Í umfjöllun minni um nýja sýn á þjálfun hef ég beint sjónum að fræðunum sem liggja að baki og borið þau saman við það sem hingað til hefur verið ríkjandi viðhorf. Í þessari færslu ætla ég þó að byrja á að horfa hvernig þetta getur litið út, verklega á parketinu.

Í fyrra lögðum ég og Kristján Halldórsson fram verkefni sem heitir Handbolti á heimavelli (facebook, youtube, instagram) sem var styrkt af Þróunarsjóði námsgagna RANNÍS. Við teljum að það verkefni hafi heppnast vel og vonum að íþróttakennarar yngstu bekkja hafi kynnt sér það því þar er að finna nokkrar góðar hugmyndir að við teljum, sem eru undir áhrifum af þessum kenningum. Það má merkja helst í þeirri áherslu að reglur handboltaleiksins eru ekki í forgrunni, til dæmis er eiginlegur teigur ekki alltaf með og hvatt er notkunar mismunanda áhalda til að kasta. Það getur hjálpað til við að leita að góðu einstaklingsbundnu kastlagi og aðlögunarhæfni þar sem áherslan er kast með markmið/áætlun.

Það virðist ekki vera nóg að vera með þessar hugmyndir hreyfivistkerfa stöðugt á heilanum (eins og ég undanfarið) því þó verkefnið sé nýlegt sé ég strax möguleika á að bæta eitt heimaverkefnið mjög mikið með lítilli breytingu.

Hér er verkefnið sem um ræðir: Kasta í vegg

Hér sjást svo börn sem hafa mismunandi reynslu af kasti (mörg æfa, en sum ekki) reyna við þetta verkefni.

Hér er svo útskýring á því HVERNIG og AF HVERJU ég myndi leggja til að því verkefni yrði breytt.

Í stuttu máli þá sáum við aðrar hreyfilausnir hjá hópi handboltaiðkenda í yngri landsliðum og börnum sem hafa æft en hjá yngri börnum í grunnskóla þegar við lögðum þetta verkefni fyrir. Fyrsta hugsun var sú að þau væru bara ekki vön verkefninu og þau þyrftu lengri tíma. Það er mögulega rétt að einhverju leiti, en þó ekki nægjanleg skýring að mínu viti.

Það sem ég held að skipti miklu meira máli er þegar barn stendur 3 m frá vegg og á að kasta í kassann sem er í 180 sm hæð þá kemur yfirhandakastið líklega ekki fram sem náttúruleg lausn við vandanum. Til þess er takmarkið og nálægt. Í stað þess sjáum við oft “kast” þar sem börnin ýta boltanum af ágætri nákvæmni af 3ja metra færi. Við þessar aðstæður er lítið sem kallar á að setja gagnstæðan fót fram eða að lyfta olnboganum og sveigja efri búk. Markmiðinu er náð með kastaðferð sem við ætluðum ekki að kenna.

Eru börnin að gera vitlaust? Þau eru að leysa verkefnið, – bara ekki með þeirri aðferð sem við lögðum upp með. Þá er tvennt til ráða

a. Hefðbundin nálgun: Að útskýra, stoppa, sýna, benda á og stýra barninu á þann veg að það kasti boltanum með fyrrgreindri aðferð.

b. (ég myndi prófa) Takmarkana-miðuð nálgun (constraint led approach). Breyta verkefninu, leyfa þeim að færa línuna lengra frá veggnum (einstaklingsbundið), og mögulega stækka skotmarkið til samræmis. Ég er þess handviss að með þessari breytingu, sem er ekki flókin þá köllum við fram yfirhandakast sem náttúrulega lausn við breyttu verkefni án þess að segja orð. Verkefnið mun knýja fram leit að nýrri hreyfilausn sem gerir barninu kleift að drífa alla leið. Það er í góðu lagi að leiðbeina meðfram því að breyta verkefninu (t.d. STIKKORÐ), en mig grunar að þessi verkefnistakmörkun (aukin fjarlægð) sé nóg.

Til að setja þetta vandamál í annað samhengi þá mætti líkja þessu við þær aðstæður að við ætlum að kenna hagkvæman hlaupastíl. Við notum hlaupabretti og stillum það á 3 km/klst. Við vitum að það mun ekki kalla fram hlaup því við þær aðstæður er ganga mun eðlilegri lausn til að mæta kröfunum (sjálfsskipulag). Það sem gerist þegar við aukum hraðann er að við ákveðinn hraða (einstaklingsbundinn) mun ganga (enginn flugfasi) breytast yfir í skokk með flugfasa þar sem báðir fætur eru lyftast frá jörðu á sama tíma (u.þ.b. 1,8-2,2 m/s).

Á sama hátt má búast við því að einstaklingar þurfi að fara misjafnlega langt frá veggnum til að fá fram kastlag með bolvindu, gagnstæðum fæti fyrir framan og olnboga í um axlarhæð. Það gæti farið eftir gerð boltans (stærð, þrýstingur, grip) og reynslu barnsins svo dæmi séu tekin, svo það er um að gera að prófa, og leita!

Lykilatriði fyrir mér í þessum hugsunarhætti er að byrja að líta á þær hreyfingar sem við sjáum sem afleiðingu af mörgum þáttum. Sumir eru í verkefninu (oftast reglur) sjálfu, öðrum í umhverfinu og líka einstaklingnum sjálfum). Þannig getur verið auðvelt að breyta reglum verkefnisins í stað þess að sýna viðkomandi “réttu” lausnina. Það þýðir þó ekki að við verðum að þegja við hliðarlínuna, – við höldum áfram að kenna og leiðbeina, en þó líklegast með öðru sniði í samræmi við aðra sýn.

Leave a comment

Velkomin!

Ég heiti Sveinn Þorgeirsson og er íþróttaunnandi, eiginmaður og þrefaldur faðir og Fjölnismaður búsettur í Mosfellsbæ.

Meira frá mér á öðrum miðlum…