Hvernig þjálfum við hið óþjálfanlega?

Nei, ég er ekki að tala um hvernig við strekkjum á íþróttafólki til að auka hæð þeirra. Ég er að tala um það þegar leikmenn leysa aðstæður í leik á aðdáunarverðan hátt, með leikskilningi og viðeigandi hreyfilausnum. Sumir leikmenn virðast eiga betra með að skynja þessar lausnir og útfæra en aðrir. Það eru þessi “Helenu Sverris” eða “Ómars Inga” móment sem eiga stóran þátt í að draga okkur á pallana og að skjánum.

Mín tilfinning er að við sem höfum starfað við þjálfun höfum litið á þessa eiginleika sem óþjálfanlega að mestu, nokkuð sem íþróttafólk fæðist með og þar af leiðandi hefur, nú eða ekki. Ég var leikmaður sem myndi sennilega falla í síðar nefnda flokkinn en aftur að því síðar.

Ástæðan fyrir því að ég tek þetta upp hér er að með núverandi, hefðbundnum þjálfunaraðferðum er mjög hætt við því að við séum ekki að þjálfa einmitt þessa færni (skill) í að skynja upplýsingarnar í umhverfi okkar á æfingum líkt og í leik. Það stafar af því að með hefðbundnum aðferðum er í lagi að slíta í sundur hreyfingar frá skynjun á upplýsingum í aðstæðum (án tillits til þeirra upplýsinga sem eru í boði, = hreyfiboða). Það er í lagi, bara á meðan við hreyfum okkur “eins” og ætlast er til í leik, eftir “réttu” leiðinni. Þannig mætti segja að við værum frekar að byggja upp venjur heldur en færni.

Þetta gerir það að verkum að í mörgum “drillum” eru ekki sömu möguleikar (hreyfiboð) og koma upp í leik sem þýðir að við erum ekki að þjálfa leiklíkt, eða þá færni sem raunverulega skiptir máli í keppni. Samkvæmt þessum hugmyndum er því hætt við að yfirfærslan verði lítil sem engin.

Aðferðir sem byggja á kenningum hreyfivistkerfa (ecological dynamics) nálgast þjálfun út frá öðrum forsendum (nánar fjallað um áður, en fyrst hér, og síðar í hlaðvarpi líka). Þar skiptir umhverfið miklu máli og þær upplýsingar sem við skynjum þar. Raunar er leikmaðurinn og umhverfið ein og sama einigin, óaðskiljanleg í þeim fræðum. Einn hornsteinanna er hugmyndin um hreyfiboð (affordances) sem aftur byggir á hugmyndinni um beina skynjun (direct perception). Bein skynjun byggir á því að upplýsingar í umhverfi okkar getum við nýtt beint án þess að það þyrfi að fara í gegnum meðvitað úrvinnsluferli líkt og haldið er fram í hefðbundnum kenningum (þar sem stjórn hreyfinga er líkt við úrvinnslu tölvu).

Dæmi um það er bolti sem nálgast okkur á lofti. Við skynjum feril boltans og stefnu og auk þess hversu hratt hann nálgast okkur út frá því hvernig hann stækkar í sjónsviði okkar. Umhverfi okkar dags daglega er uppfullt af svona sértækum upplýsingum (specifying information) sem við þurfum/getum brugðist við Önnur hversdagsleg dæmi eru það að mæta fólki á þröngum gangi án þess að rekast á, eða hjólandi umferð á göngustígum. Þetta á líka við keppni í hópíþróttum, en æfingar okkar innihalda oft mun minna af leiklíkum upplýsingum sem þó hafa svo mikið með þær hreyfingar sem við útfærum að gera.

Áhugaverð rannsókn á boxurum hefur til dæmis bent á samhengið milli þess hve langt einn boxari stendur frá andstæðing sínum á stóran þátt í að móta það hverslags högg viðkomandi leitar í. Þegar fjarlægðin er meiri eru stungur augljós kostur. Aðeins nær og þá opnast möguleikarnir á krókum og svo að lokum upphöggum. Þessi fjarlægð (síbreytileg) í bland við varnarhreyfingar andstæðingsins móta svo þau högg (hreyfiboð) sem eru til að velja úr á hverjum tíma.

Ef við horfum svo út frá einstaklingnum, þá skynjar hver einstaklingur aðstæður út frá sínum eiginleikum og því eru hreyfiboðin okkar (affordances) ólík á milli okkar. Þetta er lykilhugmynd sem hjálpar okkur við að útskýra ofangreinda eiginleika þessara leikmanna. Þau einfaldlega hreyfa sig og skynja (og skynja til að hreyfa) aðra möguleika en annað íþróttafólk í “sömu” aðstæðum.

