Náum áttum

Ég fékk að halda erindi á morgunferðafundi samstarfshópsins Náum áttum í morgun. Virkilega skemmtilegur vettvangur umræðu um líðan barna í íþróttum. Hér er svo pósterinn fyrir morgunverðarfundinn – N8mai17.

Hér er svo tiltilslæðan á fyrirlestrinum. Upptökur verða gerðar aðgengilegar á http://www.naumattum.is/.

 

Screen Shot 2017-05-03 at 13.45.50

USA og Ísland: Ekki svo ólíkt eftir allt

Um páskana heimsótti verkefnisstjóri afreksíþróttasviðsins IMG akademíuna, staðsetta í Sarasota og styrkþjálfara í amerískum fótbolta hjá háskólaliði University of Florida, Florida Gators. Heimsóknirnar voru afar áhugaverðar og veittu innsýn í heim sem virðist á stundum afar fjarlægur og draumkenndur.

Markmið ferðarinnar var að fá innsýn í og kynnast þeirri menningu sem er í skólum í Bandaríkjunum fyrir nemandanum sem íþróttamanni (student athlete). Sú hefð hefur verið í marga áratugi og er íþróttakerfið þeirra byggt upp í kringum þátttöku í skólaliðum. Á sama tíma er þessi hefð að riðja sér til rúms hér á landi með sérstökum sviðum og brautum þar sem íþróttaiðkun er gert hátt undir höfði, samanber Afreksíþróttasvið við Borgarholtsskóla [st. 2008] og fleiri góðum sem mörg hófu starfsemi fyrir um 10 árum þegar lögum um framhaldsskóla var breytt. Þó ferðin hafi verið stutt voru skilaboðin sem ég tek með mér heim mikilvæg að ég tel.

IMG hefur yfir að ráða allri þeirri aðstöðu sem nokkur þjálfari getur hugsað sér til kennslu og þjálfunar enda dyggilega studdir af stórfyrirtækjum. Florida Gators býr við svipaða aðstöðu þar sem allt virðist vera til alls, og pressan og peningarnir í spilunum miklir.

Skipulag náms við IMG akademíuna.

Screen Shot 2017-04-24 at 23.46.56

Af því sem ég lærði af ferðinni er meðal annars þetta, sem ég tel að við getum bætt…

 • gera þjálfurum kleift að eyða meiri tíma í samskipti við nemendur og við hvorn annan
 • samskipti við félögin og þjálfara þeirra
 • það er hægt að gera ótrúlega mikið með tiltölulega einfaldri tækni og tækjum, og á sama tíma muna að það er ekkert sem kemur í stað samskipta milli íþróttamanns og þjálfara
 • mælingar og eftirfylgni í ríkari mæli, en þó ekki meir en þjálfarar hafa við að greina og vinna úr
 • búa til tækifæri í okkar félögum og starfsemi fyrir þjálfara að hittast og deila hugmyndum og reynslu, t.d. með sameiginlegum rýmum til vinnu milli æfinga
 • við erum líklega að keyra of stíft á okkar íþróttamenn þegar á heildina er litið, því þegar margir þjálfarar koma að, er það aðeins íþróttamaðurinn sem veit og hefur yfirsýn (þó ekki alltaf einu sinni) yfir hve mikið hefur verið þjálfað. Sem ýtir undir þann mikilvæga punkt að kenna og gera íþróttamennina sjálfstæða.
 • ég tel að á meðan að sá eiginleiki að geta hoppað í öll hlutverk þjálfarans sé mikilvægt, ættum við að vera að nálgast þann stað hér heima að rúm ætti að skapast fyrir aukna sérhæfingu þjálfara

Meðal þess sem ég tel að við ættum að halda áfram að gera vel…

 • íþróttafélagakerfið á Íslandi er gott, og hentar mjög vel til að þjálfa upp íþróttamenn
 • halda áfram að mennta góða þjálfara sem verða alltaf kjarninn í góðum árangri
 • meira er ekki alltaf betra og hægt er að ofgera íþróttamönnum, mikilvægt að gefa andrými og tímabilaskipta námsárinu

Meiri fagmennska – Amen

Síðast liðið haust hófst samstarf HSÍ og KSÍ við íþróttafræðisvið Háskólans í Reykjavík. Meðal fyrstu verkefna var frammistöðumæling HR á A-landsliði kvenna með nýjum landsliðsþjálfara Axeli Stefánssyni í ágúst 2016. Síðan þá hafa farið fram mælingar á A – landsliðum karla og kvenna, U21 karla og U19-U17 og U15 ára kvenna.

