Fjörfiskar í Fjölni sprikla af stað

Það er kominn tími til að við segjum frá þessu litla verkefni okkar sem kallast Fjörfiskar í Fjölni og fór af stað núna í byrjun nóvember. Með styrk frá Hvatasjóði íþróttahreyfingarinnar og aðstöðu í Hamraskóla, auk stuðnings frá Austurmiðstöð fór þetta verkefni af stað með krafti. Við munum rúlla þessu áfram fram að jólum á laugardögum.

Fyrirmyndina þurftum við ekki að sækja langt. Það eru vinsælu Fjölskyldutímarnir við Varmá í Mosfellsbæ. Þeir hafa verið í gangi í 10 ár og verða vonandi áfram sem lengst enda afar verðmætir á svo margan hátt. Við höfum t.d. fengið að njóta þess að mæta með börnin okkar og leika með þeim og jafnvel farið í sund eftir á. Það sem heillaði mig var samvera foreldra með börnunum og öðrum bæjarbúum. Auk þess fer lítið fyrir símanotkun og börnin una sér vel við sjálfsprottinn leik og hreyfingar í góðum aðstæðum.

Uppleggið er einfalt: Að opna íþróttahús um helgi fyrir börnum um 3-7 ára og fjölskyldum þeirra. Fólk kemur og fer þegar því hentar innan opnunartímans sem er frá kl. 9:30-11:00. Sérstök áhersla er á að reyna að ná til barnafjölskyldna sem eru ekki þegar í íþróttum, bæði þeirra sem tala og tala ekki íslensku. Tveir íþróttafræðingar eru svo til staðar fyrir ráðgjöf og aðstoð.

Fyrir fréttir af verkefninu – fylgist með á : https://www.facebook.com/fjorfiskarifjolni

Svona lítur hluti salarins út þegar við höfum stillt honum upp fyrir fjörið.

Það mun svo koma í ljós hvort verkefnið fái framhaldslíf eftir áramót – meira, vonandi, um það síðar!

Leave a comment

Velkomin!

Ég heiti Sveinn Þorgeirsson og er íþróttaunnandi, eiginmaður og þrefaldur faðir og Fjölnismaður búsettur í Mosfellsbæ.

Meira frá mér á öðrum miðlum…