Þá er birtingarfasa verkefnisins lokið og allar afurðir hafa verið birtar samkvæmt verkefnislýsingu í umsókn til Þróunarsjóðs námsgagna. Framundan er áskorunin að stuðla að því að verkefnið fái dreifingu og nái til þeirra sem gætu notað afurðirnar. Það eru helst íþróttakennarar yngsta stigsins. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir viðtökurnar og þeim sem komu helst að smíði afurðanna með mér, þeim Kristjáni Halldórssyni meðhöfundi og samstarfsmanni og dr. Aroni Gauta Laxdal fyrir ráðgjöf sem hafði mikil áhrif mótun afurðanna.
Allt efnið er aðgengilegt hér í gegnum miðlana hér að neðan.
Í tilefni af Íþróttaviku Evrópu sem er haldin 23. – 30. september ár hvert býður ÍSÍ íþróttahéruðum og sveitafélögum að fá fyrirlestra tengda hreyfingu og íþróttum.
Það verður í boði að fá fyrirlestur um hreyfilæsi (e. Physical literacy) sem er hugmyndafræði sem hefur fengið talsverða umfjöllun erlendis undanfarin ár. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um undirstöðurnar og tengingar við grundvallarhreyfingar (fundamental movement skills). Þá verður eftirfarandi spurningum meðal annars velt upp
Fyrir hvað stendur hugmyndafræði hreyfilæsis fyrir?
Eiga hugmyndir um hreyfilæsi erindi í skólakerfið?
Hér er smá spjall við mig þar sem útgangspunkturinn er verkefnið „Allir með“ sem Höttur á Egilsstöðum er að fara af stað með. Mér þykir þetta afar áhugavert eðlilega 🙂
Það verður virkilega gaman að fylgjast með spennandi verkefni fyrir austan sem ber heitið Allir með! og miðar að skipulagningu íþróttaþátttöku barna í 1. og 2. bekk grunnskóla. Ég fékk að koma að stefnumótuninni í ráðgjafarhlutverki. Ég er þess fullviss að til langs tíma er þessi nálgun mjög heillavænleg fyrir börnin.
Markmið verkefnisins er að gefa börnum í 1.-2. bekk kostur á að geta valið að iðka fleiri en eina íþróttagrein á jafningjagrundvelli, óháð ytri aðstæðum eins og þrýstingi frá vinum, fjárhag fjölskyldna, bakgrunns eða öðrum ástæðum.
Vildi gefa smá innsýn í þá kennslu sem fram fer á afreksíþróttasviðinu þessa dagana. Önninni er að ljúka. Hún hefur verið gríðarleg áskorun og það hefur verið gaman að glíma við hana, ekki spurning!
Það má gera ráð fyrir auknu fútti í æfingum þann 4. maí hjá mörgu íþróttafólki. Það glittir í bjartari daga í sportinu með afléttingu takmarkana. Ef ég væri þjálfari að hefja æfingar á nýjan leik á þeim tímapunkti myndi ég biðja mitt íþróttafólk að koma með æfingadagbók síðustu 3ja vikna með sér.
Þannig mætti betur áætla það stand sem íþróttafólkið er í og hvernig sé óhætt að hefja æfingar á nýjan leik út frá magni og ákefð, og jafnvel einstaklingsbundið. Einstaklingar sem hafi sinnt sér illa, æft lítið á þessum tíma fengju ekki að æfa af sama krafti og hinir þegar allt fer á fullt. Ábyrgðin er þeirra. Æfingar dagsins í dag byggja á því sem gert var í gær.
Skráningin þarf ekki að vera flókin eða tímafrek til að vera gagnleg. Einfalt væri t.d. að setja þetta upp á þessa leið.
Lykiltölurnar um ákefð og magn eru inni í þessari einföldu formúlu fyrir æfingaálag. Þær segja sögu, ekki alla, en þó nógu mikið til að þjálfari hafi gagn af. Það væri t.d. ekki skynsamlegt að byrja 5x 90 mín æfingar í viku þann 4. maí ef íþróttafólkið þitt hefur aðeins verið að æfa 3×30 mínútur. Það er ávísun á vandræði. Sömuleiðis þarftu að huga vel að ákefðinni ef viðkomandi hefur haft það of kósí í samkomubanninu.
Kæri íþróttamaður. Það er nægur tími til að koma vel undirbúin til æfinga að nýju. Byrjaðu að skrá og byggja þig upp í æfingaálag sem þú varst vön/vanur fyrir samkomubann. Það má því byggja ofan á vikuna á undan. Ekki setja allt á fullt ef þú hefur bara verið í 2 gír.
