Hvernig þjálfum við hið óþjálfanlega?

Nei, ég er ekki að tala um hvernig við strekkjum á íþróttafólki til að auka hæð þeirra. Ég er að tala um það þegar leikmenn leysa aðstæður í leik á aðdáunarverðan hátt, með leikskilningi og viðeigandi hreyfilausnum. Sumir leikmenn virðast eiga betra með að skynja þessar lausnir og útfæra en aðrir. Það eru þessi “Helenu Sverris” eða “Ómars Inga” móment sem eiga stóran þátt í að draga okkur á pallana og að skjánum.

Mín tilfinning er að við sem höfum starfað við þjálfun höfum litið á þessa eiginleika sem óþjálfanlega að mestu, nokkuð sem íþróttafólk fæðist með og þar af leiðandi hefur, nú eða ekki. Ég var leikmaður sem myndi sennilega falla í síðar nefnda flokkinn en aftur að því síðar.

Ástæðan fyrir því að ég tek þetta upp hér er að með núverandi, hefðbundnum þjálfunaraðferðum er mjög hætt við því að við séum ekki að þjálfa einmitt þessa færni (skill) í að skynja upplýsingarnar í umhverfi okkar á æfingum líkt og í leik. Það stafar af því að með hefðbundnum aðferðum er í lagi að slíta í sundur hreyfingar frá skynjun á upplýsingum í aðstæðum (án tillits til þeirra upplýsinga sem eru í boði, = hreyfiboða). Það er í lagi, bara á meðan við hreyfum okkur “eins” og ætlast er til í leik, eftir “réttu” leiðinni. Þannig mætti segja að við værum frekar að byggja upp venjur heldur en færni.

Þetta gerir það að verkum að í mörgum “drillum” eru ekki sömu möguleikar (hreyfiboð) og koma upp í leik sem þýðir að við erum ekki að þjálfa leiklíkt, eða þá færni sem raunverulega skiptir máli í keppni. Samkvæmt þessum hugmyndum er því hætt við að yfirfærslan verði lítil sem engin.

Aðferðir sem byggja á kenningum hreyfivistkerfa (ecological dynamics) nálgast þjálfun út frá öðrum forsendum (nánar fjallað um áður, en fyrst hér, og síðar í hlaðvarpi líka). Þar skiptir umhverfið miklu máli og þær upplýsingar sem við skynjum þar. Raunar er leikmaðurinn og umhverfið ein og sama einigin, óaðskiljanleg í þeim fræðum. Einn hornsteinanna er hugmyndin um hreyfiboð (affordances) sem aftur byggir á hugmyndinni um beina skynjun (direct perception). Bein skynjun byggir á því að upplýsingar í umhverfi okkar getum við nýtt beint án þess að það þyrfi að fara í gegnum meðvitað úrvinnsluferli líkt og haldið er fram í hefðbundnum kenningum (þar sem stjórn hreyfinga er líkt við úrvinnslu tölvu).

Dæmi um það er bolti sem nálgast okkur á lofti. Við skynjum feril boltans og stefnu og auk þess hversu hratt hann nálgast okkur út frá því hvernig hann stækkar í sjónsviði okkar. Umhverfi okkar dags daglega er uppfullt af svona sértækum upplýsingum (specifying information) sem við þurfum/getum brugðist við Önnur hversdagsleg dæmi eru það að mæta fólki á þröngum gangi án þess að rekast á, eða hjólandi umferð á göngustígum. Þetta á líka við keppni í hópíþróttum, en æfingar okkar innihalda oft mun minna af leiklíkum upplýsingum sem þó hafa svo mikið með þær hreyfingar sem við útfærum að gera.

Áhugaverð rannsókn á boxurum hefur til dæmis bent á samhengið milli þess hve langt einn boxari stendur frá andstæðing sínum á stóran þátt í að móta það hverslags högg viðkomandi leitar í. Þegar fjarlægðin er meiri eru stungur augljós kostur. Aðeins nær og þá opnast möguleikarnir á krókum og svo að lokum upphöggum. Þessi fjarlægð (síbreytileg) í bland við varnarhreyfingar andstæðingsins móta svo þau högg (hreyfiboð) sem eru til að velja úr á hverjum tíma.

Ef við horfum svo út frá einstaklingnum, þá skynjar hver einstaklingur aðstæður út frá sínum eiginleikum og því eru hreyfiboðin okkar (affordances) ólík á milli okkar. Þetta er lykilhugmynd sem hjálpar okkur við að útskýra ofangreinda eiginleika þessara leikmanna. Þau einfaldlega hreyfa sig og skynja (og skynja til að hreyfa) aðra möguleika en annað íþróttafólk í “sömu” aðstæðum.