20170106_172756
Mynd frá mælingum þann 7. janúar síðastliðinn þar sem allir hópar kvennalandsliða voru mældir á sama deginum. Skýrslur með niðurstöðum hafa verið sendar landsliðsþjálfurum til upplýsinga. Mynd: Sveinn Þorgeirsson

Samstarfið hefur farið vel af stað og frekari mælingar fyrirhugaðar á næstunni. Samvinna HSÍ og HR byggir á vinnu meistaranema við íþróttafræði HR sem vinnur sín verkefni og þ.m.t. lokaverkefni í tengslum við áðurnefndar mælingar. Sjá nánar hér “Kostuð meistaranámsstaða“. Sambærilegt starf er unnið með KSÍ í tengslum við mælingar á A-landsliði kvenna.

Það verður ekki betur séð en að þessi vinna sem farin er af stað á íþróttafræðisviði HR falli mjög vel að þeim hugmyndum sem koma fram í nýlegri skýrslu um starfsemi Afrekssjóðs ÍSÍ. Sjóðurinn fékk síðasta sumar kærkomna styrkingu þegar samningar náðust um mikla aukningu á framlögum ríkisins til sjóðsins. Í framhaldinu voru reglur hans endurskoðaðar og tillögur að nýrri stefnu sjóðsins lagðar fram og eru nánar tilgreindar í skýrslu vinnuhópsins.

Þar er meðal annars haft eftir álitsgjöfum:

Auka fagteymisþjónustu sérstaklega með reglulegum mælingum s.s. á þoli, liðleika og tækni o.fl.

og ennfremur

Öll umgjörð íþróttamannsins myndi eflast. Fremstu leikmenn fengju 100% stuðning hvað varðar þjálfun hjá fremstu fagaðilum. …. Hægt yrði að halda úti reglulegri líkamsþjálfun og mælingum undir handleiðslu fagaðila.

Öll þessi þróun er sérstaklega ánægjuleg þar sem fyrir rétt um 2 árum hélt ég stutt erindi á Fyrirlestrarmaraþoni HR um framtíð íslensks handbolta. Þar var mín ósk heitust að rannsóknir myndu aukast og fagmennska í kringum boltann. Það má með sanni segja að mér hafi orðið að ósk minni og framundan séu spennandi tímar.

Handboltinn í samstarf við fimleika og frjálsar íþróttir – virkilega spennandi

Alhliða íþróttaþjálfun fyrir börn

Handboltinn hyggst feta nýjar slóðir í vetur þar sem boðið verður uppá æfingu í fimleikum (fyrir 1.-4. bekk) og frjálsum íþróttum (fyrir 5.-8. bekk) samhliða handboltaæfingum í Fjölni. Þannig mun ein æfing í viku í fimleikum/frjálsum standa iðkendum til boða fyrir vægt aukagjald til viðbótar við námskeiðsverð handboltans. Verða þær æfingar til viðbótar hefðbundnum  æfingum.

Styrkleikar þessara tveggja íþrótta eru vel þekktir og teljum við að þeir komi til með að efla alhliða þróun okkar yngstu iðkenda.  Fimleikar hafa löngum verið þekktir fyrir áherslu á styrk, tækni og liðleika sem er í senn allt sem handboltafólk hefur þörf fyrir. Þá eru eiginleikar frjálsra íþrótta eftirsóttir líka og þar má til dæmis nefna kraftþjálfun og hlaupatækni. Við hlökkum til að bjóða upp á þessa  viðbót við það frábæra starf sem unnið er í handboltadeildinni í vetur.

