Það getur verið góð hugmynd að barnið æfi og keppi upp fyrir sig, en þá ákvörðun tökum við auðvitað bara að vel athuguðu máli í skipulögðum íþróttum. Hvað er annars að hræðast? Ef við hugsum aðeins út í það, þá ættu þessar aðstæður að koma reglulega upp á skólalóðinni. Hvað er mikilvægt þá? Að vel sé tekið á móti þeim sem yngri eru og skipt í lið á sanngjarnan hátt (vonandi ekki kosið). Það er hætta á að ef þau sem eru eldri og þroskaðri fara fram með yfirgangi og tuddaskap þá komi þau yngri ekki aftur, – eins og þau hafa val um. Eru lögmálin á skólavellinum ólík skipulagða starfi íþróttafélaganna?
Í þessari grein ætla ég að reyna að varpa ljósi á sumar af þeim spurningum sem við ættum að spyrja okkur áður en við spilum börnum uppfyrir sinn aldur. Ef þú lesandi góður, ert ekki þegar búinn að lesa fyrri tvær greinar mínar í þessari seríu um vandann og þær lausnir sem gætu falist í því að breyta verkefninu þá hvet ég þig til að kíkja á þær líka.
Hér getið þið skráð ykkur fyrir skilaboðum um nýtt efni á þessari síðu
Við byrjuðum á að undirstrika það sem birtist okkur þegar við sjáum börn sem hafa miklu meiri getu en jafnaldrar og velta fyrir okkur hvað væri til ráða. Ef við setjum okkur í spor ungra leikmanna sem eru að spila upp fyrir sig þá hafa nokkrir hlutir breyst. Líkamlega er líklegt að viðkomandi hafi ekki lengur það augljósa forskot í t.d. hraða, hæð eða styrk sem var til staðar. Þetta á líka við um leikmanninn sem hefur afburða leikskilning, en þó á annan hátt. Að finna sig í þessari stöðu kallar á lausnaleit og aðlögun hjá leikmanninum því lausnirnar sem virkuðu á jafnaldrana verða ekki eins árangursríkar í nýju umhverfi.
Kröfurnar um að skynja aðstæðurnar og taka góðar ákvarðanir aukast því eftir því sem við færust nær meistaraflokki. Sömuleiðis hækkar ákefð og hraði eykst í spili sem styttir tíma til að athafna og ákveða sig. Sé stökkið upp um flokk mátulegt (getustig), þá felst í þessu mikil aðlögun að breyttu umhverfi. Það er viðbúið að það taki nokkurn tíma að aðlagast hraðara spili, meiri ákefð, bæði líkamlega og hugarfarslega, og iðkandinn þarf að vera undir þetta búinn. Félagslega er líka lykilatriði að vel sé tekið á móti þeim sem eru að spila upp fyrir sig því það er alveg viðbúið að þessu geti fylgt núningur ef ekki er vel að gætt.
Leikmenn sem sýna afburðagetu þurfa áskoranir við hæfi, um það verður ekki deilt. Að spila upp fyrir sig er viðfangsefni sem hefur fengið frekar litla athygli rannsakenda en þær sem birtar hafa verið eru sammála um megináherslurnar. Það ber að skoða langtímamarkmið og heildræn áhrif þess að spila með eldri. Í nýlegri erlendri rannsókn sem byggðist á viðtölum lögðu iðkendur mesta áherslu á að fá tækifæri til að taka framförum (áskorun) og viðurkenningu fyrir færni sína. Erfiðast fyrir þá var að aðlagast ákefðinni og að falla inn í hópinn félagslega. Í því samhengi spila þjálfararnir sjálfir og iðkendur lykilhlutverk í aðlögunarferlinu (Goldman et al, 2022).
Í öllu falli gildir að það beri að horfa á þau heildaráhrif sem það að spila upp fyrir sig kann að hafa á líkamlega, andlega og félagslega heilsu til lengri tíma. Það er algjör grundvallar útgangspunktur að ákvarðanir teknar í þjálfun barna séu með hag barnsins fyrir brjósti til framtíðar. Það getur nefnilega vel farið svo að þær forsendur gangi gegn markmiðum flokksins fyrir ofan að sigra næsta mót og hafa til þess alla bestu leikmennina tiltæka (skammtíma árangur). Enn fremur ættu langtímamarkmiðin að auðvelda okkur að til dæmis, hafna þeirri tillögu að spila meidd-/ur til að sækja Íslandsmeistaratitil yngri flokka það árið.

