Íslenskt íþróttalíf hefur hlotið verðskuldaða heimsathygli á undanförnum misserum fyrir árangur í keppni fullorðinna í afreksíþróttum. Athyglin hefur beinst að því starfi sem unnið er í íþróttafélögunum, því hér hefur tekist að mynda nokkur frábær lið í hópíþróttum á fámennu landi. Það er ljóst að leiðin á stórmót hefur verið mörkuð og fyrirmyndirnar eru fyrir allra augum. Að vera íþróttafræðingur á þessari gullöld íslenskra íþrótta eru einstök forréttindi.
Breytingar sem orðið hafa á íþróttaþátttöku barna á undanförnum áratugum eru miklar. Minna er um frjálsan leik barna, því í stað þess er komið skipulagt íþróttastarf í umsjón fullorðinna. Þróunin hefur einnig verið í þá átt að deildir íþróttafélaganna bjóða upp á æfingar fyrir sífellt yngri iðkendur og í fleiri mánuði á hverju ári, og margar íþróttir í dag því orðnar heilsárs.
Sérhæfing í íþróttum er hugtak sem notað er í tengslum við þjálfun um þær æfingar sem líkjast keppnisformi viðkomandi íþróttagreinar mjög eða alveg. Þá er viðkomandi íþrótt æfð í 8 mánuði eða lengur á ári og engar aðrar íþróttir stundaðar samhliða. Sérhæfðar æfingar eru algjör forsenda mikils árangurs í íþróttum á fullorðinsárum. Því mætti halda að besta leiðin að sigrum og árangri á fullorðinsárum sé einmitt að hefja mikla sérhæfingu strax frá unga aldri. Staðreyndin er þó önnur.
Í þessum pistli er spjótunum beint að áhrifum þess að beita aðferðum sérhæfingar í íþróttum of snemma í þjálfun barna. Snemmbærri sérhæfingu er hægt að lýsa á eftirfarandi hátt.
- Mikið magn æfinga miðað við aldur
- Þjálfun miðast við eina íþrótt sem er stunduð í 8 eða fleiri mánuði á ári
- Einhæf þjálfun, sem miðar að bættum árangri í afmarkaðri færni (þjálfun líkist þeirri sem fullorðnir stunda) á kostnað fjölbreyttrar grunnþjálfunar
- Mikil áhersla á keppni og að sigra
Afleiðingar snemmbærar sérhæfingar eru vel þekktar og lítt umdeildar. Flestum fræðimönnum ber saman um að þær hafi eftirfarandi áhrif.
- Skjótar frammistöðubætingar
- Besta árangri náð um 15 -16 ára
- Óstöðugleiki í frammistöðu í keppni
- Hátt hlutfall kulnunar og brottfalls
- Aukin áhætta á álagsmeiðslum vegna ófullnægjandi líkamlegs undirbúnings
(Bompa og Haff, 2008)
Aftur á móti eru eftirfarandi einkenni þeirra íþróttamanna sem fá fjölbreyttan bakgrunn og sérhæfingu á réttum tíma.
- Hægari frammistöðubætingar
- Besta árangri náð eftir 18 ára þegar líkamlegum þroska er náð
- Stöðugri og betri frammistaða í keppni
- Lengri ferill í íþróttum
- Færri meiðsli er niðurstaða betri þjálfunar og undirbúnings
(Bompa og Haff, 2008)
Við þjálfun barna og unglinga skal hafa langtímamarkmið að leiðarljósi. Með framtíð einstaklingsins, eftir 10 eða 20 ár í huga, verða ákvarðanir um hvernig haga skal þjálfun á barnsaldri einfaldar. Íþróttahreyfingin er gríðarstór og nær til fjögurra af hverjum fimm einstaklingum í 5. bekk sem stunda æfingar með íþróttafélagi einu sinni eða oftar í viku (samkvæmt skýrslu R&G Ungt fólk frá 2015). Með þessari miklu þátttöku fylgir mikil ábyrgð.
Nokkur módel hafa verið sett fram til útskýringar á áhersluþáttum hvers tímabils. Þar má nefna Long term athlete development módelið frá Kanada, og The Youth Physical Development Model. Þessi módel gefa ágæta hugmynd um áhersluþætti hvers tímabils en það hefur þótt skorta gallharðar langtímarannsóknir til stuðnings.
Öll þjálfun er sérhæfð, að því leiti, að við verðum aðeins betri í því sem við æfum okkur í. Í þjálfun barna er mikilvægt að áherslan beinist að fjölbreyttum grunnhreyfingum líkt og hlaupum, köstum, spörkum, stökkum og svo framvegis. Þetta eru hreyfingar sem margar íþróttir eiga sameiginlegar og því nýtist þjálfunin sem undirstaða síðar meir.
Dæmi um mikla sérhæfingu væri snúningsskot í handbolta. Að nota mikinn tíma í snúningsskot á æfingum barna er dæmi um tíma illa varið. Af hverju? Vegna þess að slík færni væri aðeins líkleg til að nýtast a) örfáum einstaklingum b) í handbolta c) í tiltölulega fáum tilfellum í keppni. Með öðrum orðum, þessi færni nýtist einstaklingnum lítið sem ekkert í öðrum íþróttum eða annarri hreyfingu kjósi hann á unglingsárunum að stunda aðra íþrótt eða hreyfingu en handbolta.
