Jólaleikjafjöri frestað fram á nýtt ár

Því miður hefur verið tekin ákvörðun um að fresta viðburðinum Jólaleikjafjöri sem fara átti fram 19. desember. Við bíðum betri tíma á nýju ári þegar betur árar í heimsfaraldrinum og bólusetning barna á grunnskólaaldri orðin víðtæk. Því má gera ráð fyrir að viðburðurinn verði auglýstur aftur á nýju ári þegar nær dregur vori og aðstæður leyfa.

Takk fyrir sýndan áhuga og ég hlakka til að geta deilt afurðum verkefnins með ykkur þegar að þessu kemur.

Gleðilega hátíð!

Auglýst eftir þátttakendum í gerð kennsluefnis

Í tengslum við verkefni mitt Handbolti á heimavelli býð ég til Jólaleikjafjörs þann 19. desember þar sem við munu fara í skemmtilega leiki með áherslu á kast og grip fyrir börn í 1. og 2. bekk og svo 3. og 4. bekk. Við munum taka upp myndefni á þessum viðburð til gerðar kennsluefnis í framkvæmd viðkomandi leikja.

Nánar um viðburðinn á heimasíðu verkefnisins:

Skráningarskjalið er að finna hér:  https://forms.gle/sQqUcn4Y1RLzjfLB6 

Frekari upplýsingar veiti ég í gegnum handboltiaheimavelli@gmail.com

Er til betri leið?

Ert til betri leið til að nota líkamsræktina? spurði blaðamaður Morgunblaðsins mig um daginn. Í sérblaði Moggans um heilsu frá því um síðustu helgi er að finna mitt stutta og klippta svar við þessari áhugaverðu spurningu.

Úr sérblaði Morgunblaðsins.

Ég var glaður með að fá að koma að þeirri nálgun í fjölmiðil að grundvallaratriðin varðandi hreyfingu til heilsuræktar skipta mestu máli, og þau eru vel þekkt. Þau eru þó líkast til ekki þau “söluvænlegustu” skilaboðin eða það sem fólk vill heyra þegar það er að hefja æfingar. Það er þeim mun mikilvægari að þessi skilaboði komist að í fjölmiðlum og skili sér svo við föllum síður fyrir gylliboðum sem eru oftast of góð til að vera sönn.

Grunnstefið í þeim skilaboðum hlýtur að vera að áhuginn sé til alls fyrstur. Að hafa áhuga (og það má rækta þann áhuga, t.d. með markmiðasetningu) á þeirri hreyfingu sem maður kýs sér til heilsuræktar, og gera hana hreyfingarinnar sjálfrar vegna, en ekki annarra ytri hvata myndi ég segja að væri fyrsta skrefið. Flestir þurfa að prófa ýmislegt, og stundum oftar en einu sinni til að vita hvort það ákveðið form hreyfingar henti, sérstaklega með hliðsjón af getu og þjálfunarsögu hvers og eins.

Undirstaðan á bakvið góða þjálfun þegar út í hreyfinguna er komið er svo að fylgja grundvallarreglum þjálffræðinnar. Þar gildir að

þjálfunin þarf að vera gerð af nógu miklum ákafa, og að vera fjölbreytt til að áreita jafnvægi líkamans og kalla fram varnarviðbrögð. Hún þarf að vera stigvaxandi, einstaklingsmiðuð, skipulögð og hugsuð til lengri tíma.

Sveinn Þorgeirsson

Hugmyndafræði Mike Boyle

Hér er góður fyrirlestur frá styrkþjálfaranum Mike Boyle sem hann flutti seint á síðasta ári fyrir CSCCA í BNA. Hann hefur góða og vel úthugsaða hugmyndafræði þegar kemur að þjálfun íþróttamanna þar sem hann tvinnar vel saman rannsóknir, reynslu og praktík. Það er sérstaklega gaman að hlusta á hvernig hann nálgast sína þjálfun og margar góðar venjur og aðferðir sem ég hef tileinkað mér frá honum. Því mæli ég með að aðrir þjálfarar kynni sér hið þær hið minnsta, því þetta á erindi við þjálfara í öllum íþróttagreinum.

Frábær grein um yngri flokka þjálfun

Eitt af þeim umræðuefnum sem mér þykir hvað skemmtilegast að taka er hvernig við eigum að byggja upp og þjálfa íþróttamenn framtíðarinnar, það er, börnin okkar.

Það er algjörlega ljóst að langtímamarkmið verða að stjórna allri þjálfun og ákvarðanatöku. Ofuráhersla á sigur og keppni í yngri flokkum hefur oft verið gagnrýnd og að míni viti, réttilega. Hér er ein grein sem fjallar vel um hversu mikilvægt er að börn fái að stunda íþróttir á sínum forsendum.

