Það sem hér verður lagt til kann að hljóma of einfalt til að geta talist til lausnar við þeim vanda sem ójöfn geta innan hóps getur reynst. Getur það verið að hluti lausnarinnar felist í því hvernig við sjáum vandann fyrir okkur og krefjist þess að við tökum upp nýtt sjónarhorn? Ég hef áður fjallað um hreyfivistkerfi og hvernig sú hugsun er ólík þeirri sem við höfum alist upp með og er allt í kringum okkur (t.d. hvað varðar tækniþjálfun). Aðferðin sem hér verður kynnt er kölluð takmarkana-stýrð nálgun (TSN) eða contraint led approach á ensku. Hún byggir á því að hreyfingar okkar og hegðun sé best útskýrð út frá sambandi einstaklingsins sjálfs við umhverfið, og þar á meðal við reglur leiksins og andstæðingana hverju sinni. Þetta er ólíkt þeirri hugsun að við vinnum aðeins eftir boðum frá heilanum eftir að upplýsingar hafi verið skynjaðar og skipun gefin.

Takmarkanir, samkvæmt Newell (1986), má skipa í þrjá flokka. Hreyfingar einstaklingsins sjálfs það er líkamlegum og hugarfarslegum þáttum, félagslegum þáttum sem eru í umhverfinu (áhugi og þekking t.d.) og aðstöðunni auk verkefnisins sjálfs (reglum og markmiðum leiks). Í þessum þáttum kjarnast starf þjálfarans því hann getur haft áhrif á alla þessa þætti þó með ólíkum aðferðum og á misjafnlega löngum tíma. Þrátt fyrir að umhverfið sé mikilvægt (efni í aðra grein) eru ástæður ójafnrar getu oft að finna í ólíkum einstaklings-takmörkunum (t.d. líkamshæð, leikskilningi, sprengikrafti og þoli) sem geta breyst hratt á unglingsárunum. Hér verður athyglinni þó beint að verkefnistakmörkunum (reglum og markmiðum leiks) þar sem við getum og ættum að vinna náið með á hverri æfingu.

Hvernig vinnum við með þessar takmarkanir og af hverju er það gagnlegt? Takmarkanir eru einskonar mörk sem móta þær hreyfingar (hreyfilausnir) sem birtast við hverjar aðstæður hverju sinni. Þannig getum við haft mikil áhrif snögglega á að sem fram fer inni á vellinum með því að breyta markmiðum leiks, reglunum, stærð vallarins eða boltans sem spilað er með. Í því felst bæði vinnan og galdurinn, – það er að hugsa um góða breytingu sem getur haft tilætluð áhrif. Ef við ætlum að taka á ójafnri getu í leik þá er viðmiðið oftast keppnisútgáfa þeirrar íþróttar sem við spilum. Það er þó ekkert sem segir að við þurfum alltaf að spila eftir þeim reglum á æfingum, þvert á móti. Við ættum að skora á iðkendur með því að sprengja af okkur takmarkanir sem gilda í keppni og prófa okkur áfram með aðrar sem reyna á aðlögunarhæfnina. Það er nefnilega ekki víst að það séu sömu einstaklingarnir sem skína undir öllum aðstæðum. Ímyndið ykkur bara ef það mætti bara skora með hægri fæti í fótbolta, – væri Messi jafn afgerandi? Hvernig leikmenn nutu góðs af því að setja inn 3ja stiga regluna í körfu? Hér þarf þjálfarinn að vera skapandi í hönnun takmarkana og greinandi á hreyfilausnirnar á sama tíma og þær eiga sér stað, óhrædd/-ur við að prófa sig áfram og breyta (alveg eins og iðkendurnir sjálfir).

