Eru 10.000 endurtekningar þversögn í þjálfun hreyfinga?

Það eru að verða þrír áratugir síðan kenning K. A. Ericsson um kerfisbundna þjálfun (deliberate practice) kom fram og síðar olli straumhvörfum í umræðu okkar um hvernig við náum afburða færni (expertise). Í aldir hefur fólk rökrætt hvort skipti meira máli á þeirri vegferð,- erfðir eða umhverfi? Það má færa rök fyrir hvoru tveggja, en ætli það standi ekki upp úr að þessir tveir undirstöðu þættir eiga í stöðugu samspili alla okkar ævi, líkt og sett er fram í þessari skýringarmynd úr smiðju Gilberts Gottliebs.

Með kenningum Ericsson fékk hugmyndin um aukaæfinguna mikinn meðbyr og hefur það mótað aðferðir okkar í þjálfun síðan. Þessar hugmyndir byggja á því að þjálfun verði að vera markviss, skipulögð til lengri tíma, undir handleiðslu færs þjálfara sem veitir endurgjöf. Þetta eru æfingar sem skila árangri, en eru ekki endilega skemmtilegar sem slíkar. Auk þess byrjar þessi þjálfun fyrr og á meðan henni stendur safnast fleiri klukkustundir en hjá öðrum jafnöldrum. Í greininni er því haldið fram að öll getum við náð þessari framúrskarandi færni með því einu að æfa nógu mikið. Þessi áhersla á þjálfun undirstrikar auðvitað þær staðreyndir að það þarf að æfa mikið og lengi til að ná árangri, og ennfremur býður aðferðin öllum um borð í þá vegferð. Metstöluhöfundurinn Malcolm Gladwell gerði kenninguna endanlega heimsfræga með því að tala um 10.000 klst. regluna í bók sinni Útlagar (Outliers). Í þessu samhengi heyri ég ýmist 10.000 klst. eða 10.000 endurtekningar í daglegu tali. Það sem skiptir máli er að magnið, endurtekningafjöldinn er stórt atriði.

Í rúmlega hálfa öld hafa kenningar byggðar á hinni hefðbundnu upplýsinga-úrvinnsluaðferð (information processing) stýrt okkar nálgun á það hvernig við þjálfum færni. Í stuttu máli snúast þær áherslur um hvernig þjálfarinn “drillar” íþróttafólkið í réttu hreyfingunum til að þær megi svo nota hugsunarlaust undir álagi í keppni. Ég hef áður borið þær (hefðbundnar aðferðir) saman við hugmyndir hreyfivistkerfa nálgunar fyrir frekari útlistingar bendi ég því á fyrri greinar.

Sjónum mínum í síðari hluta þessarar umfjöllunar verður beint að einni undirstöðukenningu hreyfivistkerfa, en það er hugmyndin um frelsisgráðuvandann sem Nikolai Bernstein lagði fram fyrir rúmri hálfri öld síðan. Í heimi þar sem ríkjandi hugmyndir voru (og eru) á þá leið að endurtaka skuli hreyfingar til að ná tökum á einu réttu hreyfimynstri fengu hugmyndir Bernstein aftursætið í mörg ár, þar sem þær stönguðust hressilega á við ríkjandi hugmyndir. Skoðum næst af hverju þessi hugmynd um frelsisgráðuvandann (degrees of freedom problem) er svona mikilvæg.

Í stuttu máli lýsir frelsisgráðukenning Bernstein því hvernig líkaminn er samsettur úr mörgum liðum sem hreyfast við samdrátt vöðva. Hver liður líkamans er frelsigráða í hreyfingum sem þarf að stýra og samhæfa til að ná markmiðum hreyfinganna. Liðirnir tengjast svo saman og bjóða upp á ólíkar hreyfingar eftir hlutverki og lögun liðarins. Þegar fleiri liðir koma saman í samhæfingu hreyfinga margfaldast þeir möguleikar sem við höfum úr að velja við lausn hvers verkefnis nánast óendanlega. Því til stuðnings getum við auðveldlega séð fyrir okkur margar ólíkar leiðir til að sparka í bolta, og fá nákvæmlega sömu útkomu tvisvar. Út frá þessu má álykta að úrval hreyfinga (degeneracy) sem okkur stendur til boða hverju sinni við lausn tiltekins verkefnis (t.d. að skjóta í körfu frá 3ja stiga línunni) geri það að verkum að það er ekki hægt að endurtaka nákvæmlega sömu hreyfinguna. Jafnvel þó hreyfingin sé vel “drilluð” inn í minni (harða-diskinn) okkar. Það sést svo aftur á svipuðum, en samt-ekki-eins skotstíl körfuboltafólks.

