Það er mjög skemmtilegt að vinna með þessa stóru OMNIKIN bolta, og frábært að fá til þess tækifæri í #BeActive vikunni fyrr í haust. Boltarnir eru 120 sm í þvermál og passa því ekki í gegnum venjulegar dyragættir en eru á sama tíma mjög léttir sem gefur þeim mjög áhugaverða eiginleika.

Það er í raun aðeins ímyndunaraflið sem takmarkar hvernig unnið er með boltann og það er hluti spennunni í vinnu með boltann. Það að prófa eitthvað nýtt og sjá ólíka hópa takast á við þessa áskorun.

Stórboltaleikur á Laugum

Það er hægt að leika sér með boltann á fjölbreyttan hátt með ýmis markmið að leiðarljósi eins og í kennslu eða fyrir hópefli. Í haust vann ég með tíma sem höfðu það að markmiði að kynna nýjan leik sem kallast Kin-ball, og við gætum bara þýtt og kallað stórbolta. Reglur leiksins voru kynntar og æfðar og leikurinn að lokum spilaður í bland við hópeflisleiki eftir því sem tími vannst til.

Skipulag tímanna tekur helst mið af aðstöðunni og fjölda þátttakenda. Það má með góðu móti vinna með allt frá 12 manns og upp í rúmlega 40 manns í sama tímanum þar sem þrjú lið spila inná í einu. Til að spila KIN-ball leikinn þarf að tileinka sér nokkrar nýjar reglur sem hægt er að gera í vinnu með blöðrur í smærri hópum svo dæmi sé tekið. Það var afar áhugavert að fá að leika með stórboltann með hópum unglinga í eldri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla. Leikurinn er þess eðlis að hann krefst samtals og samvinnu. Þátttakendur geta öll lagt sitt af mörkum og því skapast góður grunnur til að vinna með í kennslu og hópefli fyrir mjög breiðan aldur eða allt frá um 8 ára og upp úr.

Leave a comment

Velkomin!

Ég heiti Sveinn Þorgeirsson og er íþróttaunnandi, eiginmaður og þrefaldur faðir og Fjölnismaður búsettur í Mosfellsbæ.

Meira frá mér á öðrum miðlum…