikmann af sér í teig, a.m.k. ekki áður en Bergkamp skynjaði og útfærði í þessum leik gegn Newcastle.

Í hefðbundnum hreyfingum er ekki tekið tillit til þeirra upplýsinga og aðstæðna sem eru uppi hverju sinni og sköpuðu tækifærið til að framkvæma akkúrat þessa hreyfingu. Þess heldur er sjónum beint að hreyfingunni sjálfri, að rétta hreyfingin (slitin frá umhverfisupplýsingum) verði svo þaulæfð (drilluð, líkt og hermenn að marsera) að hún þarfnist ekki hugsunar og verði sjálfvirk eða ómeðvituð. Henni á svo að beita í leik þar sem aðrar og meiri takmarkanir og hreyfiboð koma við sögu.

Samtenging hreyfingar og skynjunar nærist á þjálfun þar sem þessi tenging er virkjuð og viðhaldið. Við getum leyft okkur að breyta áhöldum, reglum og umhverfisþáttum til að fá leikmenn til að skynja sama verkefnið á ólíkan hátt, prófa ólíkar lausnir og þannig þróa fleiri lausnir sem virka. Þessari tengingu hefur stundum verið líkt við að stilla analog útvarp. Það er suð í gangi og aðrar rásir finnast og stundum er merkið ekki skýrt, allt þangað til við stillum okkur á rétta bylgjulengd (upplýsingar).

Hvaða leiðbeiningar frá okkur beinast að umhverfinu? Því sem leikmaðurinn þarf að skynja og bregðast við í tilteknum aðstæðum. Getum við betur hjálpað leikmönnunum með slíkum ráðum? Ég man á einu þjálfaranámskeiði fyrir löngu að ég heyrði Ólaf Stefánsson tala um að beina athyglinni að hreyfingu næsta varnarmanns (en ekki þeim sem er beint í þér). Þær upplýsingar geta hjálpað til við að ákvarða hvenær losa skal boltann til að búa til yfirtölu. Slíkar leiðbeiningar myndu falla í þennan flokk leiðbeininga sem beina athyglinni að upplýsingum í umhverfinu og hjálpa við útfærslu hreyfinga. Að þessu getustigi er vegferð sem þarf að varða og byggja upp því við getum ekki ætlast til að ungir leikmenn geti nýtt og brugðist við sömu upplýsingum og reyndir leikmenn.

Sem varnarmaður í handbolta hjálpaði það mér að hugsa um hvaða hreyfingar eru algengastar hjá andstæðingnum, út frá aðdragandanum og aðstæðum. Hér spila margir þættir inn eins og hve löng er sóknin er orðin, hver staðan er í leiknum og hve mikið er af honum. Þær upplýsingar í bland við þau færi sem ég skynjaði að voru að verða til í vörninni okkar hjálpuðu varnarmönnum að “lesa leikinn”. Í raun með því að skynja hreyfiboð annarra út frá þeirra styrkleikum.

Ef við tökum svo líka til greina að vörnin leggur upp með ákveðna taktík, það er að beina andstæðingunum (með fölskum hreyfiboðum eins og að standa hönd) í ákveðnar aðstæður þá urðu ákveðnar hreyfingar enn líklegri en ella því þær “upplýsingar/aðstæður” sem við buðum upp á mótuðu hreyfingar sóknarmanna (og öfugt). Ég held að þessar hugleiðingar séu ekki ný vísindi fyrir þjálfara og leikmenn, en hugsanlega þó jarðtengt við eitthvað sem er haldfastara en bara okkar eigin reynslu. Það eru kenningar um hreyfiboð og beina skynjun eftir Gibson (1979) byggðar á vistfræðilegu sjónarhorni á um mótun hreyfinga.

Lokaorðin eru á þessa leið. Ef við einbeitum okkur að rétta hreyfimynstrinu, án þess að huga að þeim upplýsingum og tækifærum sem eru í umhverfi íþróttamannsins þá náum við líklega ekki að þjálfa þessa færni (samtengingu) sem er svo eftirsóknarverð. Samspil hreyfingar og skynjunar virkjast ekki að fullu með þeim aðferðum. Þó svo við tökum upp nýjar aðferðir þýðir það þó ekki að öll getum við orðið jafn flink og ofangreindir leikmenn og með þessu verðum við öll frábær í að lesa leikinn. Anja og Dennis voru dæmi um leikmenn sem höfðu afburða skynjun á umhverfið, höfðu mikla og sterka samtengingu (attunement).