Kæri þjálfari. Hér ertu með dæmi um tól sem hægt væri að nýta til að hafa ókeypis yfirlit yfir þá þjálfun sem iðkandinn þinn hefur gert á meðan samkomubanninu stendur. Sé það notað á réttan hátt gæti það virkað hvetjandi og gott aðhald við þitt íþróttafólk.
Foster, C., Florhaug, J. A., Franklin, J., Gottschall, L., Hrovatin, L. A., Parker, S., Doleshal, P., & Dodge, C. (2001). A New Approach to Monitoring Exercise Training: Journal of Strength and Conditioning Research, 15(1), 109–115. https://doi.org/10.1519/00124278-200102000-00019
Það hefur eflaust ekki farið fram hjá mörgum að til stendur að gera kennurum og námi þeirra hærra undir höfði með verkefninu komdu að kenna. Í tilefni þess var ég beðinn um að rita nokkur orð um af hverju fólk ætti að geta hugsað sér að starfa við íþróttakennslu í framtíðinni. Ég legg til nokkur atriði í þessum stutta pistli.
Það eru til margar góðar leiðir til að hefja nýtt ár. Sú leið sem við Kristján Halldórsson völdum var að halda námskeið í mjúkhandboltafræðum fyrir áhugasama kennara og handboltaþjálfara. Námskeiðið fór fram í nýrri aðstöðu Fjölnis í Egilshöllinni sem hefur fengið heitið Fjölnishöllin.
Hér má sjá brot frá verklegri kennslu námskeiðsins þar sem farið var inn í íþróttasal. Þessum hluta stjórnaði Kristján Halldórsson fyrir miðju.
Handbolti í skólum er hugmyndafræði frá IHF. Verkefnið var styrk af verkefnissjóði ÍBR. Hér er upphafsslæða frá fræðilegri kynningu námskeiðsins.
Hér má sjá dagskrá námskeiðsins og uppsetningu.
Það var okkar upplifun að vel hafi tekist til og þátttakendur hafi verið almennt nokkuð sátt með þetta námskeið. Það er hvatning til að halda fleiri námskeið síðar í þessum dúr.
Afreksíþróttasvið Borgarholtsskóla stóð fyrir metnaðarfullri dagskrá á þemadögum skólans í síðstu viku. Þar fengu nemendur góð og hnitmiðuð innlegg úr þremur ólíkum áttum. Þemað var Svefn, æfing og næring, allt undirstöðuatriði í lífi íþróttamannsins. Dagskráin gekk vel og fór hún fram í Sambíóunum Egilshöll. Takk öll þið sem komuð að deginum og framkvæmdinni, og ekki síst, Siggu Láru, Inga Þór og Birnu sem áttu fyrirlestra dagsins.
Það fór vel um gesti í sætunum sem alla jafna eru notuð til bíósýninga. Eftir hádegi fóru svo fram umræður milli kennara og þjálfara sem koma að þjálfun íþróttafólks á framhaldsskólaaldri undir heitinu “Afreksíþróttir og framhaldsskóli”. Þar kom fagfólk víðsvegar að og umræðurnar góðar. Það sem gaf deginum alþjóðlegan blæ var heimsókn frá Danmörku frá þeim Laurits og Christian, tveimur meistaranemum með bakgrunn í handbolta. Þeir starfa sem kennarar og þjálfarar í íþróttaakademíu í Skanderborg (SHEA). Þeir kynntu starfið og komu með áhugaverða punkta frá Danmörku og út frá dvöl sinni hér á landi, mest á Selfossi sem tengist lokaverkefni þeirra félaga um afreksstarf á Íslandi.
Eftir kynningu frá þeim félögum var hópnum skipt upp í tvennt og tóku umræður hátt í 2 klst. með öllu. Vil ég nota tækifærið og þakka öllum sem komu að þessum degi hjá okkur kærlega fyrir komuna og þátttökuna, og Þórarni frá fræðslusviði ÍSÍ fyrir aðstoðina. Þetta var frábært og mín skoðun að við ættum að gera meira af þessu.
Að lokum læt ég fylgja með nokkrar staðreyndir um hvernig sviðið hjá okkur á afrekinu er byggt upp um þessar mundir.
Þetta gekk það vel allt saman að mig grunar að þetta verði endurtekið síðar, vonandi 🙂