Anja Andersen er eitt dæmi um leikmann sem sá og nýtti hreyfiboðin í umhverfinu á annan hátt en stöllur hennar.
Þessi hreyfing var líklega ekki “kennd” sérstaklega sem góð lausn við því hvernig skal snúa leikmann af sér í teig, a.m.k. ekki áður en Bergkamp skynjaði og útfærði í þessum leik gegn Newcastle.

Í hefðbundnum hreyfingum er ekki tekið tillit til þeirra upplýsinga og aðstæðna sem eru uppi hverju sinni og sköpuðu tækifærið til að framkvæma akkúrat þessa hreyfingu. Þess heldur er sjónum beint að hreyfingunni sjálfri, að rétta hreyfingin (slitin frá umhverfisupplýsingum) verði svo þaulæfð (drilluð, líkt og hermenn að marsera) að hún þarfnist ekki hugsunar og verði sjálfvirk eða ómeðvituð. Henni á svo að beita í leik þar sem aðrar og meiri takmarkanir og hreyfiboð koma við sögu.

Samtenging hreyfingar og skynjunar nærist á þjálfun þar sem þessi tenging er virkjuð og viðhaldið. Við getum leyft okkur að breyta áhöldum, reglum og umhverfisþáttum til að fá leikmenn til að skynja sama verkefnið á ólíkan hátt, prófa ólíkar lausnir og þannig þróa fleiri lausnir sem virka. Þessari tengingu hefur stundum verið líkt við að stilla analog útvarp. Það er suð í gangi og aðrar rásir finnast og stundum er merkið ekki skýrt, allt þangað til við stillum okkur á rétta bylgjulengd (upplýsingar).

Hvaða leiðbeiningar frá okkur beinast að umhverfinu? Því sem leikmaðurinn þarf að skynja og bregðast við í tilteknum aðstæðum. Getum við betur hjálpað leikmönnunum með slíkum ráðum? Ég man á einu þjálfaranámskeiði fyrir löngu að ég heyrði Ólaf Stefánsson tala um að beina athyglinni að hreyfingu næsta varnarmanns (en ekki þeim sem er beint í þér). Þær upplýsingar geta hjálpað til við að ákvarða hvenær losa skal boltann til að búa til yfirtölu. Slíkar leiðbeiningar myndu falla í þennan flokk leiðbeininga sem beina athyglinni að upplýsingum í umhverfinu og hjálpa við útfærslu hreyfinga. Að þessu getustigi er vegferð sem þarf að varða og byggja upp því við getum ekki ætlast til að ungir leikmenn geti nýtt og brugðist við sömu upplýsingum og reyndir leikmenn.

Sem varnarmaður í handbolta hjálpaði það mér að hugsa um hvaða hreyfingar eru algengastar hjá andstæðingnum, út frá aðdragandanum og aðstæðum. Hér spila margir þættir inn eins og hve löng er sóknin er orðin, hver staðan er í leiknum og hve mikið er af honum. Þær upplýsingar í bland við þau færi sem ég skynjaði að voru að verða til í vörninni okkar hjálpuðu varnarmönnum að “lesa leikinn”. Í raun með því að skynja hreyfiboð annarra út frá þeirra styrkleikum.

Ef við tökum svo líka til greina að vörnin leggur upp með ákveðna taktík, það er að beina andstæðingunum (með fölskum hreyfiboðum eins og að standa hönd) í ákveðnar aðstæður þá urðu ákveðnar hreyfingar enn líklegri en ella því þær “upplýsingar/aðstæður” sem við buðum upp á mótuðu hreyfingar sóknarmanna (og öfugt). Ég held að þessar hugleiðingar séu ekki ný vísindi fyrir þjálfara og leikmenn, en hugsanlega þó jarðtengt við eitthvað sem er haldfastara en bara okkar eigin reynslu. Það eru kenningar um hreyfiboð og beina skynjun eftir Gibson (1979) byggðar á vistfræðilegu sjónarhorni á um mótun hreyfinga.