Þegar við hugsum um leiðbeiningar okkar og þau verkefni sem við leggjum fyrir gæti verið áhugavert að staldra við og rýna í aðferðir. Sumt sem þegar er gert fer vel saman við ofangreindar hugmyndir og annað ekki. Ég myndi halda að í dag séum við flest að blanda saman aðferðum sem eiga tengjast hefðbundnu aðferðunum og svo hugmyndum hreyfivistkerfa án þess að vita það endilega.

Að velta fyrir sér þessari nýju nálgun mun eflaust hjálpa þjálfurum að móta æfingar svo að þessi færni að tengja saman hreyfingar og skynjun samtímis, muni eflast. Þannig mætti þjálfa einmitt þá færni (ekki venjur) sem við metum svo mikils, og var áður mögulega talin meðfædd og óþjálfanleg.

*vegna krassandi titils á þessari grein þá set ég fyrirvara. Ég get ekki ábyrgst að það sem var erfitt í þjálfun verði auðvelt með þessum aðferðum. Augljóslega hafa komið fram framúrskarandi leikmenn þrátt fyrir að hefðbundnar aðferðir hafi verið notaðar. Hér er ætlunin að kynna til leiks aðra nálgun við sama vanda sem ætti að geta gefið góða raun. Ég tel einnig að það sem fram kemur hér sé aðeins byrjunin í því að tileikna okkur nýjar aðferðir í þjálfun hreyfinga 🙂

Tengdar heimildir

Araújo, D., Davids, K., & Hristovski, R. (2006). The ecological dynamics of decision making in sport. Psychology of Sport and Exercise, 7(6), 653–676. https://doi.org/10.1016/j.psychsport.2006.07.002

Button, C. (2021). Dynamics of skill acquisition: An ecological dynamics approach (Second edition). Human Kinetics, Inc.

Gibson, J. J. (1979). The Ecological Approach to Visual Perception. Boston: Houghton
Mifflin.

Otte, F. W., Davids, K., Millar, S.-K., & Klatt, S. (2020). When and How to Provide Feedback and Instructions to Athletes?—How Sport Psychology and Pedagogy Insights Can Improve Coaching Interventions to Enhance Self-Regulation in Training. Frontiers in Psychology, 11, 1444. https://doi.org/10.3389/fpsyg.2020.01444

Hlaðvarpsþáttur um hreyfivistkerfi: Íþróttarabbið

Ég fékk að leika lausum hala í hlaðvarpi HR um daginn þar sem ég og Ása Guðný ræddum þessar kenningar um hreyfivistkerfi og hvernig þær gætu haft áhrif á að hvernig við þjálfum og kennum hreyfingar í framtíðinni.

Þetta eru hugmyndir sem hafa verið mér sérstaklega hugleiknar undanfarið og því frábært að fá að ræða þær á svona frjálslegan hátt, góð tilbreyting frá skrifum. Ég tel að þetta séu einhverjar þær mest spennandi hugmyndir sem komið hafa fram varðandi þjálfun lengi. Þetta er ekki hraðastigi eða annað æfingatól, heldur nýr sjónauki á hreyfingar. Hugmyndirnar að baki þessara kenninga eru ekki glænýjar, en sú aðferð að blanda þeim saman til að búa til nýjan útgangspunkt er tiltölulega ung eða frá því snemma á þessari öld.

