Hvað er Picigin?

Hvaða leikur er það sem fær eldri menn til að fleygja sér flötum í sjóinn trekk í trekk svo klukkutímum skiptir? Eitthvað spennnadi hlítur það að vera, en fljótt kemur það í ljós að það er ekki keppni. Það eitt og sér er áhugavert því íþróttir og hreyfing er svo keppnismiðuð. En það á ekki við um þennan sérstaka strandleik sem er kallaður picigin. Þar vinna fimm leikmenn saman að því að halda boltanum á lofti með því að slá hann með flötum lófum eftir því sem hentar. Og, þeir eru ekki að telja hve oft það tekst, – það er aukaatriði. Aðalatriðið er að bjarga boltanum frá því að enda í sjónum með tilþrifum!

Til að búa til tilþrifin þarf að senda góðar sendingar á réttan stað hjá réttu leikmönnunum, mátulega langt frá. Innan leiksins hafa orðið til leikstöður þeirra sem hreyfa sig minna en eru tæknilega öflugir og svo hlaupara sem geta sótt boltann lengra frá sér með tilhlaupi í skutlurnar. Takturinn er hraður og því þarf að fylgjast vel með. Reynslumiklir leikmenn eru sagðir geta séð 2-3 sendingar fram í tímann sem hjálpar þeim staðsetja sig. Það getur aðeins gengið ef meðspilaranir deila sömu sýn og þekkingu á leiknum. Hvernig þeir eru samstilltir inn á hreyfiboð (shared affordances) hvors annars hefur því mikið að segja og næst aðeins með þjálfun í leiknum. Semsagt, þeir þurfa að þekkja eigin getu og samherja sinna vel.

Hvaðan kemur Picigin?

Leikurinn á sér ríflega 100 ára hefð við fallegar strendur Split og er talinn hafa náð fótfestu eftir að amerískir sjómenn kynntu leikinn. Aðstæðurnar við ströndina sem liggur við Adría-hafið eru taldar sérstaklega hentugar þar sem þar er skjólsælt og aðgrunnt. Fullkomnar aðstæður til að senda lítinn bolta af nákvæmni á milli sín og hreyfa sig á eftir honum.

Leikurinn er spilaður með bolta sem er í grunninn tennisbolti sem hefur verið plokkaður. Það er sérstök kúnst að útbúa þessa bolta og það er ekki á allra færi. Það er mikilvægt að boltinn hafi lit sem sést vel við ströndina og skeri sig úr umhverfinu.

Þessi leikur er flott dæmi um hvernig einstaklingar í samspili við umhverfið geta búið til áhugaverðan leik sem rígheldur áhuganum. Útkoman er svotil óútreiknanlegur, hraður og tilþrifamikill leikur sem er áhorfendavænn. Mér dettur ekki í hug að reyna að flytja þennan leik inn í vindasamar fjörur landsins, aðstæður eru ekki sambærilegar. Í Split ríkja frábærar aðstæður fyrir einmitt þennan leik, og því verður hann að fá að eiga heima þar. Við getum hinsvegar að hugsað, – hvert er okkar Picigin hér á landi?

Eigum við okkar Picigin?

Fyrir mér hefur þessi leikur svo margt sem er þess virði að staldra við. Hann er tæknilega krefjandi sem býr til áskorun til að tileinka sér færni, og félagslegur sökum samvinnunar sem þarf að eiga sér stað. Ég sá hópa manna leika sér svo klukkutímum skipti með tilþrifum sem við gætum haldið að myndi eldast af okkur, en svo er ekki. Þeir köstuðu sér á eftir boltanum, eða létu sig falla, eitthvað sem jafnaldrar þeirra hér heima vilja og þurfa að fyrirbyggja í okkar aðstæðum. Sumir þessara hópa mæta reglulega og jafnvel yfir vetrartímann líka til að ná framförum og hitta vinina. Ég fékk frábæra kynningu á leiknum frá innfæddum og mun taka þetta með mér, – þó ekki nema hugsunina um samvinnuna og sjálfbært samfélag. Þetta er þeirra hreyfing, og það var auðvelt að hrífast með.

Leave a comment

Velkomin!

Ég heiti Sveinn Þorgeirsson og er íþróttaunnandi, eiginmaður og þrefaldur faðir og Fjölnismaður búsettur í Mosfellsbæ.

Meira frá mér á öðrum miðlum…