Atvinnumennskan: Hverju mætir Ómar Ingi í DK?

Umræðan á Twitter er oft lífleg og skemmtileg. Ein slík hefur átt sér stað undanfarna daga um þá ákvörðun Ómars Inga Selfyssings sem spilað hefur með Val undanfarin 2 ár að flytja sig um set og ganga til liðs við Aarhus í Danmörku. Vaknaði þá spurningin hvort þetta skref væri stigið of snemma á ferli Ómars.

Screen Shot 2016-04-22 at 23.16.12

Að mæla handboltalega getu einstaklings getur reynst afar erfitt í dýnamískri liðsíþrótt. Það sem er hins vegar tiltölulega einfalt að mæla er líkamsstærð og frammistöðugetu tilvonandi andstæðinga Ómars. Þannig getur hver leikmaður borið sig saman við þær aðstæður sem atvinnumennskan býður upp á. Eftir þessu kallaði Rúnar Kárason í kjölfarið.

Screen Shot 2016-04-22 at 10.09.29

Það besta í þessu er að, það hefur töluvert verið gert af því að mæla og rannsaka fullorðna handboltaleikmenn undanfarin ár, meira að segja í Danmörku. Skoðum það aðeins nánar.

Árið 2014 komu út tvær greinar (grein 1 og grein 2) eftir Lars B. Michalsik og félaga sem fjalla um leikkröfur og frammistöðu handboltaleikmanna í efstu deild í Danmörku. Um 187 leikmenn sem tóku þátt í rannsókninni í grein 1 kemur fram að meðalaldur þeirra var um 27,3 ár ±3,6, og fjöldi ára í efstu deild var að jafnaði 8,4±3,4 ár.

Líkamsstærð leikmanna (n=187) var tekin saman í grein 1. Meðalhæð þeirra var 190,1±6,1 sm og meðalþyngd 92±7,6 kg. Ennfremur kom fram í grein 2 að líkamsþyngd leikmanna var breytileg eftir leikstöðum. Að meðaltali vógu þeir 90,9±9 kg, þar sem hornamenn (80,9±5,5 kg) voru léttastir og línumenn þyngstir (101,4 kg±8,3 kg), á meðan litlu munaði á skyttum og miðjumönnum (91,7±6,7 kg) og markmönnum (94,3±6,8 kg) annars vegar. Þar var úrtak leikmanna þó mun minna eða 26.

Hámarkssúrefnisupptaka er einn algengasti mælikvarðinn á þol og stundum talað um þoltölu. Einingin fyrir þoltöluna er jafnan millilítrar súrefnis sem líkaminn tekur upp á mínútu fyrir hvert líkamskíló (ml O2·min-1·kg-1). Enginn munur var á þoli eftir leikstöðum og meðal-þoltalan var 57.0±4.1 fyrir allann hópinn (n=26). Til að setja það enn frekara samhengi, er það á við að hlaupa um 3050m í Cooper testi (Cooper test á brainmac). Sömu 26 leikmenn tóku Yo-Yo Intermittent Recovery 2-prófið, sem er erfiðari útgáfan af Yo-Yo hvíldarprófinu (recovery test) og notast við 10 sekúndna pásu milli spretta. Leikmenn hlupu að meðaltali 895±184m  sem jafnast á við stig 21:3 á prófinu.

Lóðrétt stökkhæð (vertical jump) er algengur mælikvarði í rannsóknum á afl íþróttamannins, því til að stökkva hátt þarf að útheimta mikinn kraft á stuttum tíma, og best er ef eigin líkamsþyngd er hagstæð (hátt hlutfall af fitufríum massa). Í svokölluðu countermovement stökki, með hendur á mjöðmum [CMJ] skoruðu hornamenn hæst (46,4±3,5 sm) útileikmanna en markmenn (þó aðeins þrír í þessari rannsókn) allra hæst eða 47,5±3,4 sm. Fimm-stökkva prófið úr standandi stöðu er annað algengt próf á afl íþróttamanna og voru niðurstöður sambærilegar eftir leikstöðum og var meðaltalið 13,39±0,7m.

Í 30m spretti stóðu hornamenn sig best, sem þarf svo sem ekki að koma á óvart. Þeir hlupu vegalengdina að meðaltali á 4,05±0,12 sekúndum, og besti tíminn var 3,91 sekúnda. Að lokum var skothraði með 3ja skrefa atrennu af gólfi mældur og þar köstuðu hornamenn og skyttur/miðjumenn fastar en línu- og markmenn. Mesti mældi hraðinn var 108,2 km/klst.

Að lokum, nokkur orð um kröfur leiksins í DK. Í leikgreiningu Michailsik frá 2014 (grein 1) kemur í ljós að hver leikmaður sem spilar 60 mínútur, brýst að jafnaði 1,5±1,4 sinnum í gegn í leik, tekur 6±4,2 hraðaupphlaup, er tæklaður harkalega 7,5±4,4 sinnum, og létt 27±18 sinnum í sókn í leik. Þar að auki tekur hann um 8,5±4,2 skot í leik og nýtir um 44,9±17,7% þeirra. Handboltamenn í DK hlaupa einnig töluvert í leik. Nánar tiltekið; hornamenn 3641±501m, þar af 10,9±5,7% á hárri ákefð, línumenn 3295±495m, þar af 8,5±4,3% á hárri ákefð og skyttur/miðjumenn um 3765±532m þar af 6,2±3,2% á hárri hákefð.

Hér hafa verið teknar saman niðurstöður mælinga á dönskum úrvalsdeildarleikmönnum sem birtar hafa verið á ritrýndum vettvangi. Þetta ætti að gera hverjum þeim sem hefur tekið mælingar á borð við þær sem taldar voru upp hér að ofan mögulegt að bera sig saman við þennan hóp leikmanna í DK. Það er sagt að sjálfsögðu með fyrirvara um notkun á sömu mæliaðferðum og sambærilegum aðstæðum.

Vona að þetta hjálpi í umræðunni.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s