Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir mikilli áskorun í leikskólamálum – skorti á fagfólki með menntun til að sinna á fyrsta skólastigi landsins. Á leikskólastiginu eru mikil tækifæri til að hlúa að velferð og framtíð barna okkar, en á sama tíma er ákall eftir fagmenntuðu starfsfólki á þessu skólastigi og hefur verið lengi. Í þessu felst einstakt tækifæri fyrir íþróttafræðinga með kennsluréttindi að hasla sér völl sem sérfræðingar í hreyfingu á leikskólastigi.
Af hverju leikskólar?
Leikskólar eru ekki einungis staður þar sem börn leika sér – þeir eru vettvangur fyrir alhliða þroska, þar sem líkamleg hreyfing gegnir lykilhlutverki, og gjarnan í gegnum leik. Eins og við vitum býður hreyfing upp á marga möguleika til að samþætta námsþætti sem tilgreindir eru í Aðalnámsskrá leikskóla. Þar segir m.a. “Leikur þarf að fá að ögra og örva hreyfifærni barna innan sem utandyra, mikilvægt er að börn fái margvíslega hreyfingu í daglegu leikskólastarfi.” (Mennta- og barnamálaráðuneytið, 2025).
Í þessu samhengi hafa margir leikskólar sett hreyfingu og leik í forgrunn í stefnum sínum. Rannsóknir sýna að hreyfing á fyrstu árum ævinnar hefur margvísleg jákvæð áhrif á þroska heilans, líkamsbeitingu og líðan. Hreyfing er okkur eðlislæg og helsta leiðin til að upplifa og skynja umhverfi okkar á fyrstu árunum. Við hreyfum okkur til að skynja og skynjum til að hreyfa.
Á sama tíma og við drögum fram mikilvægi menntunar og þekkingu á hreyfinámi, þá eru leikskólar víða undir miklu álagi vegna skorts á fagfólki. Nýlegar tölur hafa sýnt að aðeins rúmlega fjórðungur starfsfólks í leikskólum er með kennsluréttindi (Hagstofan, 2022).

Þegar meira er betra
Okkur hættir kannski til að hugsa að börnin séu “alltaf á iði” og hljóti þannig að fá næga hreyfingu. Í samanburði við okkur fullorðna fólkið má vera að þau séu óstöðvandi, – en á móti þá erum við mögulega mjög hagstæður samanburður. Þannig þýðir ekki að miða við 150 mínútur af rösklegri hreyfingu á viku fyrir börnin, líkt og okkur fullorðnum er ráðlagt (Embætti landlæknis, 2024).
Í Kanada hafa verið gefnar út ráðleggingar sem mæla með 180 mínútum Á DAG af fjölbreyttri hreyfingu og þar af 60 mínútur af fjörugum leik og MEIRA ER BETRA! (Tremblay et al., 2017). Hreyfing á þessum aldri einkennist af stuttum lotum af ákefð með rólegri leik þess á milli. Til að mæta þessari hreyfiþörf er mikilvægt að hafa fagfólk innanborðs sem getur skipulagt og sett upp aðstæður fyrir leik og hreyfingar í fjölbreyttu umhverfi. Þessar lotur eru svo drifnar áfram af ánægjunni sem hlýst af hreyfingunni sjálfri, hvatningu og þátttöku fullorðinna. Hér koma íþróttafræðingar sterkir inn með bakgrunn til að styðja við skipulag leikskóladagsins og fylla hann af hreyfingu.
Gildi hreyfingar í leikskólum
Hreyfing í leikskóla er ekki aðeins góð fyrir heilsu – hún skapar einnig vettvang fyrir nám í gegnum félagsleg samskipti, skapandi leik sem eflir tilfinningalegan þroska. Með íþróttafræðingum í leikskólum er hægt að leggja grunninn að því að hreyfingin verði markviss og skemmtileg. Markmiðin ættu meðal annars að vera að efla hreyfifærni, þroska og jákvæða sjálfsmynd barna.
Íþróttafræðingar eru hluti af lausninni
Íþróttafræðingar eru sérmenntaðir í að stuðla að hreyfifærni og jákvæðu viðmóti til hreyfingar. Þau sem hafa lokið meistaranámi í kennslufræðum (MEd) öðlast kennsluréttindi á öllum skólastigum, – þar með talið á leikskólastigi. Þetta opnar fyrir ný og spennandi tækifæri þar sem sérþekking þeirra getur nýst til að bæta líf og heilsu barna allt frá fyrstu árum.
Til að mæta þessari þróun setti dr. Ásrún Matthíasdóttir upp sérstakan áfanga í íþróttakennaranámslínunni á meistarastigi Íþróttafræðideildar HR í fyrra sem heitir einfaldlega Hreyfing barna á leikskólaaldri og er kenndur þessa dagana í annað skiptið. Ég hef nú tekið við keflinu og umsjón áfangans þar sem við fáum góða gesti til að fjalla um hreyfingu, sund ungbarna, hreyfifærnimat og skipulag leikskólastigsins með tilliti til hreyfingar svo dæmi séu tekin.
Leiðin fram á við
Íþróttafræðingar með kennsluréttindi eru nú þegar eftirsóttir starfskraftar víða í samfélaginu. Ég sé fyrir mér að leikskólar bætist í þann hóp vinnustaða sem sækist eftir kröftum þeirra. Þessi þróun er þegar hafin og við vitum af nemendum okkar sem hafa nú þegar tekið til starfa í leikskólum og haft áhrif. Sum þeirra eru í hlutverki hreyfistjóra og leiða þar með skipulag hreyfingar inni í skólastarfinu, jafnvel hjá fleiri en einum leikskóla. Í þessari nálgun felst einnig ávinningur fyrir íþróttafræðinga sem fengju þar með nýjan og mikilvægan vettvang til að nýta menntun sína og starfa með yngstu kynslóðinni okkar.