Það eru nokkrar reglur úr þjálffræðinni sem við getum stuðst við. Fyrst nefni ég regluna um stigvaxandi þjálfun. Hún gerir ráð fyrir því að þjálfun dagsins í dag byggi á því sem gert var í gær. Rétt eins og við þurfum að byrja rólega í ræktinni þá þurfa unglingar á því að halda að það sé tekið tillit til álags vegna vaxtar og þroska. Því þarf að skoða heildarálagið og hverju það kemur til með að breyta að byrja að æfa og eða keppa með eldri aldursflokki að staðaldri. Oftast æfa eldri flokkar oftar og lengur við hærri ákefð en þau sem yngri eru sem eru þættir sem þarf að taka inn í myndina. Ágætt getur verið að reikna upp álagið með fjölda æfinga og mínútum til að fá yfirsýn því það er ótækt að bæta við heilu setti (öðrum flokki) af æfingum og keppni með eldri hópi á einni nóttu. Slíkt er t.d. hægt að gera með session RPE kvarðanum sem margfaldar mínútur á æfingu með upplifaðri ákefð (1-10). Það gefur auga leið að lengri æfing á hærri ákefð með eldri er að fara að skora umtalsvert hærra í líkamlegu álagi en æfing með jafnöldrum.
Þarna þarf að gæta að því að leyfa líkamanum og einstaklingnum að aðlagast auknu álagi með því að brjóta niður álagsaukninguna í stigvaxandi skref. Að lokum gæti niðurstaðan verið að fækka æfingum með eigin flokki til að geta tekið nokkrar með eldri. Í þessu má fara breytilegar og ólíkar leiðir. Það sem þarf að spá í hér er að þrepaskipta álagsaukningunni og muna að keppni fylgir jafnan mesta álagið (líkamlegt+andlegt). Þegar heildarmyndin er svo skoðuð myndi ég mæla með því að tryggja að það sé a.m.k. einn hvíldardagur frá æfingm og keppni í viku, og gæta þess að styrkþjálfun sé sinnt en ekki sleppt þegar æfingaálagið er mikið.
Hér koma auðvitað fljótt margir aðrir einstaklingsbundnir þættir inn í sem þarf að taka mið af. Er viðkomandi að ganga í gegnum mikinn vaxtarkipp einmitt á þessum mánuðum eða á það tímabil eftir að koma? Er viðkomandi vanur að æfa mikið eða tiltölulega nýbyrjuð/-aður. Er viðkomandi að æfa aðrar greinar á sama tíma og stendur til að gera það áfram? Hvað leyfa aðstæður og stuðningurinn að heiman (komast á æfingar og mót, og aukinn kostnaður)?
Þjálfun í grunninn snýst um að veita rétt áreiti á réttum tíma. Það mætti líka orða það þannig að við ættum aðeins að þjálfa/æfa eins lítið og við komumst upp með til að ná settum markmiðum (lágmarks skammtur). Því rétt eins og þegar læknirinn ávísar tveimur verkjatöflum á dag, þá myndum við ekki taka fjórar pillut til öryggis er það? Ég finn það á mínum hugsunarhætti að þessi nálgun snýr algjörlega niður þá hugsun að meira er betra og keppikeflið sé að safna klukkustundum í kroppinn.
Þetta tengist þeirri ætlan okkar að þjálfa upp íþróttafólk með langtímamarkmið í huga. Því tengt hafa nokkur módel verið sett fram með það að markmiði að varpa ljósi á þær forsendur sem ættu að ríkja á hverjum tíma. Þessi módel eru ekki óumdeild en geta gefið ágætis leiðbeiningar og stefnu byggða á almennum og þekktum staðreyndum í þjálfun. Tvö módel hafa verið einna fyrirferðamest í þessari umræðu undanfarna áratugi. Þar eru Þátttökuþróunarmódelið (Côté, 1999) og svo Módelið um þjálfun íþróttafólks til langs tíma (LTAD) (Balyi et al, 2004). Módelin sýna vel hvernig forsendur þjálfunar breytast eftir því sem einstaklingurinn þroskast og eru því gagnleg til að styðjast við og minna sig á vegferðina sem framundan er hjá ungu íþróttafólki.