Af hverju er þetta svona mikilvægt? Hugmyndir hreyfivistkerfa undirstrika hvernig við getum átt von á ólíkri útkomu í hvert skipti (Bernstein og frelsisgráðurnar t.d.) og gjarnan leitum við oft í svipaðar lausnir við svipaðar aðstæður. Til að stuðla að lausnaleit, sköpun og aðlögunarhæfni má leika sér með takmarkanirnar en gæta þess þó að hafa þær ekki of einangrandi. Þannig má hugsa þær sem girðingar sem við notumst við til að hafa áhrif á hreyfingarnar. Ef við pössum upp á að halda þeim hæfilega opnum þá skiljum við eftir rými fyrir einstaklinginn til að skapa og koma með eigin lausnir.

Gott dæmi til að hafa í huga eru reglubreytingar í kappleikjum sem hafa haft afgerandi áhrif á það hvernig leikurinn er spilaður. Fótboltinn er íhaldssamur varðandi reglubreytingar en leikurinn í dag er þó um margt ólíkur þeim sem var spilaður fyrir 10-15 árum. Þar gætum við talað um að þar hafi átt sér stað framþróun innan reglna (fyrir utan VAR og fimm skiptingar) leiksins með bættu þreki, greiningum og taktík þó svo reglurnar séu svo til óbreyttar. Þróunin á sér stað með tilraunum, sköpun og aðlögunarhæfni. Í handbolta hefur þessu verið öfugt farið að nokkru leiti. Þar hafa reglubreytingar undanfarin ár (fyrst hröð miðja, svo skipta markmanni og meiri refsingar fyrir hættuleg brot og höfuðhögg) sett nýjar takmarkanir en um leið opnað nýjar víddir sem þjálfarar og leikmenn hafa nýtt sér. Reglurnar hafa haft það að markmiði að auka hraða og vernda leikmenn hafa breytt spili leiksins, – og í heildina litið náð að þróa leikinn í rétta átt að mínu mati. Þróun leiksins á meistaraflokkstigi hefur svo áhrif á það hvernig leikmenn við viljum þróa í yngri flokkum og þjálfunaráherslur breytast.

Flestir þjálfarar þekkja vel áhrifin af því að setja “bannað að drippla” eða “einnar-snertingar” reglu. En höfum við gaumgæft áhrifin nógu vel? Hvaða lausnir birtast og hverjar hverfa? Takmarkana-stýrða nálgunin bendir okkur einmitt í að hugsa í þessa átt, – og prófa okkur áfram með takmarkanirnar og virkilega stúdera áhrifin. Því þó þetta séu aðeins “litlar” breytingar á verkefninu í heild fáum við fram allt annarsskonar leik, þar sem ákveðin hegðun styrkist (t.d. hreyfing án bolta) á meðan önnur gæti dottuð út, t.d. lengri hlaup án bolta. Hér gildir að litlar verkefnis-breytingar geta haft mikil áhrif (ólínulegt samhengi) á leikinn sem við sjáum inni á vellinum. Hvernig passa þessi áhrif við þau markmið sem við höfðum? Í þessu ljósi getum við séð og unnið með aðlögunarhæfni iðkenda sem einstaklinga og hluta af heild.

Leikir í litlum liðum (small sided games) er vel þekkt aðferð sem skilar mörgum jákvæðum þjálffræðilegum áherslum samtímis. Þar fær hver og einn einstaklingur mikið að gera og hlutverk iðkandans stækkar við það að vera í 3ja manna liði í stað 7 eða 11. Það eru til ótal útfærslur og ég er líka handviss um að þið þjálfarar hafið þegar prófað margar. Ákveðnar takmarkanir geta ýtt á nýjar skapandi hreyfilausnir á meðan “allt frjálst” formið gæti leitt til einsleitari lausna, rétt eins og áin sem rennur alltaf þangað sem mótstaðan er minnst. Þetta er kallað “constrain to afford” eða “takmarkað til að frelsa“. Trikkið að mínu mati hér felst í því að hætta að hugsa æfingarnar í “drillum” sem leikmennirnir þurfa að leysa með “réttum” hætti heldur sem verkefni þar sem margar ólíkar hreyfingar koma fram undir sífellt og hratt breytilegum aðstæðum. Það eru margar leiðir að því að leysa verkefnið, og hver og einn iðkandi þarf að finna sína leið, út frá eigin takmörkunum. Þjálfari sem hefur lagt inn vinnuna við að ákveða hvert markmiðið er með æfingunni horfir því meira á hreyfingarnar og lausnirnar (setur sig í spor) heldur en á skeiðklukkuna.

