5 ráð til þjálfara íþróttamanna í tveimur íþróttagreinum

Fyrir réttum 7 árum gerði ég lokaverkefni mitt í íþróttafræði BSc. Þessi grein er uppfærsla á þeim ráðleggingum sem koma þar fram.

Þjálfarar bera ríkar skyldur gagnvart ungum leikmönnum sem þeir eru með undir sinni stjórn. Það er draumur hjá mörgu ungu íþróttafólki að ná langt í sinni íþrótt og við erum þeirra helsta stoð í þeirri leit. Aðrir æfa á öðrum forsendum sem eru alveg jafn mikilvægar en gera aðrar kröfur til okkar sem þjálfara. Þegar kemur að ungu íþróttafólki sem æfir tvær íþróttir, vill ná langt og er tilbúið til að leggja mikið á sig, er að ýmsu að hyggja fyrir þjálfarann.

Hér eru nokkur ráð fyrir þjálfara sem hafa íþróttamenn í þessari stöðu, byggð á niðurstöðu lokaverkefnisins.

  1. Hafðu samskipti og samstarf við þjálfarann í “hinni greininni” / “hinum flokknum” um álagið og hvernig því skal stjórnað, t.d. með æfingaviku, keppnisálag og styrkþjálfun í huga.
  2. Fram að 15 ára aldri ætti ungum íþróttamönnum að vera gert kleift að æfa a.m.k. tvær íþróttagreinar sé áhugi og forsendur fyrir því. Þannig þarf hvor þjálfari um sig að gefa svigrúm fyrir einstaklinginn til að taka ekki þátt í öllum æfingum en samt leyfa viðkomandi að upplifa sig sem hluta af hópnum.
  3. Eftir 15 ára aldurinn fara jákvæðu áhrifin af því að æfa tvær greinar (eða fleiri) dvínandi í samanburði við ágóðan við sérhæfingu (hér er átt við flestar íþróttir sem gera ráð fyrir að besta árangri sé náð á aldursbilinu 25-30 ára). Því er mælt með því að valið fari fram við þennan aldur.
  4. Með því að seinka sérhæfingu (eftir 15 ára aldur) er  hætta á að viðkomandi dragist aftur jafnöldrum sínum í báðum íþróttagreinum þar sem sérhæfing krefst mikilla æfinga, það er tíma og orku. Á meðan tvær íþróttir eru æfðar samhliða verður líkamlegt og andlegt álag mikið sem getur unnið gegn þeirri uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað á unglingsárum.
  5. Horfið á, hlustið á og spyrjið íþróttamanninn ykkar um líðan, bæði líkamlega og andlega. Með því má greina og koma í veg fyrir einkenni ofþjálfunar og ofálags sé gripið til réttra aðgerða (sem er mjög oft einfaldlega hvíld).

Þjálffræðilegar hættur

Þegar einstaklingar æfa tvær greinar samhliða (nú eða æfa með tveimur flokkum) að ýmsu að huga. Á unglingsárum eykst keppni og álag og þá er að ýmsu að huga. Eftirfarandi eru algengar þjálfunargildrur sem íþróttamenn lenda í:

Of margir keppnisdagar. Flestar hópíþróttir byggja á deildarfyrirkomulagi með mörgum leikjum. Þegar leikið er í tveimur íþróttum samhliða er hætt við miklu álagi á keppnistímabili sem eru samhliða. Hinn kosturinn er að keppnistímabil skarast ekki milli greina, en þá er allt árið undirlagt í keppni. Það er ekki jákvætt fyrir unga íþróttamenn sem þurfa uppbyggingarfasa á að halda í ársplaninu. Með hverjum keppnisdegi fækkar tækifærum til erfiðra æfinga (bæði daginn fyrir, á keppnisdegi og daginn eftir) í hverri viku og þar með hægir verulega á líkamlegri uppbyggingu sem annars gæti átt sér stað.

Engin styrkþjálfun. Þegar kemur að því að gera málamiðlanir um æfingaálag íþróttamanns í tveimur greinum er yfirleitt skipulagðri styrkþjálfun fórnað fyrir keppni, tækni- eða taktíska þjálfun. Þetta er ekki skynsamlegt því það er einmitt styrkþjálfunin sem gerir einstaklingnum kleift að takast á við mikið álag sem fylgir tveimur greinum. Besta vörn liða eru sterkir vöðvar.

Ekkert hvíldartímabil. Þetta er umhugsunarvert fyrir þjálfara íþróttamanna sem eru í tveimur greinum með sitt hvort keppnistímabilið. Því þó það hitti “vel” á keppnislega séð að missa ekki af leikjum og mótum, er vont að missa af undirbúningstímabilinu og ekki síður nauðsynlegu hvíldartímabili,  sem er nauðsynleg álagsbreyting frá skipulagðri íþróttastarfsemi. Einnig er þetta sérstakt viðfangsefni fyrir þjálfara sem hafa landsliðsmenn á sínum snærum sem fara í sérhæfðar æfingar hjá landsliðum á meðan aðrir liðsmenn fá hvíld eða annars konar líkamlega þjálfun. Sérstakar ráðstafanir þarf að gera í kringum landsliðsmenn og -konur.

Enginn hvíldardagur. Að hafa ekki hvíldardag í skipulagi vikunnar er slæmt, mjög slæmt. En oft er ekki horft í það þegar tvö prógrömm eru í gangi, heldur litið á hvíldardag í annarri greininni sem tækifæri til að taka æfingu í hinni greininni í stað skipulagðrar hvíldar. Það er lykilatriði að gefa líkamanum hvíld, því með vikuáætlun þar sem engin hvíldardagur er til staðar (jafnvel viku eftir viku) er álaginu hætt við að verða flatt, og bitna á gæðum og ákefð þjálfunar. Sérstaklega þarf að huga að því að vera tilbúin að draga úr álagi í kringum mesta vöxt unglinga sem jafnan á sér stað í kringum 12 [kv] / 14 [kk] ára aldurinn (peak height velocity [PHV]).

*athugið að þessi atriði geta líka átt við þegar einstaklingur æfir eina íþrótt með fleiri en einum flokk í einu / “æfir upp fyrir sig”. Nánar er fjallað um það í þessari grein um hvað á að gera og hvað ekki þegar hugsunin er að færa einhvern upp um flokk. Changing the Game Project

Það kemur að því…

Það sem þjálfarar gætu þurft að leggja mat á eru framtíðarmöguleikar viðkomandi í íþróttinni og þá með hliðsjón af líkamlegum og hugarfarslegum eiginleikum. Aðrir þættir sem gætu haft áhrif eru möguleikar á námi, atvinnu og tækifærum tengdum íþróttinni. Þegar kemur svo að sjálfu valinu eru mikilvægt að þjálfarar leitist við að létta pressu, veita ráð af heilindum og ekki beita þvingunaraðferðum eða hótunum til að knýja fram val. Þegar einstaklingurinn hefur svo valið, skal styðja hann í því, því valið er alltaf rétt á þeim tíma sem það er tekið út frá þeim forsendum sem eru í boði hverju sinni.

Ráðleggið af eins miklu hlutleysi og ykkur er unnt með hag íþróttamannsins til langs tíma fyrir brjósti. Ef þið gerið það, þá verður ykkur heilsað í Kringlunni einhverjum árum síðar af einstaklingi sem þið komuð fram við af heilindum og virðingu.

Heimild

Meðal annars byggt á lokaverkefni Sveins Þorgeirssonar í íþróttafræði B.Sc. frá árinu 2010, “Ráðleggingar til drengja um val á milli knattspyrnu og handknattleiks”.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s