Nei, ég er ekki að tala um hvernig við strekkjum á íþróttafólki til að auka hæð þeirra. Ég er að tala um það þegar leikmenn leysa aðstæður í leik á aðdáunarverðan hátt, með leikskilningi og viðeigandi hreyfilausnum. Sumir leikmenn virðast eiga betra með að skynja þessar lausnir og útfæra en aðrir. Það eru þessi “Helenu Sverris” eða “Ómars Inga” móment sem eiga stóran þátt í að draga okkur á pallana og að skjánum.
Mín tilfinning er að við sem höfum starfað við þjálfun höfum litið á þessa eiginleika sem óþjálfanlega að mestu, nokkuð sem íþróttafólk fæðist með og þar af leiðandi hefur, nú eða ekki. Ég var leikmaður sem myndi sennilega falla í síðar nefnda flokkinn en aftur að því síðar.
Ástæðan fyrir því að ég tek þetta upp hér er að með núverandi, hefðbundnum þjálfunaraðferðum er mjög hætt við því að við séum ekki að þjálfa einmitt þessa færni (skill) í að skynja upplýsingarnar í umhverfi okkar á æfingum líkt og í leik. Það stafar af því að með hefðbundnum aðferðum er í lagi að slíta í sundur hreyfingar frá skynjun á upplýsingum í aðstæðum (án tillits til þeirra upplýsinga sem eru í boði, = hreyfiboða). Það er í lagi, bara á meðan við hreyfum okkur “eins” og ætlast er til í leik, eftir “réttu” leiðinni. Þannig mætti segja að við værum frekar að byggja upp venjur heldur en færni.
Þetta gerir það að verkum að í mörgum “drillum” eru ekki sömu möguleikar (hreyfiboð) og koma upp í leik sem þýðir að við erum ekki að þjálfa leiklíkt, eða þá færni sem raunverulega skiptir máli í keppni. Samkvæmt þessum hugmyndum er því hætt við að yfirfærslan verði lítil sem engin.
Aðferðir sem byggja á kenningum hreyfivistkerfa (ecological dynamics) nálgast þjálfun út frá öðrum forsendum (nánar fjallað um áður, en fyrst hér, og síðar í hlaðvarpi líka). Þar skiptir umhverfið miklu máli og þær upplýsingar sem við skynjum þar. Raunar er leikmaðurinn og umhverfið ein og sama einigin, óaðskiljanleg í þeim fræðum. Einn hornsteinanna er hugmyndin um hreyfiboð (affordances) sem aftur byggir á hugmyndinni um beina skynjun (direct perception). Bein skynjun byggir á því að upplýsingar í umhverfi okkar getum við nýtt beint án þess að það þyrfi að fara í gegnum meðvitað úrvinnsluferli líkt og haldið er fram í hefðbundnum kenningum (þar sem stjórn hreyfinga er líkt við úrvinnslu tölvu).

Dæmi um það er bolti sem nálgast okkur á lofti. Við skynjum feril boltans og stefnu og auk þess hversu hratt hann nálgast okkur út frá því hvernig hann stækkar í sjónsviði okkar. Umhverfi okkar dags daglega er uppfullt af svona sértækum upplýsingum (specifying information) sem við þurfum/getum brugðist við Önnur hversdagsleg dæmi eru það að mæta fólki á þröngum gangi án þess að rekast á, eða hjólandi umferð á göngustígum. Þetta á líka við keppni í hópíþróttum, en æfingar okkar innihalda oft mun minna af leiklíkum upplýsingum sem þó hafa svo mikið með þær hreyfingar sem við útfærum að gera.
Áhugaverð rannsókn á boxurum hefur til dæmis bent á samhengið milli þess hve langt einn boxari stendur frá andstæðing sínum á stóran þátt í að móta það hverslags högg viðkomandi leitar í. Þegar fjarlægðin er meiri eru stungur augljós kostur. Aðeins nær og þá opnast möguleikarnir á krókum og svo að lokum upphöggum. Þessi fjarlægð (síbreytileg) í bland við varnarhreyfingar andstæðingsins móta svo þau högg (hreyfiboð) sem eru til að velja úr á hverjum tíma.
Ef við horfum svo út frá einstaklingnum, þá skynjar hver einstaklingur aðstæður út frá sínum eiginleikum og því eru hreyfiboðin okkar (affordances) ólík á milli okkar. Þetta er lykilhugmynd sem hjálpar okkur við að útskýra ofangreinda eiginleika þessara leikmanna. Þau einfaldlega hreyfa sig og skynja (og skynja til að hreyfa) aðra möguleika en annað íþróttafólk í “sömu” aðstæðum.
Í hefðbundnum hreyfingum er ekki tekið tillit til þeirra upplýsinga og aðstæðna sem eru uppi hverju sinni og sköpuðu tækifærið til að framkvæma akkúrat þessa hreyfingu. Þess heldur er sjónum beint að hreyfingunni sjálfri, að rétta hreyfingin (slitin frá umhverfisupplýsingum) verði svo þaulæfð (drilluð, líkt og hermenn að marsera) að hún þarfnist ekki hugsunar og verði sjálfvirk eða ómeðvituð. Henni á svo að beita í leik þar sem aðrar og meiri takmarkanir og hreyfiboð koma við sögu.
Samtenging hreyfingar og skynjunar nærist á þjálfun þar sem þessi tenging er virkjuð og viðhaldið. Við getum leyft okkur að breyta áhöldum, reglum og umhverfisþáttum til að fá leikmenn til að skynja sama verkefnið á ólíkan hátt, prófa ólíkar lausnir og þannig þróa fleiri lausnir sem virka. Þessari tengingu hefur stundum verið líkt við að stilla analog útvarp. Það er suð í gangi og aðrar rásir finnast og stundum er merkið ekki skýrt, allt þangað til við stillum okkur á rétta bylgjulengd (upplýsingar).
