Við höfðum ærið tilefni til að fagna í síðustu viku þegar stelpurnar okkar skutu Aserbaídsan á kaf með ótrúlega stórum sigri og tryggðu þar með tryggðu umsspilssæti í undankeppni HM.
Önnur góð ástæða fyrir handboltaunnendur til að gleðjast er hvernig samstarf HR og HSÍ er farið að bera vísindalegan ávöxt. Fyrr á þessu ári birtist grein eftir nokkra kennara íþróttafræðisviðs HR undir stjórn Jose Saavedra með landsliðsþjálfaranum Axeli Stefánssyni um líkamlega þætti, þrek og skothraða A- og yngri kvennalandsliða Íslands. Greinin birtist í tímaritinu The Journal of Strength & Conditioning Research fyrr á þessu ári.
Í greininni, sem er að okkar bestu vitund sú fyrsta sem fjallar um líkamsbyggingu, þrekþætti og skothaða kvennaliða og ber frammistöðu saman eftir aldri. Alls tóku 80 landsliðskonur þátt (18.2 ± 4.0 ára meðalaldur) úr A, U19, U17 og U15 ára liðunum. Tölfræðireikningar voru gerðir til að greina hvort munur væri milli liðanna í prófunum og hvaða próf greindu best milli byrjunarliðsmanna og varamanna í hverju liði. Þá var fylgni reiknuð milli frammistöðu í ólíkum prófum.
Niðurstöðurnar sýndu að munur var á milli A liðsins og U19 ára á jafnfætisstökki (CMJ), 3 kg boltakasti, og Yoyo IRT L2 þolprófi. Til að greina á milli byrjunarliðsmanna og varamanna reyndist þyngd og BMI stuðullinn spá best fyrir hjá A-liðinu (76% rétt) og 30m sprettur og 7m kasthraði hjá U19 ára liðinu (90% rétt). Að auki má segja að frammistaða í 7m og 9m kasti (með 3ja skrefa atrennu) fylgist að við hvort annað, hæð, þyngd, lóðrétta stökkhæð (CMJ) og 3 kg boltakasti með lítilli til meðalmikilli fylgni. Meðal annarra niðurstaðna var sú að lóðrétt stökkhæð hafði fylgni við alla aðra þætti mælda nema hæð og BMI stuðulinn.
Umræður. Ein tilgáta okkar var sú að A liðið myndi standa sig best af öllum liðum í öllum þeim mælingum sem lagðar voru fyrir. Sú tilgáta stóðst ekki. Í reynd var það aðeins Yoyo prófið og þyngd þar sem A liðið var marktækt hærra en yngri landsliðin. Út frá þessum punktum og mörgum öðrum sem fram koma í greininni er hægt að hefja umræðu um líkamlega þætti landsliðsfólks okkar. Höfundar telja að greinin geti verið gott innlegg og aukið þekkingu þjálfara og handboltasamfélagsins á okkar bestu og efnilegustu handknattleikskonum.
Fleiri greinar eru í farvatninu og það verður gaman að fá að deila niðurstöðum þeirra á næstu misserum. Ég lít svo á að það sé okkar skylda að koma þessum niðurstöðum áfram og inn í umræðuna. Sér í lagi þar sem aðgangur að greininni er því miður gegn gjaldi á þessari síðu (Hlekkur á greinina).
Hér er svo hlekkur á fréttina með samantekt rannsóknarinnar á síðu háskólans RU.is
SÞ