Lokaorðin eru á þessa leið. Ef við einbeitum okkur að rétta hreyfimynstrinu, án þess að huga að þeim upplýsingum og tækifærum sem eru í umhverfi íþróttamannsins þá náum við líklega ekki að þjálfa þessa færni (samtengingu) sem er svo eftirsóknarverð. Samspil hreyfingar og skynjunar virkjast ekki að fullu með þeim aðferðum. Þó svo við tökum upp nýjar aðferðir þýðir það þó ekki að öll getum við orðið jafn flink og ofangreindir leikmenn og með þessu verðum við öll frábær í að lesa leikinn. Anja og Dennis voru dæmi um leikmenn sem höfðu afburða skynjun á umhverfið, höfðu mikla og sterka samtengingu (attunement).

Þegar við hugsum um leiðbeiningar okkar og þau verkefni sem við leggjum fyrir gæti verið áhugavert að staldra við og rýna í aðferðir. Sumt sem þegar er gert fer vel saman við ofangreindar hugmyndir og annað ekki. Ég myndi halda að í dag séum við flest að blanda saman aðferðum sem eiga tengjast hefðbundnu aðferðunum og svo hugmyndum hreyfivistkerfa án þess að vita það endilega.

Að velta fyrir sér þessari nýju nálgun mun eflaust hjálpa þjálfurum að móta æfingar svo að þessi færni að tengja saman hreyfingar og skynjun samtímis, muni eflast. Þannig mætti þjálfa einmitt þá færni (ekki venjur) sem við metum svo mikils, og var áður mögulega talin meðfædd og óþjálfanleg.

*vegna krassandi titils á þessari grein þá set ég fyrirvara. Ég get ekki ábyrgst að það sem var erfitt í þjálfun verði auðvelt með þessum aðferðum. Augljóslega hafa komið fram framúrskarandi leikmenn þrátt fyrir að hefðbundnar aðferðir hafi verið notaðar. Hér er ætlunin að kynna til leiks aðra nálgun við sama vanda sem ætti að geta gefið góða raun. Ég tel einnig að það sem fram kemur hér sé aðeins byrjunin í því að tileikna okkur nýjar aðferðir í þjálfun hreyfinga 🙂

Tengdar heimildir

Araújo, D., Davids, K., & Hristovski, R. (2006). The ecological dynamics of decision making in sport. Psychology of Sport and Exercise, 7(6), 653–676. https://doi.org/10.1016/j.psychsport.2006.07.002

Button, C. (2021). Dynamics of skill acquisition: An ecological dynamics approach (Second edition). Human Kinetics, Inc.

Gibson, J. J. (1979). The Ecological Approach to Visual Perception. Boston: Houghton
Mifflin.

Otte, F. W., Davids, K., Millar, S.-K., & Klatt, S. (2020). When and How to Provide Feedback and Instructions to Athletes?—How Sport Psychology and Pedagogy Insights Can Improve Coaching Interventions to Enhance Self-Regulation in Training. Frontiers in Psychology, 11, 1444. https://doi.org/10.3389/fpsyg.2020.01444

Handbolti á heimavelli komið í loftið

Þá er loks komið að því að tilkynna að verkefni sem við Kristján Halldórsson fengum styrk fyrir er komið í loftið. Fram að jólum mun það birtast í smáum skömmtum eins og sönnu jóladagatali sæmir.

Fyrsti pakki er hér að finna á vefsíðu verkefnisins Handbolti á heimavelli

Hér er svo stutt vídeó sem segir frá því hvernig verkefninu er miðlað.

Innsýn í leik íslensks handbolta með gögnum frá HBStatz / Insights into Icelandic handball statistics

Í nýlegri grein um frammistöðugreiningu í handbolta á gögnum frá tímabilinu 2017-2018 í úrvalsdeild karla og kvenna kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Hér að neðan verður tæpt á því helsta sem kom í ljós en greinina í heild má nálgast hér: https://doi.org/10.5507/ag.2022.001.

Í efstu deild karla (hálfatvinnumennska) gefa niðurstöður til kynna að munurinn á milli liða sem tapa og þeirra sem sigra sé að mörgu leiti sambærilegu við það sem gerist á efstu stigum (sér í lagi skotnýting, markvarðsla og skotnýting utan 9m). Með smá tölfræðiæfingum fundum við út að með því að horfa bara til skotnýtingar, stolinna bolta, tæknilegra mistaka og markvörslur úr vítaköstum mætti spá fyrir sigurvegara í 84% leikja.

Í efstu deild kvenna eru sigurvegarar með betri skotnýtingu, markvörðslu, 7m nýtingu og stoðsendingar. Þá er það áhugavert að með því einu að horfa í markvörðslu og skotnýtingu má spá fyrir sigurvegara í 87% tilvika.