Anja Andersen er eitt dæmi um leikmann sem sá og nýtti hreyfiboðin í umhverfinu á annan hátt en stöllur hennar.
Þessi hreyfing var líklega ekki “kennd” sérstaklega sem góð lausn við því hvernig skal snúa leikmann af sér í teig, a.m.k. ekki áður en Bergkamp skynjaði og útfærði í þessum leik gegn Newcastle.

Í hefðbundnum hreyfingum er ekki tekið tillit til þeirra upplýsinga og aðstæðna sem eru uppi hverju sinni og sköpuðu tækifærið til að framkvæma akkúrat þessa hreyfingu. Þess heldur er sjónum beint að hreyfingunni sjálfri, að rétta hreyfingin (slitin frá umhverfisupplýsingum) verði svo þaulæfð (drilluð, líkt og hermenn að marsera) að hún þarfnist ekki hugsunar og verði sjálfvirk eða ómeðvituð. Henni á svo að beita í leik þar sem aðrar og meiri takmarkanir og hreyfiboð koma við sögu.

Samtenging hreyfingar og skynjunar nærist á þjálfun þar sem þessi tenging er virkjuð og viðhaldið. Við getum leyft okkur að breyta áhöldum, reglum og umhverfisþáttum til að fá leikmenn til að skynja sama verkefnið á ólíkan hátt, prófa ólíkar lausnir og þannig þróa fleiri lausnir sem virka. Þessari tengingu hefur stundum verið líkt við að stilla analog útvarp. Það er suð í gangi og aðrar rásir finnast og stundum er merkið ekki skýrt, allt þangað til við stillum okkur á rétta bylgjulengd (upplýsingar).

Hvaða leiðbeiningar frá okkur beinast að umhverfinu? Því sem leikmaðurinn þarf að skynja og bregðast við í tilteknum aðstæðum. Getum við betur hjálpað leikmönnunum með slíkum ráðum? Ég man á einu þjálfaranámskeiði fyrir löngu að ég heyrði Ólaf Stefánsson tala um að beina athyglinni að hreyfingu næsta varnarmanns (en ekki þeim sem er beint í þér). Þær upplýsingar geta hjálpað til við að ákvarða hvenær losa skal boltann til að búa til yfirtölu. Slíkar leiðbeiningar myndu falla í þennan flokk leiðbeininga sem beina athyglinni að upplýsingum í umhverfinu og hjálpa við útfærslu hreyfinga. Að þessu getustigi er vegferð sem þarf að varða og byggja upp því við getum ekki ætlast til að ungir leikmenn geti nýtt og brugðist við sömu upplýsingum og reyndir leikmenn.

Sem varnarmaður í handbolta hjálpaði það mér að hugsa um hvaða hreyfingar eru algengastar hjá andstæðingnum, út frá aðdragandanum og aðstæðum. Hér spila margir þættir inn eins og hve löng er sóknin er orðin, hver staðan er í leiknum og hve mikið er af honum. Þær upplýsingar í bland við þau færi sem ég skynjaði að voru að verða til í vörninni okkar hjálpuðu varnarmönnum að “lesa leikinn”. Í raun með því að skynja hreyfiboð annarra út frá þeirra styrkleikum.

Ef við tökum svo líka til greina að vörnin leggur upp með ákveðna taktík, það er að beina andstæðingunum (með fölskum hreyfiboðum eins og að standa hönd) í ákveðnar aðstæður þá urðu ákveðnar hreyfingar enn líklegri en ella því þær “upplýsingar/aðstæður” sem við buðum upp á mótuðu hreyfingar sóknarmanna (og öfugt). Ég held að þessar hugleiðingar séu ekki ný vísindi fyrir þjálfara og leikmenn, en hugsanlega þó jarðtengt við eitthvað sem er haldfastara en bara okkar eigin reynslu. Það eru kenningar um hreyfiboð og beina skynjun eftir Gibson (1979) byggðar á vistfræðilegu sjónarhorni á um mótun hreyfinga.

Lokaorðin eru á þessa leið. Ef við einbeitum okkur að rétta hreyfimynstrinu, án þess að huga að þeim upplýsingum og tækifærum sem eru í umhverfi íþróttamannsins þá náum við líklega ekki að þjálfa þessa færni (samtengingu) sem er svo eftirsóknarverð. Samspil hreyfingar og skynjunar virkjast ekki að fullu með þeim aðferðum. Þó svo við tökum upp nýjar aðferðir þýðir það þó ekki að öll getum við orðið jafn flink og ofangreindir leikmenn og með þessu verðum við öll frábær í að lesa leikinn. Anja og Dennis voru dæmi um leikmenn sem höfðu afburða skynjun á umhverfið, höfðu mikla og sterka samtengingu (attunement).