Ég tel þetta viðtal líka vera mikilvægan útgangspunkt að ræða áður en við ræðum aðferðirnar því við verðum að þekkja grundvallarhugmyndirnar sem kalla á breyttar aðferðir. Það er af því að það er ekki hægt að ræða aðferðir í þjálfun eða kennslu strax án þess að hafa komið á framfæri á hvaða grunni slíkar breytingar eiga sér stað.

https://sveinnthorgeirsson.com/2023/04/24/eru-10-000-endurtekningar-thversogn-i-thjalfun-hreyfinga/

https://sveinnthorgeirsson.com/2023/04/11/einstaklingsmidud-hopthjalfun-morg-verkefni-eda-margar-lausnir/

https://sveinnthorgeirsson.com/2023/03/17/a-auto-pilot-eda-adlogunarhaef-tvo-olik-sjonarhorn-a-thjalfun-hreyfinga/

Ef hlaðvarp um þessi mál heilla mæli ég með því að leita uppi þætti um ecological dynamics hjá dr. Rob Gray á þessu hlaðvarpi – https://perceptionaction.com/. Rúmlega 400 þættir. Hann er líka með öfluga youtube rás með kennsluefni um sama efnihttps://www.youtube.com/@RobGrayASU sem er mjög gagnleg.

Orðasafn: Hvað eru hreyfivistkerfi?

Hreyfivistkerfi er samsett orð sem vísar til bakgrunns þessara kenninga. Hreyfi- forskeytið er einfaldlega vísun í að þessar kenningar hafi með hreyfingu að gera, sem er mikilvæg aðgreining því “vistkerfi” ein og sér eru til í öðru samhengi en sambærilegri merkingu. Orðið hreyfivistkerfi varð til við samstarf mitt við Ágústu Þorbergsdóttur hjá Árnastofnun. Við leggjum til að það verði íslenska heitið á kenningasafni sem heitir á ensku ecological dynamics.

Vist vísar í sálfræðilega nálgun (ecological perspective) við að skoða hegðun og atferli okkar (og nú hreyfingar líka). Það er gert í samhengi við það umhverfi sem við erum í því umhverfið hjálpar okkur að skilja þær hreyfingar sem við sjáum myndast. Kerfi í þessu samsetta heiti vísar til kenninganna um kvik og flókin kerfi (dynamical systems) sem lúta ákveðnum lögmálum og er fengin að láni frá öðrum fræðigreinum og sett í samhengi hreyfinga, líkt og vistfræðileg nálgun sálfræðinnar. Þannig eiga undirstöður kenninga um nám og þróun hreyfinga sér dýpri rætur í kenningum af öðrum sviðum sem hjálpa okkur að skýra flókin fyrirbæri í öðru samhengi.

Þar sem þessar tvær stóru hugmyndir mætast (1. umhverfið hefur áhrif og 2. hreyfingar eru flóknar) tölum við um hreyfivistkerfi. Við þær eru fleiri tengingar og nefni ég hér þær fjórar helstu.

Bein skynjun er einföld þýðing á direct perception sem er ein af grunnhugmyndum J. Gibson og snýr að nokkru við okkar hugsun frá því að horfa inn á við og hvernig getum við unnið úr upplýsingum? Yfir í það að horfa í umhverfið og hugsa, – hvað er í umhverfi okkar til að skynja? Þessi hugsun tengist hreyfiboðum (affordances) sem við sjáum í umhverfi okkar, en þau lúta að þeim tækifærum sem við skynjum til hreyfingar hverju sinni. Nánar um það síðar.

Hugmyndin um að hreyfingar okkar séu takmarkaðar kemur frá K. Newell sem flokkar helstu takmarkanirnar í þrjá megin flokka, það er einstaklinginn sjálfan, verkefnið og umverfið. Það er því ótrúlega margt sem hefur áhrif á hreyfingar okkar hverju sinni. Innri þættir og ytri og þættir sem breytast að jafnaði lítið og hægt (hlaupabraut, líkamshæð, sjón) og yfir í þætti sem við getum breytt mikið og hratt (t.d. verkefnisþættir). Hver takmörkun myndar með öðru eins konar girðingar þær lausnir sem geta komið fram. Þrátt fyrir miklar takmarkanir geta komið fram ótal ólík eða sambærileg hreyfimynstur, allt eftir því hver markmiðin eru.

Ein sú hugmynd sem vatt þessu öllu af stað er frelsisgráðuvandinn sem N. Bernstein setti fram fyrir hálfri öld síðan (degrees of freedom problem). Þar leggur Bernstein grunninn að þeirri stefnu sem þessar kenningar hafa tekið með því að segja að sömu hreyfinguna sé ekki hægt að endurtaka alveg eins aftur (repetition without repetition). Ástæðan er sú að breytileikinn er einfaldlega of mikill auk þess sem við erum að vinna með kvik og breytileg kerfi (líkami okkar, lið og mótherja) þar sem aðstæður geta breyst og haft áhrif á hreyfingarnar.