Þegar við berum tölfræðina í leikjum kvenna og karla saman sjáum mun á meðaltölum 9m skotnýtingar, rauðra spjalda, 2 mínútna brottvísana og tæknifeila. Það mætti hugsa sér ýmsar skýringar á þeirri niðurstöður. Þær sem við lögðum fram var að karlar eru almennt hærri og þyngri sem gerir þeim auðveldrara að skjóta nógu fast lengra frá marki (9m skotnýting), ásamt fleiri (aðrar rannsóknir) einn á einn leikstöður sem geta endað með 2 mín brottvísun eða rauðu spjaldi. Eins og sér er erfitt að útskýra tæknifeila (technical fouls) en þar gæti dómgæsla og t.d. varnaruppstilling haft mikið að segja.

Við erum að sigla inn í tíma með spennandi tækifærum til að greina handbolta og aðrar íþróttir með allri þeirri tölfræði sem í boði er. Þessi rannsókn hafði eftirfarandi takmarkanir. Stuðst var við niðurstöðu (outcome) tölfræði sem varpar ekki ljósi á ferlanna á bakvið (process) niðurstöðuna. Það var ekki tekið tillit til ólíks styrkleika liðanna í greiningunni (t.d. sterkt lið gegn veiku) sem gæti varpað betra ljósi á einkenni leikja milli liða af söma eða ólíkri getu.

Það er augljóst að stórt hlutverk markmanna endurspeglast vel í þessari tölfræði og mætti færa rök fyrir því að sú tölfræði sem haldi er gefi einna bestu mynd af hlutverki markmanna. Það er til að mynda erfiðara að setja tölur á framlag einstakra leikmanna í vörn og vel tímasett blokk línumanns sem opnar vörnina er ekki skráð sem stoðsending. Það eru klár tækifæri til að taka þessar greiningar áfram og vinna gögnin frá HBStatz meira. Hlakka til þeirrar vinnu og fylgist með 🙂

In English

Our paper on #performanceanalysis in #handball in @olísdeildin in collaboration with @hbstatz was just published recently in @actagymnica. For the full article visit, https://doi.org/10.5507/ag.2022.001 Here are the MAIN findings.

For MEN, results indicate differences between winning and losing team performances in man´s Icelandic amateur HANDBALL league are similar to those of elite teams (shots%, saves% and 9m shot%), statistically speaking. 84% of matches can be correctly classified (W/L) by only looking into shots%, #steals, #techincal fouls and 7m shot save%.

For WOMEN, results indicate winning team´s performances in Icelandic women´s handball are better than losing team´s in shooting%, saves%, 7m shots% and assists. Interestingly 87% of matches can be correctly classified (W/L) by only looking into TWO variables: Shots% and goalkeeper save%.

COMPARING gender play, a few variables emerged with moderate effect sizes: i) 9 m shot%, ii) red cards, iii) 2-minutes exclusions and iv) technical fouls indicating differences between the mean values of each gender. These differences can possibly be explained i) by men´s larger body size allowing for shooting from further away and ii) +iii) more high-intensity one-on-one situations and tackles in men’s handball. Still iv) the TF are difficult to explain with these data alone as it might be affected by factors such as defensive style of play and referees.

FURTHERMORE: Research into handball statistics is growing fast with more data available thanks to @hbstatz. Data from a whole season of women’s and men´s Icelandic top league amateur handball 2018-2019 was obtained and analyzed. Limitations include this analysis of the final result focusing solely on the outcome without regard to the underlying processes. The league is amateur and the results should be viewed in that context. The paper does not provide insight into how the opposition effect plays out when e.g. strong team faces a weak team or other strong teams.

CONCLUDING remarks. It´s obvious that the goalkeeper’s work is critical in men´s and women´s play in Icelandic handball and therefore their role is highlighted in this research. Their position is at the heart of the final outcome statistic, goal or save. It is for example way more difficult to detect the impact of a great defender (process) during play in the current statistics. There is evidence that Icelandic men’s play is similar to other elite in terms of outcome statistics while women seem to differ somewhat. There are definite possibilities to take an even closer look at the available data by defining more specific time frames and focusing on balanced games for example. More to come.

Tölfræðilegir lykilþættir á HM í handbolta?

Það er auðvelt að greina ástæður þess að eitt lið vann og annað tapaði, svona úr sjónvarpinu,- eftir á. Eða hvað? Frammistöðugreining (performance analysis) í handbolta hefur stóraukist undanfarin ár með bættu aðgengi að tölfræði leikja og meiri söfnun hennar.