Þegar við hugsum um leiðbeiningar okkar og þau verkefni sem við leggjum fyrir gæti verið áhugavert að staldra við og rýna í aðferðir. Sumt sem þegar er gert fer vel saman við ofangreindar hugmyndir og annað ekki. Ég myndi halda að í dag séum við flest að blanda saman aðferðum sem eiga tengjast hefðbundnu aðferðunum og svo hugmyndum hreyfivistkerfa án þess að vita það endilega.

Að velta fyrir sér þessari nýju nálgun mun eflaust hjálpa þjálfurum að móta æfingar svo að þessi færni að tengja saman hreyfingar og skynjun samtímis, muni eflast. Þannig mætti þjálfa einmitt þá færni (ekki venjur) sem við metum svo mikils, og var áður mögulega talin meðfædd og óþjálfanleg.

*vegna krassandi titils á þessari grein þá set ég fyrirvara. Ég get ekki ábyrgst að það sem var erfitt í þjálfun verði auðvelt með þessum aðferðum. Augljóslega hafa komið fram framúrskarandi leikmenn þrátt fyrir að hefðbundnar aðferðir hafi verið notaðar. Hér er ætlunin að kynna til leiks aðra nálgun við sama vanda sem ætti að geta gefið góða raun. Ég tel einnig að það sem fram kemur hér sé aðeins byrjunin í því að tileikna okkur nýjar aðferðir í þjálfun hreyfinga 🙂

Tengdar heimildir

Araújo, D., Davids, K., & Hristovski, R. (2006). The ecological dynamics of decision making in sport. Psychology of Sport and Exercise, 7(6), 653–676. https://doi.org/10.1016/j.psychsport.2006.07.002

Button, C. (2021). Dynamics of skill acquisition: An ecological dynamics approach (Second edition). Human Kinetics, Inc.

Gibson, J. J. (1979). The Ecological Approach to Visual Perception. Boston: Houghton
Mifflin.

Otte, F. W., Davids, K., Millar, S.-K., & Klatt, S. (2020). When and How to Provide Feedback and Instructions to Athletes?—How Sport Psychology and Pedagogy Insights Can Improve Coaching Interventions to Enhance Self-Regulation in Training. Frontiers in Psychology, 11, 1444. https://doi.org/10.3389/fpsyg.2020.01444

Hlaðvarpsþáttur um hreyfivistkerfi: Íþróttarabbið

Ég fékk að leika lausum hala í hlaðvarpi HR um daginn þar sem ég og Ása Guðný ræddum þessar kenningar um hreyfivistkerfi og hvernig þær gætu haft áhrif á að hvernig við þjálfum og kennum hreyfingar í framtíðinni.

Þetta eru hugmyndir sem hafa verið mér sérstaklega hugleiknar undanfarið og því frábært að fá að ræða þær á svona frjálslegan hátt, góð tilbreyting frá skrifum. Ég tel að þetta séu einhverjar þær mest spennandi hugmyndir sem komið hafa fram varðandi þjálfun lengi. Þetta er ekki hraðastigi eða annað æfingatól, heldur nýr sjónauki á hreyfingar. Hugmyndirnar að baki þessara kenninga eru ekki glænýjar, en sú aðferð að blanda þeim saman til að búa til nýjan útgangspunkt er tiltölulega ung eða frá því snemma á þessari öld.

Ég tel þetta viðtal líka vera mikilvægan útgangspunkt að ræða áður en við ræðum aðferðirnar því við verðum að þekkja grundvallarhugmyndirnar sem kalla á breyttar aðferðir. Það er af því að það er ekki hægt að ræða aðferðir í þjálfun eða kennslu strax án þess að hafa komið á framfæri á hvaða grunni slíkar breytingar eiga sér stað.

https://sveinnthorgeirsson.com/2023/04/24/eru-10-000-endurtekningar-thversogn-i-thjalfun-hreyfinga/

https://sveinnthorgeirsson.com/2023/04/11/einstaklingsmidud-hopthjalfun-morg-verkefni-eda-margar-lausnir/

https://sveinnthorgeirsson.com/2023/03/17/a-auto-pilot-eda-adlogunarhaef-tvo-olik-sjonarhorn-a-thjalfun-hreyfinga/

Ef hlaðvarp um þessi mál heilla mæli ég með því að leita uppi þætti um ecological dynamics hjá dr. Rob Gray á þessu hlaðvarpi – https://perceptionaction.com/. Rúmlega 400 þættir. Hann er líka með öfluga youtube rás með kennsluefni um sama efnihttps://www.youtube.com/@RobGrayASU sem er mjög gagnleg.