Út frá þessari hugmynd um frelsisgráðurnar sem eru miklu fleiri en við þurfum til að leysa markmiðin kemur spurningin hvernig þessar hreyfingar eru samhæfðar milli líkamshluta. Í flóknum kerfum þar sem margar sjálfstæðar einingar koma að á sér stað sjálfsskipulag, það er, að það er ekki einn stjórnandi sem þrýstir á hnappa og lætur hlutina gerast. Í stað þess að vera einfaldlega stýrt, þá verða hreyfingar til, myndast, birtast líkt og fellibylir sem verða til við tilteknar aðstæður hverfa þegar skilyrðin eru ekki lengur fyrir hendi.

Hér er svo skýringarmyndin þar sem kenningarnar eru tengdar saman.

Eru 10.000 endurtekningar þversögn í þjálfun hreyfinga?

Það eru að verða þrír áratugir síðan kenning K. A. Ericsson um kerfisbundna þjálfun (deliberate practice) kom fram og síðar olli straumhvörfum í umræðu okkar um hvernig við náum afburða færni (expertise). Í aldir hefur fólk rökrætt hvort skipti meira máli á þeirri vegferð,- erfðir eða umhverfi? Það má færa rök fyrir hvoru tveggja, en ætli það standi ekki upp úr að þessir tveir undirstöðu þættir eiga í stöðugu samspili alla okkar ævi, líkt og sett er fram í þessari skýringarmynd úr smiðju Gilberts Gottliebs.

Með kenningum Ericsson fékk hugmyndin um aukaæfinguna mikinn meðbyr og hefur það mótað aðferðir okkar í þjálfun síðan. Þessar hugmyndir byggja á því að þjálfun verði að vera markviss, skipulögð til lengri tíma, undir handleiðslu færs þjálfara sem veitir endurgjöf. Þetta eru æfingar sem skila árangri, en eru ekki endilega skemmtilegar sem slíkar. Auk þess byrjar þessi þjálfun fyrr og á meðan henni stendur safnast fleiri klukkustundir en hjá öðrum jafnöldrum. Í greininni er því haldið fram að öll getum við náð þessari framúrskarandi færni með því einu að æfa nógu mikið. Þessi áhersla á þjálfun undirstrikar auðvitað þær staðreyndir að það þarf að æfa mikið og lengi til að ná árangri, og ennfremur býður aðferðin öllum um borð í þá vegferð. Metstöluhöfundurinn Malcolm Gladwell gerði kenninguna endanlega heimsfræga með því að tala um 10.000 klst. regluna í bók sinni Útlagar (Outliers). Í þessu samhengi heyri ég ýmist 10.000 klst. eða 10.000 endurtekningar í daglegu tali. Það sem skiptir máli er að magnið, endurtekningafjöldinn er stórt atriði.

Í rúmlega hálfa öld hafa kenningar byggðar á hinni hefðbundnu upplýsinga-úrvinnsluaðferð (information processing) stýrt okkar nálgun á það hvernig við þjálfum færni. Í stuttu máli snúast þær áherslur um hvernig þjálfarinn “drillar” íþróttafólkið í réttu hreyfingunum til að þær megi svo nota hugsunarlaust undir álagi í keppni. Ég hef áður borið þær (hefðbundnar aðferðir) saman við hugmyndir hreyfivistkerfa nálgunar fyrir frekari útlistingar bendi ég því á fyrri greinar.

Sjónum mínum í síðari hluta þessarar umfjöllunar verður beint að einni undirstöðukenningu hreyfivistkerfa, en það er hugmyndin um frelsisgráðuvandann sem Nikolai Bernstein lagði fram fyrir rúmri hálfri öld síðan. Í heimi þar sem ríkjandi hugmyndir voru (og eru) á þá leið að endurtaka skuli hreyfingar til að ná tökum á einu réttu hreyfimynstri fengu hugmyndir Bernstein aftursætið í mörg ár, þar sem þær stönguðust hressilega á við ríkjandi hugmyndir. Skoðum næst af hverju þessi hugmynd um frelsisgráðuvandann (degrees of freedom problem) er svona mikilvæg.