Með hækkandi aldri og auknum þroska aukast kröfurnar og forsendur þjálfunar breytast. Við förum frá þátttökumiðaðri-þjálfun yfir í keppnis- og árangursmiðaða þjálfun fyrir þau sem stefna þangað. Við eigum mikið ógert í þróun þátttökumiðaðrar þjálfunar fyrir ungt fólk (16+ ára) og fullorðna þó svo það séu til vel heppnuð verkefni víða sem mætti hampa og læra af. Almennt ættu áherslur fjölbreytni að ríkja í þjálfun barna framan af til að viðhalda áhuga og stuðla að viðeigandi hreyfiþróun og styrk barnanna. Eftir því sem unglingsárin færast yfir víkja fjölbreytni-áherslur fyrir meiri sérhæfingu. Sérhæfing getur falist í ýmsum myndum en skýrustu merkin er aukið æfingaálag, árangursmiðaðar æfingar og aukin ákefð auk meiri áherslu á þátttöku í keppni og undirbúning. Aukin sérhæfing stuðlar að árangri í viðkomandi íþróttagrein og því sérlega freistandi að taka inn þessar áherslur í þjálfun. Fyrir meiri umfjöllun um þær get ég t.d. bent á grein sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum um snemmbæra sérhæfingu.
Eitt þeirra einkenna þjálfunar sem bera merki aukinnar sérhæfingar er þegar farið er að tímabilaskipta þjálfuninni á hverju ári í undirbúnings-, keppni- og hvíldartímabil. Slíkt er gert til að hámarka árangur og tryggja viðeigandi hvíld. Þessar áherslur ættu að koma inn með meiri þunga samhliða því að líkaminn vaxi og þroskist. Hugarfarslega fer frammistaða í keppni að skipta meira og meira máli og skipulag þjálfunarinnar tekur mið af því með álagsstýringu og hvíld fyrir og eftir keppni til að mynda. Dæmi um slíkt eru sérstakar taktískar æfingar og leikgreiningar á andstæðingi fyrir keppni. Þetta er ólíkt þjálfun yngstu flokkanna þar sem árangur í keppni er ekki aðalatriðið og því tekur skipulagið ekki sérstakt mið af því.
Þessi slóð er vandrötuð og í raun auðvelt að setja fram tillögur og vangaveltur hér því allt verður erfiðara og meiri vinna þegar við erum lent í aðstæðunum sjálf. Ég fann það til dæmis sjálfur að ég átti mjög erfitt með að gera upp á milli leikmanna sem voru þá um 11-12 ára hver fengi að spila með eldri. Mér er mjög annt um dýnamíkina í hópum hjá mér og því togaðist þetta alltaf á í mér út frá hvaða forsendum ég ætti að leyfa/biðja (stundum vantar) að spila upp fyrir í aldri. Það getur nefnilega verið spennandi fyrir áhugasama iðkendur því reglur leiksins breytast og áhöld (boltar, körfuhæð, harpix og mörk t.d.) eftir því sem þau fara í eldri flokk.
Leiðin sem ég fór að lokum oftar en ekki var sú að finna mót þar sem ég gat tekið heilt lið upp og spilað því saman. Þar með er ég ekki að segja að það sé eina leiðin, alls ekki. Það bara hentaði, – að mínu mati, þarna. Sérstaklega því mér hefur alltaf þótt erfitt að gera upp á milli leikmanna. Það komu líka upp tilvik þar sem stöku leikmanni var boðið að spila upp fyrir til að fylla upp í lið hjá eldri. Þar þarf að fara saman áhugi á þátttöku og að barnið sé tiltækt í það skiptið.
Að lokum er rétt að minna á mikilvægi samskipta og samráðs við barnið sjálft og ákvörðunarrétt þess. Það verður að gefa barninu raunverulegt val um það að spila upp fyrir sig eða ekki og svo að vera tilbúin að endurskoða þá ákvörðun áður en langt um líður því hlutirnir breytast svo hratt á uppvaxtarárunum.
