Ég ætla að bjóða upp á eftirfarandi úrval fyrirlestra og fjörs á Íþróttaviku í haust. Ef þið hafið áhuga á að fá þessa fyrirlestra eða verklegan stórboltatíma eru þið hvött til að hafa samband við mig í tölvupósti sveinn.thorgeirsson@gmail.com.

Má tækniþjálfun vera skemmtileg? (45 mín fyrirlestur)

Áhugavert nýtt sjónarhorn á hvernig við þjálfum hreyfingar í íþróttum í samspili við umhverfið í stað þess að sjálfvirknivæða þær. Þessi nýja sýn á hreyfingar býður upp á einstaklingsmiðun í þjálfun hreyfinga og annarskonar þjálfunaraðferðir. Er bylting í vændum?

Um hlutverk hreyfinga í skólaíþróttum framtíðarinnar (45 mín fyrirlestur)

Getur verið að mikil áhersla á heilsu, íþróttir og keppni hafi neikvæð áhrif á nám í skólaíþróttum? Hvernig opnar nám á nýjum hreyfingum með fjölbreytt markmið dyr að hreyfingu fyrir lífstíð? Hér verður mögulegum svörum við þessum spurningum velt upp út frá hugmyndum um hreyfilæsi og hreyfivistkerfi.

Stórboltahópefli fyrir framhaldsskóla og íþróttafélög (verklegt innandyra í 30-60 mínútur)

Farið verður í valda hópeflisleiki með mjög stórum bolta undir handleiðslu íþróttafræðings. Tíminn fer fram innandyra fyrir hópa frá 10 og upp í 50 manns. Nánari útfærsla er samkomulagsatriði.

Nánar um verkefnið:

Íþróttavika Evrópu (European Week of Sport) er haldin 23. – 30. september ár hvert í yfir 30 Evrópulöndum. Í vikunni sameinast Evrópubúar undir slagorðinu #BeActive

Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Áhersla er lögð á að höfða til grasrótarinnar og hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi.

Hér má skoða heimasíðu BeActive www.beactive.is og Facebook https://www.facebook.com/beactiveiceland 

Leave a comment

Velkomin!

Ég heiti Sveinn Þorgeirsson og er íþróttaunnandi, eiginmaður og þrefaldur faðir og Fjölnismaður búsettur í Mosfellsbæ.

Meira frá mér á öðrum miðlum…