Í stuttu máli lýsir frelsisgráðukenning Bernstein því hvernig líkaminn er samsettur úr mörgum liðum sem hreyfast við samdrátt vöðva. Hver liður líkamans er frelsigráða í hreyfingum sem þarf að stýra og samhæfa til að ná markmiðum hreyfinganna. Liðirnir tengjast svo saman og bjóða upp á ólíkar hreyfingar eftir hlutverki og lögun liðarins. Þegar fleiri liðir koma saman í samhæfingu hreyfinga margfaldast þeir möguleikar sem við höfum úr að velja við lausn hvers verkefnis nánast óendanlega. Því til stuðnings getum við auðveldlega séð fyrir okkur margar ólíkar leiðir til að sparka í bolta, og fá nákvæmlega sömu útkomu tvisvar. Út frá þessu má álykta að úrval hreyfinga (degeneracy) sem okkur stendur til boða hverju sinni við lausn tiltekins verkefnis (t.d. að skjóta í körfu frá 3ja stiga línunni) geri það að verkum að það er ekki hægt að endurtaka nákvæmlega sömu hreyfinguna. Jafnvel þó hreyfingin sé vel “drilluð” inn í minni (harða-diskinn) okkar. Það sést svo aftur á svipuðum, en samt-ekki-eins skotstíl körfuboltafólks.

Hver hreyfing er einstök og því er talað um endurtekningu ÁN endurtekningar (repeptition without repetition). Það má vera að við þyrftum að skoða algjör smáatriði til að sjá mun, en hugmyndin er sterk engu að síður og kollvarpar grundvallarforsendu hefðbundinna kenninga. Bernstein komast að þessu meðal annars eftir að hafa rannsakað feril hamarshöggs hjá reyndum stálsmiðum. Jafnvel þó vanur smiður hamri sama naglann, var ferill hamarsins ólíkur í hvert skipti, þrátt fyrir þjálfun (og að hitta á naglann í hvert sinn).

Grunnhugmyndin um endurtekningu með sýn Bernsteins gengur því út á að leysa sama verkefnið aftur, en ekki að endurtaka sömu hreyfinguna aftur, – enda er það ekki hægt samkvæmt honum. Þá komum við að því – hverju skiptir þetta?

Út frá kenningum sínum lagði Bernstein til að við þjálfun færum við í gegnum þrjú stig sem lýsa því hvernig við tökumst á við þennan vanda. Fyrsta stig er frysting (freeze) frelsisgráða í samhæfðum hreyfingum sem gerir það að verkum að þeir liðir sem við þurfum ekki nauðsynlega á að halda til að hreyfa okkur eru stífðir af og við einbeitum okkur að hinum. Í þessu samhengi mætti sjá fyrir sér barn sem er nýfarið að ganga (klunnalegar hreyfingar), eða þegar við byrjum að skauta á svelli og erum óvön. Næsta skref felst í að losa (release) um liðina eftir því sem samhæfingin gengur betur, og að lokum fullnýta þær (exploit) til að geta hreyft okkur á fjölbreytta vegu með góðri samhæfingu.

Þetta setur eðlilega hefðbundnar þjálfunaraðferðir í uppnám þar sem þjálfarinn sem ætlar að miðla réttu hreyfingunni til leikmanns er að beina athyglinni að framkvæmd hreyfingarinnar í stað lausnar á verkefninu. Ef við göngumst við því að það sé hvorki hugmyndafræðilega hægt né sérstaklega æskilegt fyrir líkamann (álagsmeiðsli t.d.). Auk þess eru aðstæður og markmið sem við vinnum að í íþróttum ólík og þá þurfum við hafna hefðbundnum aðferðum og breyta. Þjálfarinn fær annað hlutverk en ekki síður mikilvægt, meira um það síðar.