Ég vona að það skiljist með þessum greinum mínum að þrátt fyrir að það sé ýmislegt vitað um þessi mál þá eru rosalega margir þættir sem þarf að taka tillit til í hverju tilviki fyrir sig. Þjálfarar taka ábyrgðina á þessu ferli sem er í senn krefjandi á svo marga vegu og um leið spennandi.
Hvernig við horfum á íþróttir og færni getur algjörlega breytt því hvert við teljum vandamálið vera, og enn fremur hver úrræðin geta verið. Útgangspunkturinn hér hafa verið hugmyndir hreyfivistkerfa. Meðal lykilhugmynda þar er hvernig hreyfinga okkar takmarkast af einstaklingnum, verkefninu og umhverfinu (Newell, 1986). Einstaklingurinn vex og þjálfast og geta barnanna/unglinganna breytist samhliða því. Með því að spila upp fyrir sig breytum við í raun umhverfinu (andstæðingunum) sem einstaklingurinn hreyfir sig innan með fyrrgreindum áskorunum. Það sem rætt var í hluta 2. í þessari seríu var hvernig við getum líka notað verkefnistakmarkanir (reglur og áhöld t.d.) til að hafa áhrif á þá áskorun sem barnið upplifir. Það eru aðgengilegustu takmarkanirnar sem við ættum að breyta hvað mest og oftast sem þjálfarar.
Ég ætla að lokum að fá að taka saman helstu punktana úr þessum þremur greinum.
- Það er ekki víst að það þurfi að fara strax í að spila iðkendum upp fyrir sig til að veita áskorun við hæfi. Það eru ýmsar leiðir til að mæta ólíku getustigi. Hefur þú sem þjálfari hugsað hvað þú gætir gert með breytingum á verkefninu sem þú leggur fyrir?
- Að breyta verkefnisþáttum þjálfunar (stærð vallar, áhalda, markmiðum og REGLUM leiks) getur verið lykill að því að jafna leikinn. Ekki festast í því að “drillan” geti bara verið á einn veg. Við sem þjálfarar getum gert tilraunir og það ættu leikmenn líka að gera.
- Ef það á að spila barni upp fyrir sig skal gæta þess að það sé ríkur áhugi fyrir því hjá barninu, og skilningur og virðing í hópnum sem tekur við þeim einstaklingi. Nýtt umhverfi þar sem búið er að núlla út helstu styrkleika barnsins getur verið krefjandi (sem er markmiðið) og þarf af leiðandi lærdómsríkt og kallað á aðlögun og áframhaldandi þjálfun á færni.
Heimildir til stuðnings
Balyi , I. and Hamilton , A. (2004 ). Long-Term Athlete Development: Trainability in children and adolescents. Windows of opportunity. Optimal trainability , Victoria, BC : National Coaching Institute British Columbia & Advanced Training and Performance Ltd .
Bompa, T. O., & Buzzichelli, C. A. (2019). Periodization: Theory and Methodology of Training.
Côté, J. (1999). The Influence of the Family in the Development of Talent in Sport. The Sport Psychologist, 13(4), 395–417. https://doi.org/10.1123/tsp.13.4.395
Foster, C., Florhaug, J., Franklin, J., Gottschall, L., Hrovatin, L., Parker, S., Doleshal, P., & Dodge, C. (2001). A New Approach to Monitoring Exercise Training. Journal of Strength and Conditioning Research / National Strength & Conditioning Association, 15, 109–115. https://doi.org/10.1519/00124278-200102000-00019
Goldman, D. E., Turnnidge, J., Kelly, A. L., deVos, J., & Côté, J. (2022). Athlete perceptions of playing up in youth soccer. Journal of Applied Sport Psychology, 34(4), 862–885. https://doi.org/10.1080/10413200.2021.1875518
Kelly, A. L., Goldman, D. E., Côté, J., & Turnnidge, J. (2023). Playing-Up and Playing-Down: Conceptualising a ‘Flexible Chronological Approach.’ In Talent Identification and Development in Youth Soccer. Routledge.
Newell, K. M. (1986). Constraints on the development of coordination. In MG. Wade & HTA. Whiting (Eds.), Motor development in children: aspects of coordination and control (pp. 341-360). Martinus Nijhoff, Dordrecht.
SÞ




Leave a comment