Einstaklingsmiðuð hópþjálfun: Mörg verkefni eða margar lausnir?

Hvernig getum við einstaklingsmiðað færniþjálfun í raun, ef öll eru að vinna í sama verkefni? Þjálfarar þekkja vel hve mikilvægt það er að reyna að einstaklingsmiða þjálfunina til að ná sem bestum árangri. Þetta er í raun regla í þjálffræðinni, en þó vandi sem fylgir gerð hvers tímaseðlis.

Ef við styðjumst við hefðbundnar aðferðir þá standa okkur ekki margar leiðir til boða. Forsendurnar gera ráð fyrir að þjálfarinn kenni „réttu tæknina“ miðað við markmiðið hverju sinni. Til að einstaklingsmiða þá þjálfun þyrfti að útbúa sérstaka æfingu fyrir hvert og eitt, allar með ólíkum markmiðum. Það er svo gott sem ómögulegt í praktík.

Allar í eins búning, en engin af þeim “eins”. Photo by Jeffrey F Lin on Unsplash

Er til „einföld“ lausn á þessum vanda? Til þess að sjá það fyrir okkur þurfum við að breyta um útgangspunkt og aðferð. Einstaklingsmiðun æfinga horfir allt öðruvísi við ef, við aðeins styðjumst við kenningar hreyfivistkerfa (ecological dynamics) og skiljum við hinar hefðbundnu (áður fjallað um hér). Samkvæmt kenningum um hreyfivistkerfin lítum við svo á að hreyfingar birtist (emerge) undir takmörkunum hjá einstaklingnum og í umhverfinu. Hreyfingarnar eru undir áhrifum af stöðugu samspili skynjunar og hreyfinga. Þannig eru hreyfingar samhæfðar út frá aðstæðum hverju sinni, án eiginlegs stjórnanda, í flóknu, aðlögunarhæfu og síbreytilegu kerfi líkamans. Til að glöggva okkur á muninum getum við borið saman þessar tvær leiðir.

Hefðbundnar kenningar (information processing)Hreyfivistkerfi (ecological dynamics)
Línulegt eðli þjálfunar (lítil breyting í þjálfun hefur lítil áhrif).Ólínulegt eðli þjálfunar (lítil breyting í t.d. verkefninu getur breytt miklu varðandi hreyfingar).  
Þjálfun „réttu“ aðferðarinnar. Endurtekning endurtekningarinnar vegna (þrátt fyrir breytileika milli tilrauna). Lagt upp með að safna upp miklu magni endurtekninga til að festa hreyfiútfærsluna í langtímaminninu.Sjálfsskipulag (self-organization), margar leiðir að sama markmiði (degeneracy), lykilhugmyndin um endurtekningu án endurtekningar, og breytileiki nýttur til aðlögunar á framkvæmd hreyfinga.  
Breytileiki í æfingum getur af sér færni í að aðlaga „réttu tæknina“ að aðstæðum.Lausnaleit við áskorunum í hreyfingum. Breytileiki í aðstæðum. Læra að læra að hreyfa sig.  
Þekking okkar á hreyfingunni sjálfri er undirstaða færni. Við vitum hvernig á að hreyfa sig og reynum að fylgja því.Þekking byggir á sambandi okkar við umhverfið, tilfinningu. Stöðugu samspili hreyfingar við skynjun. Hægt er að einfalda verkefni (simplification) í þjálfun.
Þjálfun hreyfinga er hægt að brjóta niður í minni einingar og setja svo saman í heild. Hugmyndin um að hreyfingarnar séu byggðar á samsettum hreyfingum.Hreyfingar verða aðeins þjálfaðar upp í færni þegar hreyfingin er samtengd mikilvægustu upplýsingum í umhverfi okkar (skynjun). Skynjun og hreyfingu má ekki slíta í sundur, ef þjálfa á færni.
*tafla byggð á samantekt frá Rob Gray (höfundur). (2020, 29. október). The Two Skill Acquisition Approaches: Key Differences. https://www.youtube.com/watch?v=cCsezh7ijzs

Nokkrar leiðir sem byggja á hugmyndum hreyfivistkerfa hafa verið þróaðar til að koma þessum aðferðum til skila inn á æfingarnar sjálfar. Ólínuleg kennslufræði (Non-linear pedagogy) er ein og Takmarkana-miðuð nálgun (Constraint led approach) er önnur þó þær séu skyldar. Nánar verður fjallað um þessar aðferðir síðar.

