Það var virkilega gaman að fá að koma með innlegg í vel heppnað Endurmenntunarnámskeið Íþróttakennara sem fram fór á Laugarvatni frá 14.-16. ágúst sl. Ég fékk að tala um framtíð fagsins okkar og tengja það við grein okkar dr. Arons Laxdals sem birtist í fyrra í Skólaþráðum.

Erindið byggðist upp á þeirri gagnrýni sem þar kemur og hún tengd við umræðu um fagið okkar á opinberum vettvangi. Kjarninn í innlegginu fólst í því að renna styrkari stoðum undir þau rök sem við færum fyrir því að námsgreinin eigi í menntakerfi framtíðarinnar. Í huga okkar íþróttafræðinga er þeirri spurningu auðsvarað, en í erindinu var fjallað um beitta gagnrýni sem á rétt á sér að mínu mati.

Til að stikla á stóru þá þarf ættu skólaíþróttir fyrst og fremst að snúast um kennslu hreyfinga, hreyfinganna vegna, því það að hreyfa sig býður upp á skynjun sem aftur hvetur til hreyfingar. Ekki vegna þess að þá uppfyllum við markmið WHO um lágmarks fjölda mínútna í hreyfingu á dag fyrir börnin, heldur því börnin eiga að LÆRA inn á hreyfingarnar sínar og um leið sig sjálf. NÁM barnanna ætti því að hafa algjöran forgang í öllum stundum (þó þær séu mjög takmarkaðar). Það skal gert, jafnvel þó það “kosti” það að leikurinn sé stöðvaður um sinn og nýir og áhugaverðir fletir á hreyfingunum séu ræddir. Þá er ekki síður mikilvægt að nota tíma í að ræða og byggja upp það námsumhverfi sem nauðsynlegt er í skólaíþróttum þar sem nemendur þurfa að gera gert sínar tilraunir fyrir annarra augum. Heilsuna fáum við svo í kaupbæti ef við högum íþróttakennslunni rétt.

Það þarf líka að vera skýr greinarmunur á aðferðum í þjálfun og kennslu. Nokkuð sem ég hef lagt mig fram við að skerpa á undanfarið því forsendurnar eru gjörólíkar sem aftur kallar á ólíkar aðferðir. Það endurspeglaðist t.d. í umræðunum um hvort keppni ætti rétt á sér í íþróttakennslu eða ekki. Það hljómar eins og dramatísk spurning, en það er svo sannarlega betra að hafa svarið þegar nemendur spyrja út í tilganginn með þeim aðferðum sem beitt er.

Að lokum velti ég því upp hvort ein leiðin til að komast upp úr þeim hjólförum sem aðalnámskrá og venjan kennir okkur sé að taka upp nýja sýn á það hvernig hreyfingar “birtast” og lærast. Um það hef ég skrifað nokkra pistla hér (Tvö ólík sjónarhorn, 10.000 endurtekningar) og líka farið í hlaðvarp HR, Íþróttarabbið til að útskýra. Hvet ykkur til að melta þetta hægt og rólega með opnum hug.

Ég get ennfremur bent á bók sem tekur saman skólaíþróttir og þessa nýju sýn og er aðgengileg hér á þessum hlekk. Flottur leikjabanki sem ég get líka mælt með er þessi hér https://www.boingkids.co.uk/, en hann byggir m.a. á sambærilegri hugmyndafræði og ég hef fjallað um (ólínuleg kennslufræði).

Hér að neðan er svo sýnishorn frá erindinu mínu sem fram fór föstudaginn 16. ágúst á Laugarvatni.

Ég er ekki í vafa um að þetta fyrirkomulag námskeiðsins sé komið til að vera og ég held að það sé ákaflega mikilvægt fyrir stéttina okkar. Það gerist svo margt þegar við komum saman og deilum með öðrum, sigrum og áskorunum. Ég held að það sé byrjunin á þeirri sókn sem skólaíþróttir þurfa að hefja á næstu misserum.

Leave a comment

Velkomin!

Ég heiti Sveinn Þorgeirsson og er íþróttaunnandi, eiginmaður og þrefaldur faðir og Fjölnismaður búsettur í Mosfellsbæ.

Meira frá mér á öðrum miðlum…