Hver hreyfing er einstök og því er talað um endurtekningu ÁN endurtekningar (repeptition without repetition). Það má vera að við þyrftum að skoða algjör smáatriði til að sjá mun, en hugmyndin er sterk engu að síður og kollvarpar grundvallarforsendu hefðbundinna kenninga. Bernstein komast að þessu meðal annars eftir að hafa rannsakað feril hamarshöggs hjá reyndum stálsmiðum. Jafnvel þó vanur smiður hamri sama naglann, var ferill hamarsins ólíkur í hvert skipti, þrátt fyrir þjálfun (og að hitta á naglann í hvert sinn).

Grunnhugmyndin um endurtekningu með sýn Bernsteins gengur því út á að leysa sama verkefnið aftur, en ekki að endurtaka sömu hreyfinguna aftur, – enda er það ekki hægt samkvæmt honum. Þá komum við að því – hverju skiptir þetta?

Út frá kenningum sínum lagði Bernstein til að við þjálfun færum við í gegnum þrjú stig sem lýsa því hvernig við tökumst á við þennan vanda. Fyrsta stig er frysting (freeze) frelsisgráða í samhæfðum hreyfingum sem gerir það að verkum að þeir liðir sem við þurfum ekki nauðsynlega á að halda til að hreyfa okkur eru stífðir af og við einbeitum okkur að hinum. Í þessu samhengi mætti sjá fyrir sér barn sem er nýfarið að ganga (klunnalegar hreyfingar), eða þegar við byrjum að skauta á svelli og erum óvön. Næsta skref felst í að losa (release) um liðina eftir því sem samhæfingin gengur betur, og að lokum fullnýta þær (exploit) til að geta hreyft okkur á fjölbreytta vegu með góðri samhæfingu.

Þetta setur eðlilega hefðbundnar þjálfunaraðferðir í uppnám þar sem þjálfarinn sem ætlar að miðla réttu hreyfingunni til leikmanns er að beina athyglinni að framkvæmd hreyfingarinnar í stað lausnar á verkefninu. Ef við göngumst við því að það sé hvorki hugmyndafræðilega hægt né sérstaklega æskilegt fyrir líkamann (álagsmeiðsli t.d.). Auk þess eru aðstæður og markmið sem við vinnum að í íþróttum ólík og þá þurfum við hafna hefðbundnum aðferðum og breyta. Þjálfarinn fær annað hlutverk en ekki síður mikilvægt, meira um það síðar.

Í hnotskurn:

  • Við getum ekki endurtekið hreyfingar tvisvar eins, vegna þess að samhæfingin er flókin milli margra liða sem gefa okkur mun fleiri útfærslur en við þurfum.
  • Vegna þess að endurtekningu er ekki hægt að endurtaka fáum við þversögn sem við snúum upp á og tölum um “endurtekningu án endurtekningar”.
  • Í stað þess þjálfarar einblíni á að meitla hreyfiferilinn eru hreyfingar betur þjálfaðar með því að horfa til hreyfimarkmiða sem verið að leysa og aðstæðna hverju sinni.
  • Breytileiki í hreyfingum er jákvæður og í honum felst aðlögunarhæfni að ólíkum aðstæðum. Það er ólíkt sjónarhorn frá hefðbundnu aðferðunum sem líta á breytileika sem neikvæða afleyðingu af því að aðlaga “réttu” hreyfinguna að ólíku aðstæðum.
  • Með nýju sjónarhorni breytist hreyfifærni okkar úr því að vera forrit í heila okkar sem við getum sótt og framkvæmt yfir í að velja hentugt hreyfimynstur í hvert sinn úr þeim fjölmörgu sem í boði eru hverju sinni.

Hvernig við þjálfum slík hreyfimynstur verður fjallað um síðar.

Heimildir og áhugavert efni sem meðal annars er byggt á við þessi skrif

Bernstein, N. (1967). The Co-ordination and Regulation of Movements. Pergamon Press.

Ericsson, K. A., Krampe, R. T., & Tesch-Römer, C. (1993). The role of deliberate practice in the acquisition of expert performance. Psychological Review, 100, 363–406. https://doi.org/10.1037/0033-295X.100.3.363

Gladwell, M. (2009). Outliers: The story of success. Penguin Books.

Gottlieb, G. (2007). Probabilistic epigenesis. Developmental Science, 10(1), 1–11. https://doi.org/10.1111/j.1467-7687.2007.00556.x

Gray, R. (2018a). 93 – The Legacy of Nikolai Bernstein I: Problems in Movement Coordination – The Perception & Action Podcast [The Perception & Action Podcast]. https://perceptionaction.com/93-2/

Gray, R. (2018b). 94 – The Legacy of Nikolai Bernstein II: Skill Acquisition through Free(z)ing Degrees of Freedom. The Perception & Action Podcast. https://perceptionaction.com/94-2/

Gray, R. (2018c). 95 – The Legacy of Nikolai Bernstein III: “Repetition without Repetition” & Beyond. The Perception & Action Podcast. https://perceptionaction.com/95-2/

One thought on “Eru 10.000 endurtekningar þversögn í þjálfun hreyfinga?

  1. Pingback: Hlaðvarpsþáttur um hreyfivistkerfi: Íþróttarabbið – Sveinn Þorgeirsson

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s