Í hnotskurn:

  • Við getum ekki endurtekið hreyfingar tvisvar eins, vegna þess að samhæfingin er flókin milli margra liða sem gefa okkur mun fleiri útfærslur en við þurfum.
  • Vegna þess að endurtekningu er ekki hægt að endurtaka fáum við þversögn sem við snúum upp á og tölum um “endurtekningu án endurtekningar”.
  • Í stað þess þjálfarar einblíni á að meitla hreyfiferilinn eru hreyfingar betur þjálfaðar með því að horfa til hreyfimarkmiða sem verið að leysa og aðstæðna hverju sinni.
  • Breytileiki í hreyfingum er jákvæður og í honum felst aðlögunarhæfni að ólíkum aðstæðum. Það er ólíkt sjónarhorn frá hefðbundnu aðferðunum sem líta á breytileika sem neikvæða afleyðingu af því að aðlaga “réttu” hreyfinguna að ólíku aðstæðum.
  • Með nýju sjónarhorni breytist hreyfifærni okkar úr því að vera forrit í heila okkar sem við getum sótt og framkvæmt yfir í að velja hentugt hreyfimynstur í hvert sinn úr þeim fjölmörgu sem í boði eru hverju sinni.

Hvernig við þjálfum slík hreyfimynstur verður fjallað um síðar.

Heimildir og áhugavert efni sem meðal annars er byggt á við þessi skrif

Bernstein, N. (1967). The Co-ordination and Regulation of Movements. Pergamon Press.

Ericsson, K. A., Krampe, R. T., & Tesch-Römer, C. (1993). The role of deliberate practice in the acquisition of expert performance. Psychological Review, 100, 363–406. https://doi.org/10.1037/0033-295X.100.3.363

Gladwell, M. (2009). Outliers: The story of success. Penguin Books.

Gottlieb, G. (2007). Probabilistic epigenesis. Developmental Science, 10(1), 1–11. https://doi.org/10.1111/j.1467-7687.2007.00556.x

Gray, R. (2018a). 93 – The Legacy of Nikolai Bernstein I: Problems in Movement Coordination – The Perception & Action Podcast [The Perception & Action Podcast]. https://perceptionaction.com/93-2/

Gray, R. (2018b). 94 – The Legacy of Nikolai Bernstein II: Skill Acquisition through Free(z)ing Degrees of Freedom. The Perception & Action Podcast. https://perceptionaction.com/94-2/

Gray, R. (2018c). 95 – The Legacy of Nikolai Bernstein III: “Repetition without Repetition” & Beyond. The Perception & Action Podcast. https://perceptionaction.com/95-2/

Einstaklingsmiðuð hópþjálfun: Mörg verkefni eða margar lausnir?

Hvernig getum við einstaklingsmiðað færniþjálfun í raun, ef öll eru að vinna í sama verkefni? Þjálfarar þekkja vel hve mikilvægt það er að reyna að einstaklingsmiða þjálfunina til að ná sem bestum árangri. Þetta er í raun regla í þjálffræðinni, en þó vandi sem fylgir gerð hvers tímaseðlis.

Ef við styðjumst við hefðbundnar aðferðir þá standa okkur ekki margar leiðir til boða. Forsendurnar gera ráð fyrir að þjálfarinn kenni „réttu tæknina“ miðað við markmiðið hverju sinni. Til að einstaklingsmiða þá þjálfun þyrfti að útbúa sérstaka æfingu fyrir hvert og eitt, allar með ólíkum markmiðum. Það er svo gott sem ómögulegt í praktík.

Allar í eins búning, en engin af þeim “eins”. Photo by Jeffrey F Lin on Unsplash

Er til „einföld“ lausn á þessum vanda? Til þess að sjá það fyrir okkur þurfum við að breyta um útgangspunkt og aðferð. Einstaklingsmiðun æfinga horfir allt öðruvísi við ef, við aðeins styðjumst við kenningar hreyfivistkerfa (ecological dynamics) og skiljum við hinar hefðbundnu (áður fjallað um hér). Samkvæmt kenningum um hreyfivistkerfin lítum við svo á að hreyfingar birtist (emerge) undir takmörkunum hjá einstaklingnum og í umhverfinu. Hreyfingarnar eru undir áhrifum af stöðugu samspili skynjunar og hreyfinga. Þannig eru hreyfingar samhæfðar út frá aðstæðum hverju sinni, án eiginlegs stjórnanda, í flóknu, aðlögunarhæfu og síbreytilegu kerfi líkamans. Til að glöggva okkur á muninum getum við borið saman þessar tvær leiðir.

