Það voru örlítið þreytt (eftir æfingar morgunsins) en hress ungmenni sem mættu til mín í fyrirlestur í Egilshöllinni um síðustu helgi. Þarna voru bæði strákar og stelpur sem hafa verið valin í verkefnið Hæfileikamótun HSÍ. Þau fengu erindi um mælingar HSÍ sem HR hefur framkvæmt í hátt 10 ár og hvernig þær geta tengst áherslum í styrkþjálfun á þessum aldri.

Meðal þess sem ég lagði áherslu á…
- Mælingar eru þjónusta við leikmenn og þjálfara sem getur gagnast við skipulag þjálfunar og markmiðasetningu.
- Besta viðmiðið þeirra eru niðurstöðurnar frá fyrri mælingu samanborið við þau sjálf fyrir X mánuðum síðan.
- Til hliðar við það hefur HR útbúið viðmið eftir aldri og leikstöðum fyrir prófin sem framkvæmd eru. Þar er gott að minna sig á að í þeim hópi eru bestu leikmenn landsins í viðkomandi aldurshópi.
- Við fórum einnig yfir það hvernig unglingar á þessum aldri eru líka á misjöfnum stað í líkamlegum þroska þar sem munurinn getur verið +/- 2 ár frá meðaltali í kringum mesta vaxtarskeiðið sem hefði líka áhrif.
- Þá er mikilvægt við túlkun niðurstaðna að horfa til þess að þreyta, meiðsli, veikindi og álag utan íþrótta (t.d. skóli) getur haft áhrif á niðurstöðurnar.
- Styrkþjálfun er örugg ef hún er undir handleiðslu þjálfara og getur skilað miklum ábata, bæði í formi meiðslaforvarna (spila meira!), bættrar frammistöðu á vellinum og bættrar líkamsstöðu.
- Sérhæfðar og stigvaxandi æfingar fyrir handbolta má nálgast á https://fittoplay.org/sports/handball/, sem sýnt hefur verið fram á að geta dregið úr meiðslum um allt að 50%.
Rétt eins og það er mikilvægt að undirbúa sig vel fyrir leik þá á margt það sama við um mælingar. Eitt sem leikmenn geta gert (sérstaklega áður en þau mæta í fyrsta skiptið) er að skoða hverju þau eiga von á. Það getur minnkað stressið, að vita til hvers er ætlast og af hverju. Hér má sjá myndskeið sem við unnum til að lýsa þeim mælingum sem við notum: https://vimeo.com/showcase/9333092
Þess má geta að þetta er ekki eina samstarf HR og HSÍ tengt þjálfun því í fyrra gáfu nemendur á 3ja ári í þjálffræði út myndskeið af æfingum með þremur erfiðleikastigum sem hugsaðar voru fyrir unga handboltaleikmenn. Myndskeiðin eru hér: https://vimeo.com/showcase/HRxHSI og voru hugsuð til að bæta við það safn æfinga sem fyrir var á þessari flottu síðu: https://fittoplay.org/sports/handball/.
SÞ




Leave a comment