Þó nokkur ár eru síðan hugmyndir um skotklukku í handbolta komu fram. Þær hafa oftast verið innblásnar af þeirri sem notuð er í körfubolta. Hér sting ég upp á að við horfum til annarrar íþróttar. Hraðskák gæti verið áhugavert æfingaform, en ég sé það þó ekki fyrir mér til keppni umfram þann handboltaleik sem við höfum í dag. Tillagan er samt spennandi að mínu mati vegna þess hve hratt handbolti er að þróast. Ég tel að hér við höfum mjög hraðan leik með áhugaverðum takmörkunum (reglum). Sjálfur er ég ekki í aðstöðu til að keyra þennan leik með reglulegum hætti með liði sem stendur og því væri fróðlegt ef eitthvert ykkar gerir það. Ennfremur væri gaman að heyra ef eitthvert ykkar hefur verið að prófa sig áfram með þetta form eða sambærilegt?

Leikmenn sem spila leikinn í dag þurfa að taka margar taktískar ákvarðanir og það hratt. Sumar eru fyrirfram ákveðnar og aðrar eru ákveðnar af leikmönnum sjálfum í hita leiksins. Þessi leikur gæti verið einn þáttur í æfingaundirbúningi fyrir þær áskoranir í keppni. Ef við snúum aðeins upp á reglur leiksins má draga sérstaklega fram taktískar ákvarðanir leikmanna, og jafnvel þó þær séu gerðar undir öðrum reglum (takmörkunum) en í opinberu útgáfu leiksins, þá má sannarlega læra af, enda reyna þær á.

Tillagan er í sjálfu sér einföld, og hún hefur verið prófuð áður í öðru formi, svo mikið veit ég. Ég set þetta þó fram hér af forvitni og áhuga.

Skotklukkubolti (útg.1)

Um leikinn gilda hefðbundnar handboltareglur nema

  1. Spil:
    o Heildarsóknartími er takmarkaður við ákveðinn sóknartíma á lið. Ég get séð fyrir mér leiki allt frá 3 mínútum á lið og upp í 15 geta gengið vel. Að sjálfsögðu ákveðið eftir markmiðum af þjálfarans.
    o Hraðskák-klukka er staðsett á dómaraborðinu við miðvallarlínuna
    o Þegar sókn er lokið má leikmaður frá liðinu sem var ljúka við sókn (hvernig sem fór) ýta á takkann og setja sóknartíma andstæðingsins af stað (líkist skiptingum við markmann). Liðið sem var í vörn, og vinnur boltann má líka setja sinn tíma af stað (mikilvægt til að mega skora). Þetta gæti komið til þegar boltinn vinnst og ætlunin er að sækja hratt.
  2. Stigagjöf:
    o Það er aðeins leyfilegt að skora þegar sóknartími viðkomandi liðs er í gangi
    o Mikilvæg athugasemd: Sóknartíminn verður að vera virkur fyrir sóknarliðið til að geta skorað mörk. Þetta á einnig við í skyndisóknum og köstum yfir völlinn í tómt mark. Því mega leikmenn liðsins sem snögglega vann boltann líka setja sinn sóknartíma af stað um leið því andstæðingarnir hafa ekki mikinn hvata til þess fyrr en þeir eru nær því að vera komnir í vörn. (Þetta kemur mögulega í veg fyrir allra hröðustu hraðaupphlaupin til að byrja með, á meðan samherjarnir eru að kveikja á því að þurfa að setja sóknartímann af stað). Þá koma ekki mörg mörk yfir í tómt mark heldur á meðan þetta er reglan. Hér þarf samskipti og taktík til að samræma liðið og stytta viðbraðgstímann til að setja sóknartíma mótherjanna af stað.
  3. Sérreglur:
    o Ef leikmaður er sendur út af vegna brots sem venjulega samsvarar 2 mínútna situr leikmaðurinn í 1 mínútu af sóknartíma liðs síns (þar sem ekki er um venjulega leikklukku að ræða)
    o Liðið sem lýkur sóknartíma sínum á undan er fast í vörn og andstæðingarnir geta sótt ítrekað á mótherja sína þar til sóknartími þeirra rennur út. Í hvert skipti sem boltinn tapast eða mark er skorað undir þeim kringumstæðum (eitt lið á sóknartíma) þá er byrjað aftur frá eigin marki.
    o Réttast er að skipta leik upp í tvo leikhluta og víxla varllarhelmingum til að báðir vængir liðs þurfi að spila nær skotklukkunni.
  4. Lok leiks:
    o Það lið sem hefur skorað fleiri stig þegar sóknartími beggja liða er búinn sigrar
    o Ef annað liðið hefur klárað sóknartímann sinn og er undir í stigaskori þá er leik lokið.
    o Ef jafnt er þegar sóknartími beggja liða er búinn, þá er framlengt með silfurmarki. Liðið sem skoraði síðast með tíma af skotklukkunni byrjar í vörn. Það lið sem skorar fyrr án þess að andstæðingurinn nái að svara með marki sigrar.
Hér er tillaga að leiks sem gæti virkað sem áhugavert æfingaform sem reynir á taktíska hugsun í hröðum handboltaleik.
Þessi skreytingarmynd er að sjálfsögðu í boði gervigreindar, nánar tiltekið MS Image Creator.