Lykilatriðið er að það er í höndum þjálfarans að hanna verkefnið sjálft (æfinguna) á þann hátt að þær hreyfingar sem leitast er við að þjálfa birtist náttúrulega í verkefninu eins og það er sett upp. Með þessu þarf þjálfarinn í raun lítið að segja til að leiðrétta sjálfa hreyfinguna því hún er mótuð af umhverfinu og samspili leikmannsins jafnóðum.

Áhersla þjálfarans á æfingum að vera fyrst og fremst á verkefninu sjálfu. Þar er átt við markmið og reglum æfingarinnar, svæði sem unnið er á (stærð), fjölda þátttakenda, áhöld sem notast er við, allt þættir sem hægt er að breyta á staðnum. Auk þess geta mikilvægir umhverfisþættir haft áhrif svosem undirlag og veður svo það helsta sé nefnt. Allir þessir þættir koma saman og mynda það umhverfi sem hreyfingin fer fram í og birtist. Ef hreyfingarnar eru ekki eins og upp var lagt með þarf að leita skýringa í öllum þessum þáttum, verkefninu, einstaklingnum sjálfum (líkamlega/hugarfarslega), eða mögulega ytri umhverfisþáttum (aðstöðu eða félagslegum þáttum).

Þríhyrningurinn hér til vinstri skýrir hvernig takmarkanir í umhverfi okkar, verkefninu sjálfu og í einstaklingnum spila saman og hafa áhrif á þær hreyfingar sem myndast. Til hægri tekur svo við samspil skynjunar og hreyfinga til að útfæra samhæfðar hreyfingar. https://www.researchgate.net/publication/10810355/figure/fig1/AS:394382139248644@1471039437457/Newells-model-of-interacting-constraints-adapted-to-illustrate-the-resulting-effects-on.png

Undir þessum aðstæðum hafa allir leikmenn sem taka þátt í verkefninu markmið til að vinna eftir (takmörkun á hreyfingu) og mikilvægt frelsi til að leita að leiða til að leysa þau sem best. Þau leita að bestu aðferðinni út frá eigin líkama, út frá eigin skynjun á möguleikum (hreyfiboðum, e. affordances). Þannig nýtum við fjölhæfni líkamans til að leysa sama verkefnið á ólíkan hátt til hins ítrasta, út frá hugmyndinni um að sömu hreyfinguna sé fræðilega ómögulegt að endurtaka (repetition without repetition).

Í þessari nálgun er mikið lagt upp úr lausnaleit við vandanum og því að prófa sig áfram með ólíkar leiðir (bæði þjálfarar og íþróttafólk). Í gegnum það ferli fer nám fram og við verðum betur samtengd (attuned) þeim þáttum í umhverfinu sem móta hreyfingar okkar. Við þessar aðstæður gæti þjálfarinn þurft að hugsa leiðbeiningar sínar upp á nýtt, en á móti gætu aðrar hugmyndir sem áður voru geymdar eignast nýtt líf.

Við höfum vitað að æfingar ættu að vera „leiklíkar“ (representative) í nokkurn tíma, en þessar kenningar hafa tvær ólíkar leiðir við að ná því fram. Kenningar hreyfivistkerfa leggja til að einfalda megi þá færni sem á að þjálfa og ýkja upp aðstæður til að leysa (viðhalda mikilvægum upplýsingum í umhverfinu til að skynja). Dæmi um slíkt væri að breyta áhöldum eða reglum verkefnisins, eins og að spila leik með minni/stærri/mýkri bolta. Á meðan myndu hefðbundnar aðferðir leggja til að “keppnisútgáfan” væri sneidd niður í einingar (mikilvægar upplýsingar sem móta hreyfingar teknar úr sambandi og samhengi), hreyfingarnar þjálfaðar í einangrun og settar saman líkt og Legokubbahús að lokum.

Eitt dæmi sem dregur fram þessi atriði gæti verið að rekja bolta milli keilna (t.d. handbolti/fótbolti/körfubolti). Í því verkefni vantar upplýsingarnar fyrir leikmenn til að búa til samtengingar sem þarf til að þjálfa færnina sem er mikilvæg í leik gegn lifandi mótherjum. Keilurnar hreyfast ekki, gera engar kröfur um viðbragð og þess utan beina þær athygli leikmanna að jörðinni þegar mikilvægustu upplýsingarnar í leik eru allt í kring.