Skora á ykkur sem eruð að þjálfa, skipuleggjið íþróttastarf og eða eruð foreldrar, að kíkja á þessa grein.

https://stevenashyb.wordpress.com/2015/01/12/the-enemy-of-excellence-in-youth-sports/

Flottur hópur og gott starf!

Þá er önninni við afreksíþróttasviðið í Borgarholtsskóla að ljúka. Önnin hefur heilt yfir gengið vel og ýmislegt áhugavert átt sér stað. Nægir þar að nefna…

  • Við settum styrkþjálfun inn í allar greinar, fast einu sinni í viku. Æfingar fóru fram í World Class í Egilshöll.
  • Við buðum upp á íþróttasálfræði sem Hreiðar Haraldsson meistaranemi í íþróttasálfræði sá um og gerði mjög vel.
  • Við sendum í fyrsta skiptið út hóp í knattspyrnunni, taldi hann 27 manns í það heila með þeim Daða Rafnssyni og Sigurði Þorsteinssyni sem fararstjórum. Sá hópur fór til Tottenham í Englandi og gerði afar góða ferð.
  • Við bættum við íþróttagrein sem er vonandi komin til að vera. Vilhelm Már Bjarnason sá um íshokkíið í frábærri aðstöðu á skautasvellinu í Egilshöll.
  • Í desember verða veittir styrkir til þeirra sem komust í lokahóp í landsliði í sinni grein og fóru erlendis á þeirra vegum. Þetta er nýtt og mun vafalaust koma að góðum notum.
  • Í nóvember fór fram fundur með fulltrúum úr öðrum afreksíþróttasviðum á landinu. Þrjú komu frá FSu akademíunum og Kristján Ómar gat svarað fyrir Flensborg og hefur nú samanburð á okkar og þeirra starfi. Það var mjög áhugavert.

Flottri önn með flottum kennurum og glæsilegum hópi nemenda lokið. Við tekur spennandi vor!

Sveinn Þorgeirsson

Íþróttaakademía Fjölnis [ÍAF] gengur vel!

Vorið 2013 gekk ég á milli grunnskóla Grafarvogs og kynnti fyrir skólastjórnendum hugmynd að verkefni sem þau tóku öll vel í. Valfag fyrir nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla sem byggðist á íþróttagrein þeirra með bóklegri kennslu. Verkefnið fékk heitið íþróttaakademía Fjölnis og var sett af stað strax um haustið. Nú erum við á öðru starfsári og hefur verkefnið gengið vel.

Í fyrra stóð ÍAF nemendum til boða sem voru að æfa körfubolta, handbolta eða fótbolta í Fjölni. Starfið fyrir þessa nemendur byggir á einum bóklegum tíma í viku þar sem farið er yfir þætti er tengjast árangri, ástundun íþrótta og heilsusamlegu líferni. Þar ber helst þemu á borð við sögu Fjölnis, þjálffræði, íþróttasálfræði, næringarfræði og markmiðssetningu. Nú í haust var svo opnað á nemendur í einstaklingsgreinum og fá þau bóklegu kennsluna.

Samhliða þessu eru tækniæfingar í boltagreinunum, þar sem áherslan er á annað og meira en það sem hægt er að veita á hefðbundnum liðsæfingum. Í fyrra var svo hluti námskeiðsins í formi hlaupa og snerpuþjálfunar í samstarfi við Óskar Hlynsson í frjálsu íþróttunum í Fjölni.

Featured image
ÍAF 2014-15

Starfið hefur frá byrjun verið fjölmennt og eru í dag rúmlega 40 nemendur skráðir, flestir úr boltagreinunum þremur. Við munum þróa verkefnið áfram og vinna í samstarfi við skólana, því það er ljóst að í verkefninu eru mikil tækifæri til að efla starfið sem þegar er unnið í deildum félagsins sem og samstarf innan deila.

Boris Akbachev á Youtube

Ég hef verið svo lánssamur að hafa fengið að kynnast Boris Akbachev handknattleiksþjálfara nokkuð vel undanfarin ár. Hann hefur kennt mér ótrúlega margt . Boris hefur þjálfað handbolta lengur en flestir og átt ríkan þátt í þjálfun margra af okkar færustu landsliðsmönnum undanfarna áratugi.

Boris Bjarni á æfingu
Boris Akbachev

Ég hef fengið að taka upp þjálfun hjá Boris í nokkur skipti. Upptökurnar eru meðal annars frá því þegar hann hefur komið og þjálfað á Afreksíþróttasviðinu í Borgarholtsskóla. Mest af efninu er þó frá tíma hans með HKD Fjölnis (2010-2013). Hér er pakkinn, öllum opinn BORIS ACADEMY.

Njótið.