USA og Ísland: Ekki svo ólíkt eftir allt

Um páskana heimsótti verkefnisstjóri afreksíþróttasviðsins IMG akademíuna, staðsetta í Sarasota og styrkþjálfara í amerískum fótbolta hjá háskólaliði University of Florida, Florida Gators. Heimsóknirnar voru afar áhugaverðar og veittu innsýn í heim sem virðist á stundum afar fjarlægur og draumkenndur.

Markmið ferðarinnar var að fá innsýn í og kynnast þeirri menningu sem er í skólum í Bandaríkjunum fyrir nemandanum sem íþróttamanni (student athlete). Sú hefð hefur verið í marga áratugi og er íþróttakerfið þeirra byggt upp í kringum þátttöku í skólaliðum. Á sama tíma er þessi hefð að riðja sér til rúms hér á landi með sérstökum sviðum og brautum þar sem íþróttaiðkun er gert hátt undir höfði, samanber Afreksíþróttasvið við Borgarholtsskóla [st. 2008] og fleiri góðum sem mörg hófu starfsemi fyrir um 10 árum þegar lögum um framhaldsskóla var breytt. Þó ferðin hafi verið stutt voru skilaboðin sem ég tek með mér heim mikilvæg að ég tel.

IMG hefur yfir að ráða allri þeirri aðstöðu sem nokkur þjálfari getur hugsað sér til kennslu og þjálfunar enda dyggilega studdir af stórfyrirtækjum. Florida Gators býr við svipaða aðstöðu þar sem allt virðist vera til alls, og pressan og peningarnir í spilunum miklir.

Skipulag náms við IMG akademíuna.

Screen Shot 2017-04-24 at 23.46.56

Af því sem ég lærði af ferðinni er meðal annars þetta, sem ég tel að við getum bætt…

  • gera þjálfurum kleift að eyða meiri tíma í samskipti við nemendur og við hvorn annan
  • samskipti við félögin og þjálfara þeirra
  • það er hægt að gera ótrúlega mikið með tiltölulega einfaldri tækni og tækjum, og á sama tíma muna að það er ekkert sem kemur í stað samskipta milli íþróttamanns og þjálfara
  • mælingar og eftirfylgni í ríkari mæli, en þó ekki meir en þjálfarar hafa við að greina og vinna úr
  • búa til tækifæri í okkar félögum og starfsemi fyrir þjálfara að hittast og deila hugmyndum og reynslu, t.d. með sameiginlegum rýmum til vinnu milli æfinga
  • við erum líklega að keyra of stíft á okkar íþróttamenn þegar á heildina er litið, því þegar margir þjálfarar koma að, er það aðeins íþróttamaðurinn sem veit og hefur yfirsýn (þó ekki alltaf einu sinni) yfir hve mikið hefur verið þjálfað. Sem ýtir undir þann mikilvæga punkt að kenna og gera íþróttamennina sjálfstæða.
  • ég tel að á meðan að sá eiginleiki að geta hoppað í öll hlutverk þjálfarans sé mikilvægt, ættum við að vera að nálgast þann stað hér heima að rúm ætti að skapast fyrir aukna sérhæfingu þjálfara

Meðal þess sem ég tel að við ættum að halda áfram að gera vel…

  • íþróttafélagakerfið á Íslandi er gott, og hentar mjög vel til að þjálfa upp íþróttamenn
  • halda áfram að mennta góða þjálfara sem verða alltaf kjarninn í góðum árangri
  • meira er ekki alltaf betra og hægt er að ofgera íþróttamönnum, mikilvægt að gefa andrými og tímabilaskipta námsárinu

Frábær námsárangur og flottir nemendur!

Þann 21. desember síðast liðinn fór fram útskrift við Borgarholtsskóla. Það var mér sannur heiður að fá að taka þátt í því að útskrifa fjóra vel valda herramenn frá afreksíþróttasviðinu. Körfuboltamaðurinn Róbert Sigurðsson og knattspyrnukappinn Viðar Ari Jónsson útskrifðust ásamt Hilmari Jóhannssyni einnig úr knattspyrnu og Bergi Snorrasyni handbolta útskrifuðust allir. Þeir eru afreksíþróttasviðinu og Fjölni góður afar góður vitnisburður.

Útskrift haust 2014
Frá haust útskrift Borgarholtsskóla 2014. Á myndinni má sjá, f.v. Halla Karen fagstjóri íþrótta, ég, Bergur Snorrason, Viðar Ari Jónsson, Róbert Sigurðsson og Hilmar Jóhannsson.

Þessi útskrift var sérstaklega skemmtileg fyrir mig þar sem ég hef þekkt bæði Berg og Hilmar í um 10 ár og fengið að þjálfa þá í handbolta. Báðir fengu þeir verðlaun fyrir námsárangur frá skólanum og var Bergur dúx skólans þetta haustið. Hann er í senn fyrsti handbolta-nemandinn til að útskrifast frá afreksíþróttasviðinu.

Það eru útskriftir sem þessar sem réttlæta tilveru afreksíþróttasviðsins.