Að lokum get ég nefnt lítið dæmi af sjálfum mér um það hvernig verkur í skotöxl ungs handboltamanns getur algjörlega breytt því hvernig maður sér leikinn. Í einni svipan er möguleikinn (hreyfiboðið) að skjóta að utan ekki mögulegur vegna verks. Í staðinn opnast augun fyrir því spili sem er í boði og maður tekur jafnvel eftir samherjanum sem stendur og bíður við 6 metra línuna algjörlega frír til að fá boltann. Þegar þú telur þinn helsta séns vera að skjóta fyrir utan er alls óvíst að það sé búið að “samtengja” (attune) þá möguleika (hreyfiboð) sem felast í línusendingum eða hornaspili. Þegar opnað hefur verið á þessa skynjun þarf svo að leysa þann vanda að koma sjálfum boltanum á samherjann þar sem engar tvær stoðsendingar eru eins.

Ég skal viðurkenna að þessi nálgun hefur endurnært aðdáun mína á hreyfingum og því hvernig við leysum ólík verkefni á ólíkan hátt. Ég hefði gaman af því að heyra hvað þessar hugmyndir gera fyrir þig?

Næst tökum við fyrir ávinning og áskoranirnar við að láta “undrabarnið” spila upp fyrir sig.

heimildir til stuðnings

Button, C., Seifert, L., Chow, J. Y., Araujo, D., & Davids, K. (2021). Dynamics of skill acquisition: An ecological dynamics approach (Second edition). Human Kinetics, Inc.

Clemente, F., & Sarmento, H. (2020). The effects of small-sided soccer games on technical actions and skills: A systematic review. Human Movement, 21(3), 100–119. https://doi.org/10.5114/hm.2020.9301

3 responses to “Þarf undrabarnið að æfa upp fyrir sig? 2. hluti – Felst lausnin í takmörkunum?”

  1. Unnur Hreinsdóttir Avatar
    Unnur Hreinsdóttir

    Takk fyrir Sveinn !

    Mjög góðir og áhugaverðir pistlar fyrir mig sem áhugamanneskju og kennara barna í svona stöðu (sem mörg hættu vegna þessa) og móður sem átti barn sem tók út þroska seint sem var erfiður tími. Varð síðan höfðinu hærri en liðsfélagar sem hættu einn af öðrum þegar líkamsburðir nægðu ekki til yfirburðar. Hlakka til að lesa pistilinn um hvort börn sem eru með hæfileika eigi að æfa og spila upp fyrir sig.

    Kveðja,

    UH

    Like

    1. Sveinn Þorgeirsson Avatar

      takk sömuleiðis fyrir áhugann, 3. hluti er í vinnslu og kemur vonandi innan tíðar 🙂

      Like

  2. Þarf “undrabarnið” að æfa upp fyrir sig? hluti 3. Að spila með eldri – Sveinn Þorgeirsson Avatar

    […] ert ekki þegar búinn að lesa fyrri tvær greinar mínar í þessari seríu um vandann og þær lausnir sem gætu falist í því að breyta verkefninu þá hvet ég þig til að kíkja á þær […]

    Like

Leave a reply to Þarf “undrabarnið” að æfa upp fyrir sig? hluti 3. Að spila með eldri – Sveinn Þorgeirsson Cancel reply

Velkomin!

Ég heiti Sveinn Þorgeirsson og er íþróttaunnandi, eiginmaður og þrefaldur faðir og Fjölnismaður búsettur í Mosfellsbæ.

Meira frá mér á öðrum miðlum…