Hvaða leiðbeiningar frá okkur beinast að umhverfinu? Því sem leikmaðurinn þarf að skynja og bregðast við í tilteknum aðstæðum. Getum við betur hjálpað leikmönnunum með slíkum ráðum? Ég man á einu þjálfaranámskeiði fyrir löngu að ég heyrði Ólaf Stefánsson tala um að beina athyglinni að hreyfingu næsta varnarmanns (en ekki þeim sem er beint í þér). Þær upplýsingar geta hjálpað til við að ákvarða hvenær losa skal boltann til að búa til yfirtölu. Slíkar leiðbeiningar myndu falla í þennan flokk leiðbeininga sem beina athyglinni að upplýsingum í umhverfinu og hjálpa við útfærslu hreyfinga. Að þessu getustigi er vegferð sem þarf að varða og byggja upp því við getum ekki ætlast til að ungir leikmenn geti nýtt og brugðist við sömu upplýsingum og reyndir leikmenn.
Sem varnarmaður í handbolta hjálpaði það mér að hugsa um hvaða hreyfingar eru algengastar hjá andstæðingnum, út frá aðdragandanum og aðstæðum. Hér spila margir þættir inn eins og hve löng er sóknin er orðin, hver staðan er í leiknum og hve mikið er af honum. Þær upplýsingar í bland við þau færi sem ég skynjaði að voru að verða til í vörninni okkar hjálpuðu varnarmönnum að “lesa leikinn”. Í raun með því að skynja hreyfiboð annarra út frá þeirra styrkleikum.
Ef við tökum svo líka til greina að vörnin leggur upp með ákveðna taktík, það er að beina andstæðingunum (með fölskum hreyfiboðum eins og að standa hönd) í ákveðnar aðstæður þá urðu ákveðnar hreyfingar enn líklegri en ella því þær “upplýsingar/aðstæður” sem við buðum upp á mótuðu hreyfingar sóknarmanna (og öfugt). Ég held að þessar hugleiðingar séu ekki ný vísindi fyrir þjálfara og leikmenn, en hugsanlega þó jarðtengt við eitthvað sem er haldfastara en bara okkar eigin reynslu. Það eru kenningar um hreyfiboð og beina skynjun eftir Gibson (1979) byggðar á vistfræðilegu sjónarhorni á um mótun hreyfinga.
Lokaorðin eru á þessa leið. Ef við einbeitum okkur að rétta hreyfimynstrinu, án þess að huga að þeim upplýsingum og tækifærum sem eru í umhverfi íþróttamannsins þá náum við líklega ekki að þjálfa þessa færni (samtengingu) sem er svo eftirsóknarverð. Samspil hreyfingar og skynjunar virkjast ekki að fullu með þeim aðferðum. Þó svo við tökum upp nýjar aðferðir þýðir það þó ekki að öll getum við orðið jafn flink og ofangreindir leikmenn og með þessu verðum við öll frábær í að lesa leikinn. Anja og Dennis voru dæmi um leikmenn sem höfðu afburða skynjun á umhverfið, höfðu mikla og sterka samtengingu (attunement).
Þegar við hugsum um leiðbeiningar okkar og þau verkefni sem við leggjum fyrir gæti verið áhugavert að staldra við og rýna í aðferðir. Sumt sem þegar er gert fer vel saman við ofangreindar hugmyndir og annað ekki. Ég myndi halda að í dag séum við flest að blanda saman aðferðum sem eiga tengjast hefðbundnu aðferðunum og svo hugmyndum hreyfivistkerfa án þess að vita það endilega.
Að velta fyrir sér þessari nýju nálgun mun eflaust hjálpa þjálfurum að móta æfingar svo að þessi færni að tengja saman hreyfingar og skynjun samtímis, muni eflast. Þannig mætti þjálfa einmitt þá færni (ekki venjur) sem við metum svo mikils, og var áður mögulega talin meðfædd og óþjálfanleg.
SÞ
*vegna krassandi titils á þessari grein þá set ég fyrirvara. Ég get ekki ábyrgst að það sem var erfitt í þjálfun verði auðvelt með þessum aðferðum. Augljóslega hafa komið fram framúrskarandi leikmenn þrátt fyrir að hefðbundnar aðferðir hafi verið notaðar. Hér er ætlunin að kynna til leiks aðra nálgun við sama vanda sem ætti að geta gefið góða raun. Ég tel einnig að það sem fram kemur hér sé aðeins byrjunin í því að tileikna okkur nýjar aðferðir í þjálfun hreyfinga 🙂
Tengdar heimildir
Araújo, D., Davids, K., & Hristovski, R. (2006). The ecological dynamics of decision making in sport. Psychology of Sport and Exercise, 7(6), 653–676. https://doi.org/10.1016/j.psychsport.2006.07.002
Button, C. (2021). Dynamics of skill acquisition: An ecological dynamics approach (Second edition). Human Kinetics, Inc.
Gibson, J. J. (1979). The Ecological Approach to Visual Perception. Boston: Houghton
Mifflin.
Otte, F. W., Davids, K., Millar, S.-K., & Klatt, S. (2020). When and How to Provide Feedback and Instructions to Athletes?—How Sport Psychology and Pedagogy Insights Can Improve Coaching Interventions to Enhance Self-Regulation in Training. Frontiers in Psychology, 11, 1444. https://doi.org/10.3389/fpsyg.2020.01444