,

Heimsókn til Húsavíkur

Heimsókn til Húsavíkur

Ég fékk frábært boð um að koma til Húsavíkur í tilefni af Íþróttavikunni sem nú er að klárast. Í heimsókninni fékk ég að vera með þrennskonar uppákomur. Fyrst var ég með stórbolta-fjör fyrir framhaldsskólahóp. Mér fannst þetta stórskemmtilegt og gaman að finna hvað nemendur lifðu sig vel inn í verkefnin. Uppskriftin var blanda af hópefli með kynningu á þessari jaðaríþrótt sem Kin-Ball er. Í upptaktinum að því notuðum við talsvert af blöðrum til að kynnast reglum leiksins og hafa gaman.

Næst tók við handboltatími með krökkum sem eru að byrja að æfa. Völsungur hefur verið að taka skref í að bjóða aftur upp á handboltaæfingar fyrir stráka og stelpur. Handboltaunnandinn í mér fagnar þessu framtaki og það var virkilega gaman að prófa nokkrar æfingar með þessum hópi. Sumar af þeim voru innblásnar af verkefni sem ég þróaði með Kristjáni “Sissa” Halldórssyni og fékk styrk Þróunarsjóðs námsgagna.

Að lokum var komið að opnum fyrirlestri fyrir foreldra um “Að eiga börn í íþróttum“. Þar fékk ég að leika lausum hala. Þar kom ég meðal annars inn á áherslur í barna og unglingaþjálfun, sérhæfingu og tók dæmi sem byggðu á minni reynslu sem leikmaður, þjálfari, sjálfboðaliði og fræðimaður 🙂

Þetta var mjög skemmtileg heimsókn og þakka ég kærlega fyrir móttökurnar. Margt mjög áhugavert og skemmtilegt að gerast á Húsavík eins og verkefnið um samþættingu skóla- og frístundastarfs ber merki um – verkefni sem er að mínu viti alveg til fyrirmyndar!

Leave a comment

Velkomin!

Ég heiti Sveinn Þorgeirsson og er íþróttaunnandi, eiginmaður og þrefaldur faðir og Fjölnismaður búsettur í Mosfellsbæ.

Meira frá mér á öðrum miðlum…