Samkvæmt kenningum hreyfivistkerfa skortir mikilvægar upplýsingar inn í þetta verkefni fyrir leikmanninn til að styrkja færnina í því að rekja bolta í leik. Hér er aðeins verið að þjálfa meðferð boltans, sem gæti átt rétt á sér við einhverjar kringumstæður, en er ekki færni, né heldur hæfni sem gerir frábæra leikmenn að frábærum leikmönnum. Photo by Nigel Msipa on Unsplash.

Sjálfur hef ég margoft boðið upp á svona æfingar þar sem dripplað er á milli keilna og þær jafnvel „gabbaðar“, – en ekki meir. Það eru til aðrar og betri leiðir. Ég er líka þess fullviss að þjálfarar geta tekið gamalkunnar æfingar og betrumbætt þær með þessar kenningar að vopni. Leiðarstefið í þeirri hugsun er að búa til verkefni sem býður upp á þær hreyfingar sem á að þjálfa og festa í sessi. Meira um það síðar.

Heimildir sem meðal annars er stuðst við í þessari grein

Button, C. (2021). Dynamics of skill acquisition: An ecological dynamics approach (Second edition). Human Kinetics, Inc.

Chow, J. Y., Davids, K., Button, C., & Renshaw, I. (2016). Nonlinear pedagogy in skill acquisition: An introduction. Routledge.

Gray, R. (2021). Skill Acquisition Presentations—YouTube. https://www.youtube.com/

Á auto-pilot eða aðlögunarhæf? Tvö ólík sjónarhorn á þjálfun hreyfinga

Flest af því sem við höfum byggt á í tækniþjálfun gengur út frá því að heilinn starfi eins og tölva. Þjálfarar vinna við að forrita réttu lausnirnar inn í íþróttafólkið fyrir þau að nota í keppni og á æfingum eins og þarf. Með því að gera æfingarnar nógu oft, án þess að klikka þá festist þær í langtímaminninu, og séu þar til reiðu þegar á þarf að halda. Þegar best lætur má sjá íþróttafólk sigra keppnir á „auto-pilot“, helst án þess að gera mistök með réttum hreyfingum.  

Svona sá ég þetta fyrir mér lengi vel. En nú myndi ég vilja kynna aðra nálgun sem gengur út frá allt öðrum forsendum og hefur verið kölluð hreyfivistkerfi. Hún er margþættari, en um leið að mínu mati sannari því sem virkilega fram fer í íþróttum (og daglegu lífi) og þar af leiðandi mun gagnlegri.

Hvað ef í stað þess að einblína á að gera sömu hreyfinguna aftur og aftur,- að við myndum samþykkja að það sé ekki hægt yfir höfuð? Við munum aldrei geta endurtekið alveg nákvæmlega eins sömu hreyfinguna, því bæði eru þær svo margþættar (margir liðir og vöðvar), og í millitíðinni þá hefur eitthvað breyst. Því er stundum sagt að við förum ekki tvisvar sinnum yfir sama lækinn því hann er ekki sá sami, og ekki við heldur, og það á vel við hér.

Við erum aftur á móti fær um að geta leyst sama verkefnið aftur og aftur (t.d. að hitta í miðjuna á píluspjaldi) með tilheyrandi æfingum. Hér er grundvallarmunur á, og í því felst að við viðurkennum að það séu fleiri en ein leið til að leysa sama verkefnið og vandinn felist í að velja úr þær leiðir sem henta hverjum og einum best. Því sannleikurinn er sá að aðstæðurnar eru sjaldnast þær sömu og kalla því á öðruvísi hreyfingar í hvert sinn. Golf er frábært dæmi þar sem veður, vallaraðstæður, staða í keppni og lengd holu breytir markmiði sveiflunnar í hvert sinn. Það sem við þurfum er aðlögunarhæfni.

Hvað er þá það sem við þurfum að breyta í færniþjálfun? Áherslan ætti að vera á því stöðuga samspili sem ríkir milli skynjunar okkar á umhverfinu og svo hreyfinga okkar. Við nýtum upplýsingar í umhverfinu til að stýra hreyfingum okkar, á sama tíma og við hreyfum okkur. Þannig er stundum sagt að við hreyfum okkur til að skynja og skynjum til að hreyfa. Það er svo í gegnum skynjun okkar á aðstæðum, út frá okkar eiginleikum sem við veljum hreyfingar úr því sem í boði er hverju sinni. Í gegnum öll þessi hreyfiboð (möguleika) getum við séð ólíka einstaklinga velja ólíkar hreyfingar í „sömu aðstæðunum“, allt út frá því hvaða tækifæri þau skynja. Tek ég gabbhreyfingu og fer framhjá eða fer ég beint í skotið? Það fer eftir ýmsu, hver er „ég“ (hæð, þyngd, færni, þreyta, sjálfstraust, einbeiting og fleira), hver er á móti mér (ótal þættir)? hver er staðan í leiknum (yfir, undir, tími eftir)? Eða er einhver í betra færi en ég (yfirsýn og leikskilningur)?

