Ein af stóru áskorunum þjálfara yngri flokka er “undrabarnið” sem skorar að vild. Leikmaðurinn sem hleypur framhjá, stekkur yfir og tekur boltann auðveldlega af jafnöldrum sínum vekur augljóslega athygli. Margvíslegar áskoranir fylgja því að þjálfa börn í hópíþróttum og ójöfn geta getur verið mjög krefjandi. Getuskipting hóps er ein leið sem getur mætt einmitt þessari áskorun upp að vissu marki. Hún gerir okkur betur kleift að bjóða upp á verkefni við hæfi, – verkefni sem innihalda mátulega mikla áskorun fyrir barnið svo það viðhaldi áhuga. Þetta er þó ekki algild lausn því í hverjum hópi þarf líka að taka tillit til huglægra og félagslegra þátta, en ekki aðeins líkamlegrar getu á þessu skeiði. Þetta gæti reynst erfitt því við eigum það til að dást og lofa svona yfirburði, jafnvel þó það sé óhjálplegt. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að börnum þar sem helsta forsenda þátttöku ætti að vera leikgleðin.
Þjálfarar lenda reglulega í því að vinna með leikmenn sem skara fram úr í hóp,- svo mjög að leikmönnunum finnst áskorunin sem samherjarnir bjóða upp á á æfingum ekki næg og leiðist. Ástæðurnar fyrir yfirburðunum geta verið margvíslegar á borð við fámenna æfingahópa, afburða leikskilning einstaklingsins, nú eða það að viðkomandi er líkamlega bráðþroska og hefur tekið út vöðvastyrk og hæð á undan jafnöldrum sínum. Í keppni jafnaldra getur verið erfitt að eiga við þessar aðstæður enda hafa andstæðingarnir ekki roð í að stöðva þær hreyfingar og þann kraft sem viðkomandi hefur yfir að búa. Hér getur hæglega munað nokkrum árum í líffræðilegum þroska (þó lífaldur sé sá sami) á þeim sem eru sein til og hinum sem þroskast hratt. Í flokkum hópíþrótta er innbyrðis aldursmunur oft 12-24 mánuðir, og það getur því munað um hvern mánuð. Þess má geta að samkvæmt vaxtarkúrfu íslenskra barna getur getur munurinn verið hátt í 37 kg og 29 sm milli 12 ára stúlkna sem eru í efstu 2% og neðstu 2% í hæðar og þyngdarkúrfunni.
Í boltaleikjum getur þetta forskot t.d. birst í óverjandi þrumuskotum (hlutfallslega lítill bolti), óstöðvandi einleik (erfitt að komast að boltanum vegna styrks og hraða) og ókleifri vörn (af líkamlegum burðum). Mikið ójafnvægi í getu vegur að einni helstu forsendum leiks, það er óvissunni um útkomuna. Án hennar hafa fá áhuga á að taka þátt. Þessar aðstæður geta sprottið tiltölulega hratt upp þroska barna og varað allt fram yfir unglingsár. Þetta líkamlega forskot er þó aðeins tímabundið en hefur mjög afgerandi áhrif á það hvernig leikurinn er spilaður. Það er stundum sagt um þessa leikmenn sem hafa þetta forskot að þeir séu “ekki að læra leikinn” því hvernig þeir spila byggir aðeins á þessu tímabundna forskoti sem þeir hafa. Hvað er til ráða? Hvernig er hægt að færa leikinn aftur til jafnvægis á æfingum og í keppni?
Sjálfur hef ég lent í þessum áskorunum sem þjálfari. Í baksýnisspeglinum verður það enn augljósara hvernig þetta forskot leikmanna kom og fór oft jafn hratt, en á þeim tíma var ég óviss um hvernig málin myndu þróast til fullorðinsára. Meðal aðferða sem ég beitti þá var að gefa þessum einstaklingum áskoranir, oftast sem þeir aðeins þeir vissu af. Það er ein þeirra leiða sem hægt er að beita og byggir notkun takmarkana (e. constraints) í formi reglubreytinga þó þeim sé bara beint að einum leikmanni. Það sem ég áttaði mig ekki á þá var hvernig ég gæti breytt reglum leiksins fyrir alla leikmenn til að jafna leikinn, – enda er það erfiðara. Komum aftur að því síðar.