Að lokum
Íþróttafræðingar með fimm ára háskólamenntun og kennsluréttindi hafa einstakt tækifæri til að taka þátt í að móta sterkara leikskólastig. Með því að nýta þekkingu þeirra má styrkja grunninn að heilbrigði og vellíðan næstu kynslóða. Nú vonum við að það náist farsæl lausn á kjarasamningum og þeim verði sköpuð eftirsóknarverð starfsskilyrði. Slíkt er nauðsynlegt ef við viljum leysa skortinn á fagfólki sem leikskólarnir standa frammi fyrir.
Höfundur er forstöðumaður M.Ed námslínunnar til kennsluréttinda við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík.
Sveinn Þorgeirsson
Heimildir til stuðnings
Brooker, L., Blaise, M., & Edwards, S. (Eds.). (2014). The Sage handbook of play and learning in early childhood (First edition). SAGE.
Ræður fagleg sýn leikskólakennara för varðandi nám ungra barna í leikskólum á Íslandi? – Skólaþræðir. (2021, September 12). https://skolathraedir.is/2021/09/12/raedur-fagleg-syn-leikskolakennara-for-vardandi-nam-ungra-barna-i-leikskolum-a-islandi/
Timmons, B. W., Naylor, P.-J., & Pfeiffer, K. A. (2007a). Physical activity for preschool children—How much and how? Applied Physiology, Nutrition, and Metabolism, 32(S2E), S122–S134. https://doi.org/10.1139/H07-112
Timmons, B. W., Naylor, P.-J., & Pfeiffer, K. A. (2007b). Physical activity for preschool children—How much and how? Appl. Physiol. Nutr. Metab. 32(Suppl. 2E) https://doi.org/10.1139/H07-112
Tremblay, M. S., Chaput, J.-P., Adamo, K. B., Aubert, S., Barnes, J. D., Choquette, L., Duggan, M., Faulkner, G., Goldfield, G. S., Gray, C. E., Gruber, R., Janson, K., Janssen, I., Janssen, X., Jaramillo Garcia, A., Kuzik, N., LeBlanc, C., MacLean, J., Okely, A. D., … Carson, V. (2017). Canadian 24-Hour Movement Guidelines for the Early Years (0–4 years): An Integration of Physical Activity, Sedentary Behaviour, and Sleep. BMC Public Health, 17(S5), 874. https://doi.org/10.1186/s12889-017-4859-6
Hagstofan: Kennarar rúmur fjórðungur starfsfólks við uppeldi og menntun leikskólabarna. (2023). Hagstofa Íslands. https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/menntun/starfsfolk-i-leikskolum-2022/
Mennta- og barnamálaráðuneytið. (2025). Aðalnámskrá leikskóla. https://adalnamskra.is/adalnamskra-leikskola/Kafli%209%20-%20Leikur%20%C3%AD%20sam%C3%BE%C3%A6ttu%20og%20skapandi%20leiksk%C3%B3lastarfi
Hreyfing—Ráðleggingar embættis landlæknis | Ísland.is. (). Sótt January 21, 2025, from https://island.is/hreyfing-radleggingar-landlaeknis




Leave a comment