Hér má nálgast kynningarpóster um verkefnið sem ég tel að sé að margan hátt nýtt af nálinni.

Fjölnir-handboltatilboð

Mælingar á Handboltaskóla HSÍ vol. 2

Annað árið í röð fóru fram viðamiklar mælingar á þátttakendum Handboltaskóla HSÍ.Þátttakendur í ár voru fædd 2003 og komu frá 14 félögum, 55 strákar og 50 stúlkur. Rannsóknin er unnin með styrk frá Íþróttasjóði Rannís í samstarfi við HSÍ. Nemendur íþróttafræði Háskólans í Reykjavík hafa einnig tekið mikinn þátt í skipulagningu og framkvæmd.

Mælingarnar sem framkvæmdar voru gefa upplýsingar um;

 • frammistöðu í handboltaprófum, t.d. keppnislíkir leikir
 • frammistöðu í líkamlegum prófum, t.d. stökkhæð, skothittni og þol
 • líkamssamsetningu, t.d. hæð, faðm, lófastærð og þyngd
 • bakgrunn í íþróttum, t.d. fjöldi ára, fjöldi æfinga og fjöldi íþrótta

 

27687603395_411c649c31_o
Svig-dripplprófið. Þátttakendur drippla milli keilna sem eru staðsettar með 3m millibili. Tímataka fer af stað þegar þátttakendur fara í gegnum geislann á tímatökuhliði og stöðvar þegar þau koma til baka í gegn. Mynd eftir Jóhann G. Jóhannson

Hér að ofan til vinstri sést hluti mælingateymisins. Frá vinstri, Karl Kristjánsson, Hildur Björnsdóttir, Thea Imani, Kristján Kristjánsson, Anna Margrét Guðmundsdóttir og Sveinn Þorgeirsson.

Mælingarnar gengu vonum framar og er því rík ástæða til að þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg og gerðu þær mögulegar. Rannsakendum, HSÍ, samstarfsfólki til mælinga, þjálfurum sem sáu um helgina og svo að sjálfsögðu þátttakendum.

Vinna fer fram í sumar við að greina gögnin og setja þau upp svo hægt sé að vinna með þau. Slíkt var gert í fyrra og skilaði það skýrslu og tölum sem við höfum nú um 2001 árganginn í Handboltaskólanum sem tók þátt í fyrra.

Hér má svo nálgast skýrslu Hildar Björnsdóttur um mælingarnar sem gerðar voru í fyrra, sem unnin var í tengslum við lokaverkefni hennar við íþróttafræðisvið HR. skyrsla_HSI_hildur

Með þökk fyrir helgina

Sveinn Þorgeirsson

Loksins loksins

Alvöru handboltaþjálfaranámskeið haldið af HSÍ! Og nú lítur þetta vel út. Búið að byggja upp heilt menntunarkerfi og fyrsta lotan með þjálfara á öllum þremur stigunum lokið og gekk afar vel!

Ég fékk að ræða um þjálfun barna í 7. og 8. flokk. Þjálfarahópurinn var góður og námskeiðið gekk vel. Vonandi að þessu starfi verði vel fylgt eftir í framtíðinni svo hægt verði að byggja upp gott menntunarkerfi og í framhaldinu leyfiskerfi líkt og þekkist í knattspyrnunni, þar sem ákveðinnar menntunar er krafist til að fá að þjálfa á ákveðnum stigum.

20160110_122244

Hér má sjá þjálfarahópinn á 1. stiginu um helgina.

 

Magnað málþing um geðraskanir í íþróttum

Það var einstakt að vera viðstaddur málþing sem fram fór í HR í dag. Þar komu fram Hafrún Kristjánsdóttir, Sævar Ólafsson og Ingólfur Sigurðsson. Hafrún fór yfir rannsóknir á geðsjúkdómum meðal íþróttamanna. Það er virkilega umhugsunarvert hve tíðinin er há, sérstaklega kvíði og þunglyndi, meðal íþróttamanna og kom hún vel inn á það umhverfi sem íþróttamenn, sérstaklega afreksíþróttamenn búa við í dag. Áreitið og álagið á bestu íþróttamennina er mikið og hefur síst minnkað með samfélagsmiðlavæðingu síðari ára.