Hvernig getur þjálfarinn nýtt sér þessar upplýsingar? Til að halda lengra þurfum við að  viðurkenna að hreyfingarnar stýrast ekki bara frá heila viðkomandi heldur af mörgum þáttum í umhverfi viðkomandi, hjá einstaklingnum sjálfum og síðast en ekki síst verkefninu sjálfu. Hreyfingarnar sem við sjáum hjá hvort öðru á vellinum og utan vallar „birtast“ því út frá samspili ofangreindra þátta. Við sem þjálfarar getum átt þátt í að velja umhverfi æfinganna (aðstaða t.d. gras eða gervigras), og aðstoðarþjálfara (þekking og reynsla) með ákveðin markmið í huga. Með þjálfun erum við að reyna að hafa áhrif á færni og getu einstaklinga, bæði hugrænt og líkamlega. Það er þó sennilega verkefnið sjálft (íþróttin), hvaða æfingar við setjum fyrir og með hvaða áherslum þar sem við getum haft mjög mótandi áhrif á þær hreyfingar sem birtast (reglur, áhöld og markmið).

Að lokum til að setja allt í samhengi ber að líta á samhæfðar hreyfingar sem samspil margra þátta sem skipuleggja sig sjálfar út frá þeim aðstæðum sem eru hverju sinni. Það þýðir að skipanir heilans í gegnum miðtaugakerfið til vöðva er aðeins einn þáttur af mörgum sem útskýrir það hvernig hreyfingar birtast okkur. Fjölmörg fyrirbæri í náttúrunni skipuleggja sig á ótrúlegan hátt, alveg án þess að hafa stjórnanda. Frægar eru hreyfingar fulga á flugi og fiska í torfum sem þó eru án stjórnanda. Niðurstaðan er samt dáleiðandi, líkt og vel samhæfðar hreyfingar íþróttafólks.

Hver eru skilaboðin?

  • Þjálfun hreyfinga sem felur í sér endurtekningu hreyfinga, endurtekninganna vegna er ekki vel til þess fallinn að bæta færnina og yfirfærast í keppni.
  • Færniþjálfun (sem mörg hugsa til sem tækniþjálfun) er best þegar þjálfarar hanna sérstaklega verkefnið út frá þeim upplýsingum sem við skynjum (hreyfiboð) í umhverfinu. Það er gert á margvíslegan hátt með því að ýta undir sköpun og lausnaleit (mjög mikilsmetnir eiginleikar í íþróttum) í gegnum íþróttina. “Leiklíkt” er lykilorð hér sem mörg kannast við.
  • Við ættum ekki að reyna að forrita íþróttafólkið okkar og steypa því í sama „rétta“ mótið, heldur vinna með þeirra skynjun og hreyfingu út frá þeirra eiginleikum. Við getum svo stutt við betri hreyfilausnir með því að leggja inn einkenni hagkvæmra hreyfinga.
  • Þetta þýðir ekki að hlutverk þjálfarans verði síðra eða minna af því við höfum ekki „rétta hreyfimynstrið“ til að segja frá og hamra inn í heila íþróttafólks. Alls ekki, – hlutverkið er þó öðruvísi og leiðirnar að betri færni aðrar. Stundum er slíkri þjálfun líkt við garðyrkju (leiðbeinslu) sem miðar að því að aðstæður séu góðar til vaxtar og þroska, til móts við herforingja sem er í miðjunni og öll bíða skipana frá og hlýða.
  • Hér skal líka tekið fram að þrátt fyrir að hreyfingar birtist sem flókið samspil skynjunar og hreyfingar, undir takmörkunum einstaklingsins, umhverfis og verkefnis, þá er pláss fyrir margvíslega kennslufræði við að ná tilætluðum  markmiðum. Þjálfunin þarf sem fyrr að taka mið af forsendum og þroska iðkenda.
  • Þjálfarar gætu staldrað við þessa punkta þegar þeim finnst sem iðkendur heyri ekki skilaboðin þeirra á æfingum, heldur haldi áfram að endurtaka sömu „röngu“ hreyfingarnar. Það er í ykkar valdi að móta verkefnið, – og kennslufræðin að baki þessarar nálgunar segir að jafnvel litlar breytingar á verkefninu (t.d. áhöld eða önnur regla) geti breytt miklu í hreyfingunni sem birtist.