Texti einkennislags knattspyrnuliðsins West Ham hljómar svo
I’m forever blowing bubbles,
Pretty bubbles in the air,
They fly so high,
Nearly reach the sky,
Then like my dreams,
They fade and die.
og hér kemur tengingin. Að ná árangri í íþróttum sem barn og unglingur, er engin ávísun á framtíðarárangur,- sérstaklega ekki ef árangurinn er tilkominn vegna snemmbærar sérhæfingar. Það er ágætt að hafa í huga að á kynþroskaaldrinum verða miklar líkamlegar breytingar sem nema tugum og hundruðum prósenta í frammistöðu á aðeins örfáum árum (Pearson, 2006). Þessar breytingar geta gjörbreytt þeim möguleikum sem einstaklingurinn stendur frammi fyrir í íþróttum að loknum kynþroska. Vegurinn frá sigri á Pollamótinu í atvinnumennskuna er því langur, strangur og óútreiknanlegur.
Þjálfun snýst um að veita rétt áreiti á réttum tíma. Í flestum íþróttum ætti sérhæfing að hefjast seint á kynþroskaskeiðinu og um það eru flestir sammála. Í fyrsta lagi við 13 ára aldur og af fullum þunga um 16 ára sé ætlunin að ná hámarksárangri (sem unglingar ættu að fá að velja um að gera, eða taka þátt af áhugamennsku) (Brenner, 2016, Feeley o.fl., 2016, Lloyd og Oliver, 2012 og Jayanthi o.fl., 2013). Snemmbær sérhæfing í íþróttum barna er því sem fögur sápukúla sem blásin er upp og fer fljótt á flug, fangar augað og er spennandi. En sápukúlur líkt og draumar um afrek og árangur í íþróttum geta á augabragði orðið að engu.
Áður en sérhæfð þjálfun er aukin verulega er mikilvægast að börn og unglingar fái góðan grunn sem mun gagnast þeim sem fullorðið íþróttafólk. Ennfremur að vera góðir samfélagsþegnar sem hafa tileinkað sér heilsusamlegan lífsstíl og eru til í að senda börnin sín í íþróttir fyrir öll þau góðu áhrif sem þær veita. Því hvert var annars markmiðið?
Við erum svo heppin að hér á landi eigum við heilmikið af góðum, reyndum og menntuðum þjálfurum sem eru flinkir í að finna og búa iðkendum sínum til verkefni við hæfi. Afreksíþróttafólk verður til, þrátt fyrir að við hlúum að grunninum hjá 6-12 ára (Cote, 2009) börnum sem sækja hjá okkur æfingar. Framtíðarárangur byggir á flóknu sambandi líkamlegra, andlegra og félagslegra þátta (Baker, 2003). Okkur ber að stuðla að því að börnin fái að prófa ólíkar íþróttir og fái að velja síðar meir eftir eigin áhuga og getu, þegar þau hafa þroskan til.
Hlutverk okkar sem þjálfara og foreldra er nefnilega ekki að blása sápukúlur, – þó það sé gaman. Því við vitum að þegar þær springa sjáum við þær ekki aftur.
Höfundur er Sveinn Þorgeirsson, aðjúnkt við íþróttafræðisvið Háskólans í Reykjavík
Tengt efni
12 FUNdamentals in Building_Healthy_Strong_and_Resilient_Young_Athletes
Andstæðingur afreka í íþróttum barna / The enemy of excellence in youth sports
Heimildir
Frábær grein hjá þér Svenni.
Kveðja,
Árni Ragg
LikeLiked by 1 person
Takk fyrir það Árni 🙂
LikeLike
Ég hef gengið með sambærilega grein í maganum um langt skeið, en ég hefði ekki getað ritað hana jafn vel og þú. Algjörlega spot on.
LikeLiked by 1 person
Takk fyrir það Snorri, mig grunar einmitt að við séum ekki einir í þessum pælingum
LikeLiked by 1 person
Ég held einmitt að við séum hljóðlátur meirihluti sem virðir rétt barna til að vera börn.
LikeLike
Frábærlega skrifað hjá þér Sveinn.
LikeLiked by 1 person
Takk kærlega Ragna 🙂
LikeLike
Frábært stöff Svenni. Takk kærlega fyrir að setja saman þennan texta – ég mun án nokkurs vafa vísa foreldrum og jafnvel iðkendum á þennan pistil til upplýsingar þegar þörf er á.
Langar að tengja við þetta minn uppáhalds frasa í umræðunni um alla Gylfa-na, Messi-ana og hin gena-“fríkin” og hvernig þeir urðu að því sem þeir urðu:
“Þú þjálfar fyrir almennu regluna, ekki undantekninguna”. (Minnir að Dan John hafi sagt þetta).
LikeLiked by 1 person
Takk kærlega fyrir Kristján! og mjög góð tilvitnun sem þú nefnir sem ég fæ að nota í framhaldinu 🙂
LikeLike