Hefðbundnar kenningar (information processing)Hreyfivistkerfi (ecological dynamics)
Línulegt eðli þjálfunar (lítil breyting í þjálfun hefur lítil áhrif).Ólínulegt eðli þjálfunar (lítil breyting í t.d. verkefninu getur breytt miklu varðandi hreyfingar).  
Þjálfun „réttu“ aðferðarinnar. Endurtekning endurtekningarinnar vegna (þrátt fyrir breytileika milli tilrauna). Lagt upp með að safna upp miklu magni endurtekninga til að festa hreyfiútfærsluna í langtímaminninu.Sjálfsskipulag (self-organization), margar leiðir að sama markmiði (degeneracy), lykilhugmyndin um endurtekningu án endurtekningar, og breytileiki nýttur til aðlögunar á framkvæmd hreyfinga.  
Breytileiki í æfingum getur af sér færni í að aðlaga „réttu tæknina“ að aðstæðum.Lausnaleit við áskorunum í hreyfingum. Breytileiki í aðstæðum. Læra að læra að hreyfa sig.  
Þekking okkar á hreyfingunni sjálfri er undirstaða færni. Við vitum hvernig á að hreyfa sig og reynum að fylgja því.Þekking byggir á sambandi okkar við umhverfið, tilfinningu. Stöðugu samspili hreyfingar við skynjun. Hægt er að einfalda verkefni (simplification) í þjálfun.
Þjálfun hreyfinga er hægt að brjóta niður í minni einingar og setja svo saman í heild. Hugmyndin um að hreyfingarnar séu byggðar á samsettum hreyfingum.Hreyfingar verða aðeins þjálfaðar upp í færni þegar hreyfingin er samtengd mikilvægustu upplýsingum í umhverfi okkar (skynjun). Skynjun og hreyfingu má ekki slíta í sundur, ef þjálfa á færni.
*tafla byggð á samantekt frá Rob Gray (höfundur). (2020, 29. október). The Two Skill Acquisition Approaches: Key Differences. https://www.youtube.com/watch?v=cCsezh7ijzs

Nokkrar leiðir sem byggja á hugmyndum hreyfivistkerfa hafa verið þróaðar til að koma þessum aðferðum til skila inn á æfingarnar sjálfar. Ólínuleg kennslufræði (Non-linear pedagogy) er ein og Takmarkana-miðuð nálgun (Constraint led approach) er önnur þó þær séu skyldar. Nánar verður fjallað um þessar aðferðir síðar.

Lykilatriðið er að það er í höndum þjálfarans að hanna verkefnið sjálft (æfinguna) á þann hátt að þær hreyfingar sem leitast er við að þjálfa birtist náttúrulega í verkefninu eins og það er sett upp. Með þessu þarf þjálfarinn í raun lítið að segja til að leiðrétta sjálfa hreyfinguna því hún er mótuð af umhverfinu og samspili leikmannsins jafnóðum.

Áhersla þjálfarans á æfingum að vera fyrst og fremst á verkefninu sjálfu. Þar er átt við markmið og reglum æfingarinnar, svæði sem unnið er á (stærð), fjölda þátttakenda, áhöld sem notast er við, allt þættir sem hægt er að breyta á staðnum. Auk þess geta mikilvægir umhverfisþættir haft áhrif svosem undirlag og veður svo það helsta sé nefnt. Allir þessir þættir koma saman og mynda það umhverfi sem hreyfingin fer fram í og birtist. Ef hreyfingarnar eru ekki eins og upp var lagt með þarf að leita skýringa í öllum þessum þáttum, verkefninu, einstaklingnum sjálfum (líkamlega/hugarfarslega), eða mögulega ytri umhverfisþáttum (aðstöðu eða félagslegum þáttum).