Þegar niðurstöður eru greindar eftir á, út frá leikatriðum má finna þá þætti sem best aðgreina sigurvegarana frá hinum. Þessi eftir-á-aðferð getur gefið vísbendingar um mikilvægi þessara leikatriða, en gefa auðvitað enga skýringu á ferlinu á bakvið viðkomandi þætti eða tengslum þeirra í milli. En af því HM er að bresta á er því viðeigandi að kíkja á nokkur atriði.

Það hefur til dæmis komið í ljós við greiningu á leikjum á HM að betri nýting skota úr horninu, og fyrir utan 9m ásamt fleiri vörðum skotum í vörn greinir liðin sem komust í 8 liða úrslit frá hinum sem komust ekki svo langt. Þá virðist nýting í skotum úr hornum heilt yfir hafa farið batnandi og færri skot eru að jafnaði varin af vörninni (Almeida et al., 2020). Þetta myndi ég túlka sem bætta taktíska ákvörðunartöku í sókninni.

Rannsókn sem skoðaði þróun leiks á HM frá 2005 til 2019 benti á betri skotnýtingu úr gegnumbrotum, betri markvörðslu, betri nýtingu skota af 6m ásamt fleiri stolnum boltum sem einkenni þeirra liða sem komust í undanúrslitin umfram önnur lið (Meletakos et al., 2020). Það er þá eitthvað til í áherslu þjálfara á dauðafærin 🙂

Að lokum, ef við viljum reyna að spá fyrir þá tölfræðiþætti sem gætu skilað sigri liða á næstu dögum. Þá tilgreindi rannsókn á HM karla frá 2015 (Daza et al., 2017) eftirfarandi leikatriði til að auka sigurlíkurnar í þessari mikilvægisröð. Það gæti verið gaman að hafa auga með eftirfarandi þáttum í leik hjá íslenska landsliðinu á næstu leikjum á HM:

Lið þurfa að spila með…

 • færri en 12 tapaða bolta
 • færri en 12 bolta varða af markmanni andstæðingsins
 • 12 eða fleiri markvörðslur
 • 5 eða fleiri stolna bolta
Photo by Marino Bobetic on Unsplash

Áfram Ísland

Heimildir

Almeida, A. G., Merlin, M., Pinto, A., Torres, R. da S., & Cunha, S. A. (2020). Performance-level indicators of male elite handball teams. International Journal of Performance Analysis in Sport, 20(1), 1–9. https://doi.org/10.1080/24748668.2019.1694305

Daza, G., Andrés, A., & Tarragó, R. (2017). Match Statistics as Predictors of Team’s Performance in Elite competitive Handball. [Estadística del partido como predictor del rendimiento de equipo en el balonmano de élite]. RICYDE. Revista Internacional de Ciencias Del Deporte, 13(48), 149–161. https://doi.org/10.5232/ricyde2017.04805

Meletakos, P., Konstantinos, N., & Iaoannis, B. (2020). Stable and changing characteristics of high-level handball as evidenced from World Men’s Championships. Journal of Physical Education and Sport, 20(03), 1354–1361. https://doi.org/10.7752/jpes.2020.03187

Handboltafólk: Viljið þið hanga lengur… – í loftinu?

Væri ekki geggjað að hafa aðeins meiri tíma í loftinu til að ákveða skotið? til að ná skotinu yfir vörnina? til að hækka hávörnina?

Með stökkþjálfun má með nokkuð öruggum hætti auka stökkkraft hjá unglingum (15-20 ára) um rúmlega 6,4 sentimetra að meðaltali (4.9-8.4 sm). Þetta kemur fram í nýlegri samantektargrein um stökkþjálfun í handbolta á keppnistímabili (Ramirez-Campillo et al., 2020). Þessum bætingum má ná fram með aðeins 2x æfingum í viku á 8-10 vikna tímabili af skipulagðri þjálfun.

Um er að ræða samantekt niðurstaðna af 5 rannsóknum þar sem notast var við frá 1000-2000 stökk í hverju prógrammi. Sumar rannsóknir þjálfuðu spretti, styrk og stefnubreytingar samhliða stökkþjálfuninni.

Hér má sjá dæmi um stökkþjálfunaráætlun sem var framfylgt í einni af rannsóknunum samhliða handboltaþjálfun.