20150909_160536

Sævar átti flotta frásögn frá mjög góðu og vel unnu lokaverkefni sínu sem hann skilaði í vor. Frásögn þeirra íþróttamanna sem hann tók viðtali í verkefni sínu var mjög sterk og sýndi vel hve alvarlegt mál er hér á ferð. Sævar kom niðurstöðunum vel til skila og undirstrikaði það hve við sem samfélag, innan sem utan íþrótta berum mikla ábyrgð á hvernig þessi mál eru meðhöndluð. Ingóflur lýsti svo vel sjálfur hvernig viðmóti hann mætir sem ungur drengur með kvíðaröskun í atvinnumennsku í knattspyrnu erlendis. Það var sömuleiðis áhrifarík frásögn.

Stoltur Fjölnismaður á Partille 2015

Það voru sönn forréttindi að fá að fylgja um 50 manna hópi frá handknattleiksdeild Fjölnis sem tók þátt á stærsta handboltamóti í heimi – Partille Cup í Gautaborg í Svíþjóð. Hópurinn stóð sig vel bæði innanvallar sem utan og náðu drengirnir í ´00 liðinu lengst keppenda frá Fjölni, eða í 16 liða A úrslit, en þar töpuðu þeir fyrir sterku liði Lugi frá Svíþjóð. Meðal þess sem var boðið upp á var ferð í Skara Sommerland leikjagarðinn og Liseberg skemmtigarðinn, ásamt að sjálfsögðu mótinu sjálfu með nóg af leikjum á gervigrasi í miklum hita og glæsilega opnunarhátíð svo eitthvað sé nefnt.

20150701_095635

 

Það reyndist svo óvæntur bónus að fylgjast með strákunum í U19 ára landsliði Íslands á Opna Evrópska meistaramótinu sem fram fór samhliða Partille mótinu í Gautaborg. Það er skemmst frá því að segja að Ísland vann alla sína leiki og sigraði á mótinu eftir flottan úrslitaleik við sterkt lið Svía. Þar var okkar Fjölnismaður Donni í góðu hlutverki og náði heldur betur að setja mark sitt á leikinn.

 

Eins og í sögu – Handboltaskóli HSÍ (2001 módel)

Nú um helgina fór fram Handboltaskóli HSÍ. Þar mættu til leiks rúmlega 100 þátttakendur, drengir og stúlkur af öllu landinu. Þjálfarar félagana völdu allt að 4 leikmenn fædda árið 2001 úr sínu liði til þátttöku. Mælingarnar gengu afar vel og verður foreldrum og iðkendum sjálfum þakkað fyrir frábært viðmót.

Á hverjum degi fóru þátttakendur í gegnum staðlaða 8 mínutna upphitun með kynningum og útskýringum á prófi (samtals 12 mín) og í kjölfarið tóku þau prófið sem var á bilinu 20-25 mínútur í framkvæmd.

Dagskráin var eftirfarandi

 • Föstudagur – tækni: Drippl í milli keilna, skothraði úr kyrrstöðu, með atrennu og svo uppstökki og skothittni.
 • Laugardagur – hraði og kraftur: Medicine boltakast, snerpupróf 505, stökkhæð (SJ og CMJ) og svo langstökk.
 • Sunnudagur – bakgrunnur í íþróttum, þol og líkamsmælingar: Spurningalisti, hæð, þyngd, faðmur, lófastærð X-Y, og Yo Yo IRT 1 þolpróf

haukar (16)

Með þessum mælingum höfum við fengið mikilvæg gögn sem ætlunin er að deila með hreyfingunni. Hér má nálgast upplýsingar um hvaða próf voru valin og hvernig þau voru framkvæmd (Handbók mælinga – HÉR).

Til stendur að mæla körfuknattleikinn á sama hátt síðar í sumar. Nánar um það síðar.

