Það voru sönn forréttindi að fá að fylgja um 50 manna hópi frá handknattleiksdeild Fjölnis sem tók þátt á stærsta handboltamóti í heimi – Partille Cup í Gautaborg í Svíþjóð. Hópurinn stóð sig vel bæði innanvallar sem utan og náðu drengirnir í ´00 liðinu lengst keppenda frá Fjölni, eða í 16 liða A úrslit, en þar töpuðu þeir fyrir sterku liði Lugi frá Svíþjóð. Meðal þess sem var boðið upp á var ferð í Skara Sommerland leikjagarðinn og Liseberg skemmtigarðinn, ásamt að sjálfsögðu mótinu sjálfu með nóg af leikjum á gervigrasi í miklum hita og glæsilega opnunarhátíð svo eitthvað sé nefnt.
Það reyndist svo óvæntur bónus að fylgjast með strákunum í U19 ára landsliði Íslands á Opna Evrópska meistaramótinu sem fram fór samhliða Partille mótinu í Gautaborg. Það er skemmst frá því að segja að Ísland vann alla sína leiki og sigraði á mótinu eftir flottan úrslitaleik við sterkt lið Svía. Þar var okkar Fjölnismaður Donni í góðu hlutverki og náði heldur betur að setja mark sitt á leikinn.