VikaNeðri hluti
æfing x sett x endurtekningar
Efri hluti
æfing x sett x endurtekningar
140 sm grindarhopp x 5 x 10dýnamísk armbeygja x 3 x 10
240 sm grindarhopp x 7 x 10dýnamísk armbeygja x 3 x 10
340 sm grindarhopp x 10 x 10dýnamísk armbeygja x 3 x 11
460 sm grindarhopp x 5 x 10dýnamísk armbeygja x 3 x 12
540 sm fallhopp x 4 x 10dýnamísk armbeygja x 4 x 10
640 sm fallhopp x 4 x 10dýnamísk armbeygja x 4 x 11
740 sm fallhopp x 4 x 10dýnamísk armbeygja x 4 x 10
840 sm fallhopp x 4 x 10dýnamísk armbeygja x 4 x 12
(Chelly et al., 2014)

Það er því engin ástæða til að tapa bætingum frá undirbúningstímabilinu, þvert á móti sýna þessar niðurstöður fram á hið gagnstæða, – það er hægt að halda áfram að bæta sig.

Hafið eftirfarandi atriði í huga áður en farið er af stað

 • Þessi þjálfun getur í mörgum tilfellum verið hrein viðbót við það sem þegar er verið að gera.
 • Ef leikmenn eru ekki vanir stökkþjálfun eða hafa lítinn grunn er skynsamlegra að byrja rólega, t.d. með sippþjálfun og vinna sig upp, styttri lotur í einu og fjölga svo stökkum jafnt og þétt.
 • Leikmenn sem eru með góðan stökkkraft nú þegar koma til með að bæta sig minna í sentimetrum talið en þeir sem eru styttra á veg komnir
 • Leggið áherslu á góða framkvæmd stökks, tækni umfram allt, sérstaklega hjá ungum iðkendum.
 • Það getur verið mjög áhugavert og hvetjandi að setja upp mælingu í upphafi þjálfunar og svo aftur um 6 vikum síðar. Hægt er að styðjast við lóðaplötu, málband og bandspotta + hendur á mjöðm útgáfuna t.d. í lóðréttu jafnfættu uppstökki.

*Ég mæli ekki með þessu stökkprógrammi sérstaklega umfram önnur. Mikilvægast er að aðlaga þjálfunina einstaklingnum hverju sinni.

Heimildir

Chelly, M. S., Hermassi, S., Aouadi, R., & Shephard, R. J. (2014). Effects of 8-Week In-season Plyometric Training on Upper and Lower Limb Performance of Elite Adolescent Handball Players: Journal of Strength and Conditioning Research, 28(5), 1401–1410. https://doi.org/10.1519/JSC.0000000000000279

Ramirez-Campillo, R., Alvarez, C., Garcia-Hermoso, A., Keogh, J. W., García-Pinillos, F., Pereira, L. A., & Loturco, I. (2020). Effects of jump training on jumping performance of handball players: A systematic review with meta-analysis of randomised controlled trials. International Journal of Sports Science & Coaching, 174795412092893. https://doi.org/10.1177/1747954120928932

Deutche Sporthochschule og FINAL4

Ég var svo heppinn að fá tækifæri til að fara í kennsluferð í íþróttaháskólann í Köln í síðasta mánuði. Þar var ég í eina viku og kenndi nemendum sem höfðu valið handbolta bæði verklega tíma og bóklega, í kennslufræði íþrótta og þjálfun í handbolta fyrir lengra komna. Þar kynntist ég handbolta prófessor þeirra í Köln, Frowin Fasold. Hann kynnti mig fyrir skemmtilegum hugmyndum að leikjum fyrir handbolta.

20170524_100611

Eftir viku í kennslu við háskólann fékk ég að fara með 3.fl. Fjölni í æfingaferð til Saarbrucken. Sú ferð endaði á FINAL4 í Köln þar sem við sáum PSG, Veszprem, HC Vardar og Barcelona keppa.

koln_leikur_saarbruecken

Mjög ánægjuleg og skemmtileg ferð vægast sagt í góðum hópi leikmanna og þjálfara.

USA og Ísland: Ekki svo ólíkt eftir allt

Um páskana heimsótti verkefnisstjóri afreksíþróttasviðsins IMG akademíuna, staðsetta í Sarasota og styrkþjálfara í amerískum fótbolta hjá háskólaliði University of Florida, Florida Gators. Heimsóknirnar voru afar áhugaverðar og veittu innsýn í heim sem virðist á stundum afar fjarlægur og draumkenndur.