Ef við eigum að greina vandann þykir mér gagnlegt að hafa taka upp hreyfivistkerfislega nálgun (ecological dynamics). Í stað þess að þjálfarinn hugsi að sá árangursríki en einsleiti leikstíll sem viðkomandi gæti hafa tileinkað sér sé “það eina sem hún kann” af því það “virkar alltaf” getur verið gott að taka upp sýn leikmannanna sjálfra á verkefnin. Byrjum á að hugsa okkur að allar þær hreyfingar sem við sjáum á vellinum séu afleiðingar flókins samspils fjölbreyttra þátta þar sem saman koma umhverfisþættir (við þjálfararnir, veðrátta, aðstaða og aðrir ytri þættir), einstaklingurinn (líkamlega bráðþroska og hugarfarslega) og verkefnið (reglur leiksins). Aðlögunarhæfni að ólíkum og breytilegum aðstæðum eru lykillinnn að árangri íþróttafólks og liða.
Það er því ekki nóg með að hver leikmaður glími við að samhæfa ólíka líkamshluta (sem líka eru að vaxa og þroskast) til að mæta breytilegum áskorunum leiksins heldur eru saman komnir margir ólíkir leikmenn á sama tíma í sama tilgangi. Hér er ég að beina athyglinni að skynjum okkar á umhverfinu út frá okkar eiginleikum hefur afgerandi áhrif á það hvernig við hreyfum okkur og hvaða leiðir við förum að þeim hreyfingum. Svona rétt eins og við skynjum ólíka möguleika til ferðalaga keyrandi um á stórum kraftmiklum bíl sem kemst allt nema í lítil stæði samanborið við litinn lipran og sparneytinn bíl. Það er margt inni á vellinum sjálfum sem getur gert það að verkum að “rétta” tæknin sem var drilluð í hörgul fyrir mót komist ekki að í óreiðu leiksins. Það kann einfaldlega að virðast sem svo að það sé bara aldrei rétti tíminn fyrir þessa hreyfingu. Eða var hún kannski aldrei nógu leiklík? Til að auka enn á flækjuna er þessi skynjun stöðugum breytingum háð því eitthvað sem var “ekki hægt” um veturinn er nú allt í einu orðið mögulegt um sumar, þökk sé hröðum vexti og þroska.
Þegar við setjum okkur í spor barnsins (t.d. 25 sm hærri en jafnaldrar), sjáum fyrir okkur hreyfingar þess og skynjun má ímynda sér hvernig ákveðin hreyfiboð (e. affordances) verða augljósari og auðveldari í framkvæmd en aðrar. Hæðarmunurinn (eða annað forskot) mun kalla á ákveðna hegðun bæði frá barninu og samherjum þess, og sömuleiðis móta leik andstæðingsins. Reglur leiksins sjá svo um að verðlauna árangursríkar tilraunir (skot, mörk, varnir) og styrkja viðkomandi hegðun. Þannig fáum við upp afar krefjandi aðstæður fyrir þjálfara. Á þjálfarinn að stöðva sigurgönguna og af hverju?
Hvaða leiðir eru færar í þessari stöðu? Ég ætla að byrja að velta því upp í hluta 2.
SÞ
heimildir til stuðnings
Button, C. (2021). Dynamics of skill acquisition: An ecological dynamics approach (Second edition). Human Kinetics, Inc.
Dagbjartsson, A., Þórsson, A.V., Pálsson G.I., Arnórsson V.H. (2000). Height and weight of Icelandic children 6-20 years of age. Læknablaðið; 86: 509-14
Rudd, J., Renshaw, I., Savelsbergh, G. J. P., Chow, J. Y., Roberts, W., Newcombe, D., & Davids, K. (Eds.). (2021). Nonlinear pedagogy and the athletic skills model: The importance of play in supporting physical literacy. Routledge.




Leave a comment