Þríhyrningurinn hér til vinstri skýrir hvernig takmarkanir í umhverfi okkar, verkefninu sjálfu og í einstaklingnum spila saman og hafa áhrif á þær hreyfingar sem myndast. Til hægri tekur svo við samspil skynjunar og hreyfinga til að útfæra samhæfðar hreyfingar. https://www.researchgate.net/publication/10810355/figure/fig1/AS:394382139248644@1471039437457/Newells-model-of-interacting-constraints-adapted-to-illustrate-the-resulting-effects-on.png

Undir þessum aðstæðum hafa allir leikmenn sem taka þátt í verkefninu markmið til að vinna eftir (takmörkun á hreyfingu) og mikilvægt frelsi til að leita að leiða til að leysa þau sem best. Þau leita að bestu aðferðinni út frá eigin líkama, út frá eigin skynjun á möguleikum (hreyfiboðum, e. affordances). Þannig nýtum við fjölhæfni líkamans til að leysa sama verkefnið á ólíkan hátt til hins ítrasta, út frá hugmyndinni um að sömu hreyfinguna sé fræðilega ómögulegt að endurtaka (repetition without repetition).

Í þessari nálgun er mikið lagt upp úr lausnaleit við vandanum og því að prófa sig áfram með ólíkar leiðir (bæði þjálfarar og íþróttafólk). Í gegnum það ferli fer nám fram og við verðum betur samtengd (attuned) þeim þáttum í umhverfinu sem móta hreyfingar okkar. Við þessar aðstæður gæti þjálfarinn þurft að hugsa leiðbeiningar sínar upp á nýtt, en á móti gætu aðrar hugmyndir sem áður voru geymdar eignast nýtt líf.

Við höfum vitað að æfingar ættu að vera „leiklíkar“ (representative) í nokkurn tíma, en þessar kenningar hafa tvær ólíkar leiðir við að ná því fram. Kenningar hreyfivistkerfa leggja til að einfalda megi þá færni sem á að þjálfa og ýkja upp aðstæður til að leysa (viðhalda mikilvægum upplýsingum í umhverfinu til að skynja). Dæmi um slíkt væri að breyta áhöldum eða reglum verkefnisins, eins og að spila leik með minni/stærri/mýkri bolta. Á meðan myndu hefðbundnar aðferðir leggja til að “keppnisútgáfan” væri sneidd niður í einingar (mikilvægar upplýsingar sem móta hreyfingar teknar úr sambandi og samhengi), hreyfingarnar þjálfaðar í einangrun og settar saman líkt og Legokubbahús að lokum.

Eitt dæmi sem dregur fram þessi atriði gæti verið að rekja bolta milli keilna (t.d. handbolti/fótbolti/körfubolti). Í því verkefni vantar upplýsingarnar fyrir leikmenn til að búa til samtengingar sem þarf til að þjálfa færnina sem er mikilvæg í leik gegn lifandi mótherjum. Keilurnar hreyfast ekki, gera engar kröfur um viðbragð og þess utan beina þær athygli leikmanna að jörðinni þegar mikilvægustu upplýsingarnar í leik eru allt í kring.

Samkvæmt kenningum hreyfivistkerfa skortir mikilvægar upplýsingar inn í þetta verkefni fyrir leikmanninn til að styrkja færnina í því að rekja bolta í leik. Hér er aðeins verið að þjálfa meðferð boltans, sem gæti átt rétt á sér við einhverjar kringumstæður, en er ekki færni, né heldur hæfni sem gerir frábæra leikmenn að frábærum leikmönnum. Photo by Nigel Msipa on Unsplash.

Sjálfur hef ég margoft boðið upp á svona æfingar þar sem dripplað er á milli keilna og þær jafnvel „gabbaðar“, – en ekki meir. Það eru til aðrar og betri leiðir. Ég er líka þess fullviss að þjálfarar geta tekið gamalkunnar æfingar og betrumbætt þær með þessar kenningar að vopni. Leiðarstefið í þeirri hugsun er að búa til verkefni sem býður upp á þær hreyfingar sem á að þjálfa og festa í sessi. Meira um það síðar.

Heimildir sem meðal annars er stuðst við í þessari grein

Button, C. (2021). Dynamics of skill acquisition: An ecological dynamics approach (Second edition). Human Kinetics, Inc.

Chow, J. Y., Davids, K., Button, C., & Renshaw, I. (2016). Nonlinear pedagogy in skill acquisition: An introduction. Routledge.

Gray, R. (2021). Skill Acquisition Presentations—YouTube. https://www.youtube.com/