Markmið ferðarinnar var að fá innsýn í og kynnast þeirri menningu sem er í skólum í Bandaríkjunum fyrir nemandanum sem íþróttamanni (student athlete). Sú hefð hefur verið í marga áratugi og er íþróttakerfið þeirra byggt upp í kringum þátttöku í skólaliðum. Á sama tíma er þessi hefð að riðja sér til rúms hér á landi með sérstökum sviðum og brautum þar sem íþróttaiðkun er gert hátt undir höfði, samanber Afreksíþróttasvið við Borgarholtsskóla [st. 2008] og fleiri góðum sem mörg hófu starfsemi fyrir um 10 árum þegar lögum um framhaldsskóla var breytt. Þó ferðin hafi verið stutt voru skilaboðin sem ég tek með mér heim mikilvæg að ég tel.

IMG hefur yfir að ráða allri þeirri aðstöðu sem nokkur þjálfari getur hugsað sér til kennslu og þjálfunar enda dyggilega studdir af stórfyrirtækjum. Florida Gators býr við svipaða aðstöðu þar sem allt virðist vera til alls, og pressan og peningarnir í spilunum miklir.

Skipulag náms við IMG akademíuna.

Screen Shot 2017-04-24 at 23.46.56

Af því sem ég lærði af ferðinni er meðal annars þetta, sem ég tel að við getum bætt…

 • gera þjálfurum kleift að eyða meiri tíma í samskipti við nemendur og við hvorn annan
 • samskipti við félögin og þjálfara þeirra
 • það er hægt að gera ótrúlega mikið með tiltölulega einfaldri tækni og tækjum, og á sama tíma muna að það er ekkert sem kemur í stað samskipta milli íþróttamanns og þjálfara
 • mælingar og eftirfylgni í ríkari mæli, en þó ekki meir en þjálfarar hafa við að greina og vinna úr
 • búa til tækifæri í okkar félögum og starfsemi fyrir þjálfara að hittast og deila hugmyndum og reynslu, t.d. með sameiginlegum rýmum til vinnu milli æfinga
 • við erum líklega að keyra of stíft á okkar íþróttamenn þegar á heildina er litið, því þegar margir þjálfarar koma að, er það aðeins íþróttamaðurinn sem veit og hefur yfirsýn (þó ekki alltaf einu sinni) yfir hve mikið hefur verið þjálfað. Sem ýtir undir þann mikilvæga punkt að kenna og gera íþróttamennina sjálfstæða.
 • ég tel að á meðan að sá eiginleiki að geta hoppað í öll hlutverk þjálfarans sé mikilvægt, ættum við að vera að nálgast þann stað hér heima að rúm ætti að skapast fyrir aukna sérhæfingu þjálfara

Meðal þess sem ég tel að við ættum að halda áfram að gera vel…

 • íþróttafélagakerfið á Íslandi er gott, og hentar mjög vel til að þjálfa upp íþróttamenn
 • halda áfram að mennta góða þjálfara sem verða alltaf kjarninn í góðum árangri
 • meira er ekki alltaf betra og hægt er að ofgera íþróttamönnum, mikilvægt að gefa andrými og tímabilaskipta námsárinu

Nýleg grein um interval-hlaup í handboltaþjálfun

Hugsanlega eru þjálfarar farnir að huga að skipulaginu á undirbúningstímabilinu með tilheyrandi lyftingum og hlaupum. Nýlega var þessi grein birt í Journal of strength and conditioning research í febrúar síðastliðnum og er áhugaverð. Greinin heitir Effects of High-Intensity Interval Training with Different Interval Durations on Physical Performance in Handball Players og er eftir þá J. Viaño-Santasmarinas og félaga. Þeir rannsökuðu áhrif tveggja interval þjálfunaráætlana (löng hvíld vs. stutt hvíld) á unga (aldur: 22.7±3.9 ár; hæð: 181.5±6.6 sm; þyngd: 84.7±14.1 kg) vel þjálfaða handknattleiksmenn með um 11 ára þjálfunaraldur. Fljótt á litið gæti þessi lýsing á leikmönnum átt við mörg íslensk lið í efstu deild hér á landi.

Þátttakendur sem voru 18 talsins var skipt í tvo hópa og þeir æfðu aukalega 2 sinnum í viku í 6 vikur (samtals 12 æfingar). Uppsetningin var þessi:

 • Stutt hvíld: 2 set af 22 sprettum í 10 sek @95% ákefð*
 • Lengri hvíld: 5 set af 3 míntúna hlaupum @85% ákefð*

* í rannsókninni var notast við 30-15 intermittent fitness test til að ákvarða hlaupahraðann hjá hverjum og einum í hlaupalotunum.