Ég sé fyrir mér krefjandi ákvarðanir fyrir leikmenn, eins og hversu hratt skal byggja upp sóknina til að ná góðu færi? Hvenær ferðu í mjög stuttar sóknir til að spara tíma? Þú ert undir eða yfir, – hvernig ferðu með sóknartímann þinn? Tímaáherslan ætti einnig að hafa hvetjandi áhrif á vörnina að ná fram löglegum stöðvunum til að klípa tíma af sókninni. Þá ætti að haldast spennan nokkuð lengi í leiknum þar sem það er möguleiki fyrir liðið sem er undir að ná mótherjunum að stigum svo framarlega sem það er sóknartími eftir, og þá jafnvel að fara í margar sóknir í röð og skora mörg mörk ef sóknartími mótherjanna er búinn.

Tempóið ætti að geta verið nokkuð hátt í gegnum leikinn og varnarákefð er verðlaunuð með töpðum sóknartíma. Þannig er óvíst að það komi til þess að þurfa að dæma leiktöf við þessar aðstæður. Það getur verið smá óvissa hvernig það leysist að láta liðin setja af stað sóknartíma andstæðingsins, nú eða setja hann af stað fyrir sitt liði til að opna á möguleikann á að skora. Ég hef þó trú á að það leysist að einhverju leiti af sjálfu sér þegar liðin hafa spilað leikinn nokkrum sinnum og fundið að það getur verið dýrt gefa sóknarliðinu tíma til að koma sér upp völlinn án þess að pressa það og setja sóknartímann þeirra af stað. Ég er líka viss um að einhverjir leikmenn sjá glufur í þessum leik til að nýta sér sem ég hef ekki séð fyrir og það er þá undir þjálfaranum komið að meta hvort það þurfi að setja reglu um þá hegðun.

Að lokum sé ég þennan leik fyrir mér bæði sem uppbrot og ögrun við meistaraflokksleikmenn á hentugum tíma á undirbúnings eða keppnistímabilinu, og ekki síður fyrir elstu yngri flokkana sem taktísk æfing sem hægt er að ræða um. Það ætti hið minnsta að vera nóg at í þessum leik.

Hlakka til að heyra frá ykkur sem ætlið að prófa.

ps. hér er leiklýsingin á pdf formi:

Leave a comment

Velkomin!

Ég heiti Sveinn Þorgeirsson og er íþróttaunnandi, eiginmaður og þrefaldur faðir og Fjölnismaður búsettur í Mosfellsbæ.

Meira frá mér á öðrum miðlum…