7 ráð til ungra leikmanna um val milli tveggja íþrótta

Hvenær brýst fram næsti Aron Pálmarsson eða Margrét Lára? Ég fékk góðar viðtökur við síðasta pósti sem miðaðist að þjálfurum og fannst því upplagt að bæta við ráðleggingum til leikmanna beint.

Reglulega vex upp ungt íþróttafólk í félögunum sem hafa til að bera mikla hæfileika í fleiri en einni íþróttagrein. Það er þó mjög tilviljanakennt hvernig haldið er á þeim málum innan félagana ef þau skipta sér af því beint yfirhöfuð. Annað mál er svo hvaða upplýsingar viðkomandi fær til að hjálpa sér að við að taka ákvörðun um í hvorri íþróttagreininni skulu halda áfram. Að velja er mikilvægt skref að taka svo leggja megi tíma í sérhæfingu sem er nauðsynleg á unglingsárum. Því við vitum að öll þjálfun er sérhæfð, það er, þú verður aðeins betri í akkúrat því sem þú æfir.

Áhrifaþættir og álag

Það sem liggur fyrir í öllum tilvikum er sú staðreynd að eftir því sem einstaklingurinn færist nær meistaraflokki eykst álagið og fjöldi æfingatíma á viku sem gerir árekstra óumflýjanlega. Hvenær og hvernig staðið er að því að ákveða er áhugavert og ef til vill vanmetinn tímapunktur í lífi efnilegs íþróttafólks.

Fyrir flesta sem æfa tvær greinar er þetta val ekki erfitt, jafnvel sjálfvalið vegna þess að styrkleikarnir og áhuginn liggur frekar á öðrum staðnum. Það vill þó verða, þegar að um sérstaklega efnilega einstaklinga er að ræða að samkeppnin harðni og greinarnar leggi meira upp úr því að halda viðkomandi í sportinu. Þetta getur skapað mikla togstreitu hjá íþróttamanninum sem vill standa sig á öllum stöðum og er eftirsóttur.

Staðfestingu á árangri í íþróttagrein fær hver íþróttamaður t.d. með því að standa sig vel í leikjum og keppni og vinna til verðlauna, vera valinn í A-lið flokks, “fá” að spila með flokki fyrir ofan sig, vera valinn í úrtaks- og lokahópa í yngri landsliðum og fá að æfa og jafnvel spila með meistaraflokki. Þá eru ótalin sérstök verðlaun sem stundum eru veitt af félögum í yngri flokkum. Aðrir þættir sem hafa áhrif á ákvörðunartöku eru möguleikar á árangri, samkeppni í greininni (mikil vs lítil), hefð, menning og þekking í samfélaginu í boði og aðstæður til æfinga svo nokkuð sé nefnt.

Hvenær er rétti tímapunkturinn?

Sérhæfing á unglingsárum er nauðsynleg hverri íþróttagrein til að ná sem mestum árangri. Um mikilvægi sérhæfingar eru flestir sammála, en það er hvenær best er að hefja hana sem verður helst til umræðu. Árið 2004 komu Balyi & Hamilton fram með The Long Term Athlete Development model sem átti að varpa ljósi á hvernig ætti að standa að langtímauppbyggingu íþróttamannsins. Módelið er ekki alls óumdeilt en hefur þó notið töluverðra vinsælda þar sem það dregur fram megináherslurnar fyrir hvern aldurshóp á skýran hátt. Módelið má sjá hér að neðan.

CdnSport4LifeLTAD

Í LTAD módelinu verða skil við 15-16 ára aldurinn þar sem áherslan breytist frá því að vera að “æfa til að æfa” yfir í að “æfa til að keppa“. Sambærileg tímamót má greina í módeli Developmental model of Sport Participation [DMSP] en örlítið fyrr þó eða milli 14-15 ára. Þá er mælt með því að leggja áherslu á eina íþróttagrein á “investment” árunum 15-18 ára, eftir að hafa fækkað þeim í 2-3 greinar á “specializing” árunum (11-14 ára). Meira má lesa um þennan tímapunkt í greininni To sample or specialize frá 2009 eftir J. Côté, R. Lidor, D. Hackfort. Þar er fjallað um módelið sem er fjallað er um í verkum Côté, Baker, & Abernethy (2007) og svo Côté & Fraser-Thomas (2007).

Figure-1-The-Developmental-Model-of-Sport-Participation-Note-Adapted-from-Co-t

Að lokum: 7 einföld ráð

Eftirfarandi ráð byggi ég á niðurstöðum lokaverkefnis míns frá 2010 í íþróttafræði HR sem heitir einfaldlega Ráðleggingar til ungra drengja um val milli knattspyrnu og handknattleiks. Ráðleggingarnar eru almenns eðlis og ég tel að þær geti átt við þegar aðrar íþróttir eiga í hlut. Með meiri þekkingu og reynslu hefur það blundað í mér að gefa út uppfærðar ráðleggingar og læt ég hér með verða að því og endurbætur eru skáletraðar.

  1. Njótið þess að æfa íþróttir. “You must truly enjoy what you are doing” – J. Wooden.
  2. Æfið fjölbreytt og haldið áfram að prófa nýja hluti á grunnskólaaldri ef þið hafið þess kost og áhuga. Hafið þó í huga að eftir 15 ára aldur getur æfingaálag og sérstaklega leikjaálag gert það að verkum að tími til mikilvægrar líkamlegrar uppbyggingar er of lítill.
  3. Sinnið námi af krafti sem og öðrum áhugamálum. Það sérstaklega mikilvægt upp á framtíðarmöguleika, og ekki síður þegar meiðsli koma upp og eftir að íþróttaferilinum lýkur.
  4. Sinnið styrkæfingum af kostgæfni, þær gera ykkur kleift að æfa af krafti og þola álagið sem því fylgir að æfa tvær greinar.
  5. Þegar kemur að sjálfu valinu, látið ekki undan utanaðkomandi þrýstingi, fylgið því sem YKKAR tilfinning segir.
  6. Þegar þið hafið valið, standið með ákvörðun ykkar, einbeitið ykkur að því sem þið völduð. Það sem þið veljið á þessum tímapunkti ER ALLTAF RÉTT. Ef þið fylgið eigin tilfinningu þegar kemur að því að velja á milli – verður eftirsjáin engin.
  7. Hlustið á eigin líkama og lærið á hvernig hann bregst við álagi. Og munið að þið getið aðeins æft eins mikið og þið hvílið ykkur!

Heimildir

Côté, J., Baker, J., & Abernethy, B. (2007). Practice and Play in the Development of Sport Expertise. In R. Eklund & G. Tenenbaum (Eds.), Handbook of Sport Psychology (3. ed., pp. 184–202). Hoboken, NJ: Wiley.
Côté, J. & Fraser-Thomas, J.  (2010).  Youth involvement and positive development in sport.  In P. Crocker (Ed.).  Sport psychology:  A Canadian perspective, (2nd edition).  Toronto:  Pearson.
Côté, J., Lidor, R., & Hackfort, D. (2009). ISSP position stand: To sample or to specialize? Seven postulates about youth sport activities that lead to continued participation and elite performance. International Journal of Sport and Exercise Psychology, 7(1), 7–17.
Ford, P., De Ste Croix, M., Lloyd, R., Meyers, R., Moosavi, M., Oliver, J., … Williams, C. (2011). The Long-Term Athlete Development model: Physiological evidence and application. Journal of Sports Sciences, 29(4), 389–402. https://doi.org/10.1080/02640414.2010.536849

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s