Til að gera langa grein stutta, þá skiluðu báðar aðferðir (stutt hvíld með sprettum og lengri lotur) bætingu upp á rúmlega 8% þegar árangurinn var skoðaður út frá hlaupahraða á 30-15 prófinu fyrir og eftir þetta 6 vikna inngrip. Það samsvarar bætingu á hámarkshlaupahraða úr 16.77±1.69 km/klst [stutt hvíld] fyrir inngrip í 18.13±1.74 km/klst og úr 16.58±2.28 í 17.91±2.35 km/klst [löng hvíld].

Þá bættu leikmenn einnig samanlagðan tíma og meðaltíma í hraðaþolsprófi [Repeated Sprint Ability] Höfundar mæla með því að notast við aðferðina með stuttu hvíldinni og háákefðarsprettunum, þar sem sú aðferð er leiklíkari handbolta.

Það sem er vert að taka fram líkt og höfundar greinarinnar gera, er að í þessari rannsókn hefði verið mjög gagnlegt að hafa viðmiðunarhóp (control) sem ekki fengi inngripið. Það er þó hægara sagt en gert að fá stóran og metnaðarfullan hóp einstaklinga og láta suma æfa meira en aðra á undirbúningstímabili, og erfitt fyrir rannsakandann að selja þá hugmynd, jafnvel þó málstaðurinn sé góður.

Að lokum myndi ég mæla með því að byrja undirbúningstímabilið með hlaupum með löngu hvíldinni og færa mig svo yfir í stuttu hvíldina með hærri ákefð eftir því sem á líður undirbúninginn og nær dregur keppnistímabilinu.

Heimild:

Viaño-Santasmarinas, J., Rey, E., Carballeira, S., & Padrón-Cabo, A. (2017). Effects of High-Intensity Interval Training with Different Interval Durations on Physical Performance in Handball Players: Journal of Strength and Conditioning Research, 1. https://doi.org/10.1519/JSC.0000000000001847

Meiri fagmennska – Amen

Síðast liðið haust hófst samstarf HSÍ og KSÍ við íþróttafræðisvið Háskólans í Reykjavík. Meðal fyrstu verkefna var frammistöðumæling HR á A-landsliði kvenna með nýjum landsliðsþjálfara Axeli Stefánssyni í ágúst 2016. Síðan þá hafa farið fram mælingar á A – landsliðum karla og kvenna, U21 karla og U19-U17 og U15 ára kvenna.

20170106_172756
Mynd frá mælingum þann 7. janúar síðastliðinn þar sem allir hópar kvennalandsliða voru mældir á sama deginum. Skýrslur með niðurstöðum hafa verið sendar landsliðsþjálfurum til upplýsinga. Mynd: Sveinn Þorgeirsson

Samstarfið hefur farið vel af stað og frekari mælingar fyrirhugaðar á næstunni. Samvinna HSÍ og HR byggir á vinnu meistaranema við íþróttafræði HR sem vinnur sín verkefni og þ.m.t. lokaverkefni í tengslum við áðurnefndar mælingar. Sjá nánar hér “Kostuð meistaranámsstaða“. Sambærilegt starf er unnið með KSÍ í tengslum við mælingar á A-landsliði kvenna.

Það verður ekki betur séð en að þessi vinna sem farin er af stað á íþróttafræðisviði HR falli mjög vel að þeim hugmyndum sem koma fram í nýlegri skýrslu um starfsemi Afrekssjóðs ÍSÍ. Sjóðurinn fékk síðasta sumar kærkomna styrkingu þegar samningar náðust um mikla aukningu á framlögum ríkisins til sjóðsins. Í framhaldinu voru reglur hans endurskoðaðar og tillögur að nýrri stefnu sjóðsins lagðar fram og eru nánar tilgreindar í skýrslu vinnuhópsins.

Þar er meðal annars haft eftir álitsgjöfum:

Auka fagteymisþjónustu sérstaklega með reglulegum mælingum s.s. á þoli, liðleika og tækni o.fl.

og ennfremur

Öll umgjörð íþróttamannsins myndi eflast. Fremstu leikmenn fengju 100% stuðning hvað varðar þjálfun hjá fremstu fagaðilum. …. Hægt yrði að halda úti reglulegri líkamsþjálfun og mælingum undir handleiðslu fagaðila.

Öll þessi þróun er sérstaklega ánægjuleg þar sem fyrir rétt um 2 árum hélt ég stutt erindi á Fyrirlestrarmaraþoni HR um framtíð íslensks handbolta. Þar var mín ósk heitust að rannsóknir myndu aukast og fagmennska í kringum boltann. Það má með sanni segja að mér hafi orðið að ósk minni og framundan séu spennandi tímar.