Að lokum vill ég fá að þakka þeim sem komu að þessari rannsókn með mér kærlega fyrir allt; Ómar Friðriksson, Hildur Björnsdóttir, Hákon Bridde, Sigurjón Friðbjörn Björnsson, Karl Kristján, Kristján Halldórsson, Harri Kristjánsson, Leifur Óskarsson, Grétar Eiríksson, Jose Saavedra ásamt HSÍ , Róberti Gíslasyni, og þjálfurunum Halla og Gulla fyrir stelpurnar og svo Maksim með strákana og þeirra aðstoðarmönnum. Án ykkar hefði þetta ekki verið hægt.

Landsliðsstyrkur afreksíþróttasviðs Borgarholtsskóla veittur í 1. sinn

Í gær var afhentur í fyrsta sinn landsliðsstyrkur afreksíþróttasviðs Borgarholtsskóla. Nemendur sem fóru út á vegum síns landsliðs á haustönn fengu afhentan styrk upp á 25 þúsund krónur hver. Á það eflaust eftir að koma í góðar þarfir því margar greinar þurfa að standa undir ferðakostnaði og upphaldi alveg sjálfar. Nú síðast komst kostnaður U-21 árs landsliðs Íslands í handbolta í umræðuna þar sem leikmenn þurftu að greiða yfir 100 þúsund þrátt fyrir að spila sinn riðil á heimavelli.

Hér er hópurinn flotti sem fékk þennan styrk fyrir haustönnina. Við vonumst til að þessi hópur eigi bara eftir að stækka. Afreksíþróttasviðið óskar þessum nemendum til hamingju.

Hér má svo sjá viðurkenningaskjalið sem þau fengu til staðfestingar styrknum.

Frá hægri, Sveinn Þorgeirsson verkefnisstjóri, Úlfur Gunnar Kjartansson handbolti, Hulda Hrund Arnarsdóttir fótbolti, Elvar Snær Ólafsson íshokkí, Jasmín Erla Ingadóttir fótbolti, Ásgrímur Þór Bjarnason fótbolti, Andrea Jacobsen handbolti og Kristján Örn Kristjánsson handbolti.
Frá hægri, Sveinn Þorgeirsson verkefnisstjóri, Úlfur Gunnar Kjartansson handbolti, Hulda Hrund Arnarsdóttir fótbolti, Elvar Snær Ólafsson íshokkí, Jasmín Erla Ingadóttir fótbolti, Ásgrímur Þór Bjarnason fótbolti, Andrea Jacobsen handbolti og Kristján Örn Kristjánsson handbolti.

Eftirfarandi keppnisferðir voru styrktar

 • Aron Knútsson, heimsmeistaramót U20 ára með íshokkílandsliði Íslands á Jaca á Spáni
 • Andrea Jacobsen, æfingaferð með U17 ára landsliði Íslands í handbolta til Hollands, keppti á móti U19 ára landsliði Hollands
 • Kristján Örn Kristjánsson, evrópumeistaramót U19 ára í Póllandi, tryggðu sér keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í handbolta.
 • Jasmín Erla Ingadóttir, fór til Finnlands að keppa vináttuleiki með U17 ára kvennalandsliðinu í knattspyrnu
 • Hulda Hrund Arnardóttir, fór til Litháen með U19 ára til að keppa í undankeppni EM 2015 í knattspyrnu
 • Elvar Snær Ólafsson, fór til Spánar með U20 ára landsliði karla í íshokkí í Jaca á Spáni
 • Ásgrímur Þór Bjarnason, fór til Moldavíu með U17 ára landsliði karla í knattspyrnu
 • Úlfur Gunnar Kjartansson, fór til Frakklands á æfingamót með U17 ára landsliði karla í handbolta

Þessi styrkveiting er vonandi komin til að vera. Við munum veita aftur styrk fyrir ferðalög á vorönn í lok þessarar annar í maí. Styrkveitingunni er ætlað að styðja við okkar efnilega landsliðsfólk úr hinum ýmsu greinum og gera því auðveldara að taka þátt í kostnaðarsömum verkefnum.

Sveinn Þorgeirsson, verkefnisstjóri afreksíþróttasviðs Borgarholtsskóla