
Eitt af því sem ég tók með mér heim úr ánægjulegri vinnuferð með íþróttafræðideild HR til Færeyja var í raun einföld upplifun. Hún var staðfesting á því sem ég hafði áður heyrt um það hvernig Færeyingar búa að ungu íþróttafólki sínu. Ég hafði heyrt að þar væru íþróttahúsin gjarnan opin eftir að æfingum lýkur og um helgar. Þetta gæfi börnum tækifæri til að leika sér við góðar aðstæður, ÁN sérstakrar yfirumsjónar fullorðinna, svo tímunum skipti.
Einn morguninn vaknaði ég og ætlaði út að hlaupa, en byrjaði á að koma við á gervigrasvellinum sem var rétt fyrir ofan húsið, bara 50m eða svo, með himinháum flóðljósum sem koma sér eflaust vel í skammdeginu. Það fyrsta sem ég tók eftir var að það lágu boltar út um allt.
Og sé skal viðurkenna að það fyrsta sem ég hugsaði var að hér væri einhver þjálfari að trassa skyldur sínar að taka til boltanna eftir æfingu. Kæruleysi að skilja verðmætin svona eftir úti um allt.
Eftir að hafa sjálfur rakið boltana um völlinn þverann og endilangann með frábærum aukaspyrnum í tómt mark í margar mínútur áttaði ég mig loksins. Ég held að þetta hafi verið viljandi gert, og þar með hafi jafnan verið fullkomnuð með þessum fótboltum + opinni aðstöðu = tækifæri til frjáls leiks.

Það er algengt að þegar árangur næst í afreksíþróttum þá beinist kastljósið að því hvernig staðið er að barna- og unglingastarfi. Þannig höfum við séð aukna umfjöllum um lönd sem ná langt eins og Noreg eftir árangurinn á Vetrar-Ólympíuleikunum og okkur eftir að hafa komist á stórmótin tvö í fótbolta karla. Því kemur ekki á óvart að nú séum við að horfa til Færeyinga núna eftir árangurinn þeirra í handboltanum (og fótboltanum fyrir nokkrum misserum). Árangurinn fyrir um 55 þúsund manna þjóð þar sem um 3000 æfa handbolta samtals er ekkert minna en stórkostlegur með bæði kvenna og karlalið á stórmóti. Um þetta var fjallað nýlega í grein á Vísi.
Í viðtalinu sem vísað er í hér að ofan er frábær tilvitnun í þjálfara U21 landslið karla sem kjarnar alla þessar vangaveltur um árangur og aðferðir fyrir mér. “Þetta byrjaði fyrir svona tíu árum… “. Það sem við gerum vel í barna- og unglingastarfi í dag fær afreksíþróttastarfið að njóta, um það bil áratug síðar! Fyrir venjulegt fólk er það feiki nægur tími til að verða óþolinmóður og krefjast árangurs fyrr. Þetta á við okkur öll, hvort sem það eru þau sem standa að sjálfboðaliðastarfi barnanna í félögunum eða sérsamböndin, foreldrarnir eða börnin sjálf.
Ætli það sem ég er að reyna að segja með þessum pistli sé ekki þetta. Á íslandi búum við mjög vel varðandi aðstöðu til iðkunar íþrótta heilt á litið. Aðstöðuna er hægt að nota til skipulagðra æfinga OG frjáls leiks. Til að opna á slíkt þurfum við fullorðnu að sjá stóru myndina og trúa á ávinning þess að hafa opið fyrir börnin. Ekki bara skella í lás þegar fyrsti glugginn brotnar og kenna agaleysi um. Slík óhöpp eru hluti af þessu (og það vita Færeyingarnir).
Ég veit að þetta er gert í sumum félögum hér heima í dag og það er vel. Ég er þess líka fullviss um að eftir 10 ár verða okkar helstu stjörnur, börnin sem ekki bara ÆFÐU í íþróttaaðstöðunni, heldur fengu að LEIKA sér frjálst þar líka.
SÞ



Leave a comment