Sveinn Þorgeirsson, doktorsnemi

kennari áfangans Hreyfiþróun og -nám við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík

Heimildir sem m.a. er byggt er á

Button, C., Seifert, L., Chow, J. Y., Araujo, D., & Davids, K. (2020). Dynamics of Skill Acquisition (2nd ed.). Human Kinetics Publishers. https://online.vitalsource.com/books/9781492594741

Chow, J. Y., Davids, K., Button, C., & Renshaw, I. (2016). Nonlinear pedagogy in skill acquisition: An introduction. Routledge.

Davids, K., Araújo, D., Hristovski, R., Passos, P., & Chow, J. Y. (2012). Ecological dynamics and motor learning design in sport. https://doi.org/10.13140/RG.2.1.2297.0089

Otte, F. W., Davids, K., Millar, S.-K., & Klatt, S. (2021). Understanding How Athletes Learn: Integrating Skill Training Concepts, Theory and Practice from an Ecological Perspective. 7.

Seifert, L., & Davids, K. (2017). Ecological Dynamics: A Theoretical Framework for Understanding Sport Performance, Physical Education and Physical Activity. In P. Bourgine, P. Collet, & P. Parrend (Eds.), First Complex Systems Digital Campus World E-Conference 2015 (pp. 29–40). Springer International Publishing. https://doi.org/10.1007/978-3-319-45901-1_3

21 dagur til stefnu, – gerum þetta vel

Það má gera ráð fyrir auknu fútti í æfingum þann 4. maí hjá mörgu íþróttafólki. Það glittir í bjartari daga í sportinu með afléttingu takmarkana. Ef ég væri þjálfari að hefja æfingar á nýjan leik á þeim tímapunkti myndi ég biðja mitt íþróttafólk að koma með æfingadagbók síðustu 3ja vikna með sér.

Þannig mætti betur áætla það stand sem íþróttafólkið er í og hvernig sé óhætt að hefja æfingar á nýjan leik út frá magni og ákefð, og jafnvel einstaklingsbundið. Einstaklingar sem hafi sinnt sér illa, æft lítið á þessum tíma fengju ekki að æfa af sama krafti og hinir þegar allt fer á fullt. Ábyrgðin er þeirra. Æfingar dagsins í dag byggja á því sem gert var í gær.

Skráningin þarf ekki að vera flókin eða tímafrek til að vera gagnleg. Einfalt væri t.d. að setja þetta upp á þessa leið.

Screenshot 2020-04-14 at 14.10.38

Excel skráningarform fyrir 21 dags dagbók

Lykiltölurnar um ákefð og magn eru inni í þessari einföldu formúlu fyrir æfingaálag. Þær segja sögu, ekki alla, en þó nógu mikið til að þjálfari hafi gagn af. Það væri t.d. ekki skynsamlegt að byrja 5x 90 mín æfingar í viku þann 4. maí ef íþróttafólkið þitt hefur aðeins verið að æfa 3×30 mínútur. Það er ávísun á vandræði. Sömuleiðis þarftu að huga vel að ákefðinni ef viðkomandi hefur haft það of kósí í samkomubanninu.

Kæri íþróttamaður. Það er nægur tími til að koma vel undirbúin til æfinga að nýju. Byrjaðu að skrá og byggja þig upp í æfingaálag sem þú varst vön/vanur fyrir samkomubann. Það má því byggja ofan á vikuna á undan. Ekki setja allt á fullt ef þú hefur bara verið í 2 gír.

Kæri þjálfari. Hér ertu með dæmi um tól sem hægt væri að nýta til að hafa ókeypis yfirlit yfir þá þjálfun sem iðkandinn þinn hefur gert á meðan samkomubanninu stendur. Sé það notað á réttan hátt gæti það virkað hvetjandi og gott aðhald við þitt íþróttafólk.

john-arano-h4i9G-de7Po-unsplash
Photo by John Arano on Unsplash

Förum varlega af stað 🙂

Heimild vegna RPE skalans

Foster, C., Florhaug, J. A., Franklin, J., Gottschall, L., Hrovatin, L. A., Parker, S., Doleshal, P., & Dodge, C. (2001). A New Approach to Monitoring Exercise Training: Journal of Strength and Conditioning Research, 15(1), 109–115. https://doi.org/10.1519/00124278-200102000-00019
mæli einnig með…
Newsletter, T. U. (2020). 🎤🏀⚽ Upside: Testimonials from Top coaches/trainers/Startups on what to do during COVID-19 crisis. Retrieved April 14, 2020, from https://www.theupside.us/p/-upside-testimonials-from-top-coachestrainerssta