Á auto-pilot eða aðlögunarhæf? Tvö ólík sjónarhorn á þjálfun hreyfinga

Flest af því sem við höfum byggt á í tækniþjálfun gengur út frá því að heilinn starfi eins og tölva. Þjálfarar vinna við að forrita réttu lausnirnar inn í íþróttafólkið fyrir þau að nota í keppni og á æfingum eins og þarf. Með því að gera æfingarnar nógu oft, án þess að klikka þá festist þær í langtímaminninu, og séu þar til reiðu þegar á þarf að halda. Þegar best lætur má sjá íþróttafólk sigra keppnir á „auto-pilot“, helst án þess að gera mistök með réttum hreyfingum.  

Svona sá ég þetta fyrir mér lengi vel. En nú myndi ég vilja kynna aðra nálgun sem gengur út frá allt öðrum forsendum og hefur verið kölluð hreyfivistkerfi. Hún er margþættari, en um leið að mínu mati sannari því sem virkilega fram fer í íþróttum (og daglegu lífi) og þar af leiðandi mun gagnlegri.

Hvað ef í stað þess að einblína á að gera sömu hreyfinguna aftur og aftur,- að við myndum samþykkja að það sé ekki hægt yfir höfuð? Við munum aldrei geta endurtekið alveg nákvæmlega eins sömu hreyfinguna, því bæði eru þær svo margþættar (margir liðir og vöðvar), og í millitíðinni þá hefur eitthvað breyst. Því er stundum sagt að við förum ekki tvisvar sinnum yfir sama lækinn því hann er ekki sá sami, og ekki við heldur, og það á vel við hér.

Við erum aftur á móti fær um að geta leyst sama verkefnið aftur og aftur (t.d. að hitta í miðjuna á píluspjaldi) með tilheyrandi æfingum. Hér er grundvallarmunur á, og í því felst að við viðurkennum að það séu fleiri en ein leið til að leysa sama verkefnið og vandinn felist í að velja úr þær leiðir sem henta hverjum og einum best. Því sannleikurinn er sá að aðstæðurnar eru sjaldnast þær sömu og kalla því á öðruvísi hreyfingar í hvert sinn. Golf er frábært dæmi þar sem veður, vallaraðstæður, staða í keppni og lengd holu breytir markmiði sveiflunnar í hvert sinn. Það sem við þurfum er aðlögunarhæfni.

Hvað er þá það sem við þurfum að breyta í færniþjálfun? Áherslan ætti að vera á því stöðuga samspili sem ríkir milli skynjunar okkar á umhverfinu og svo hreyfinga okkar. Við nýtum upplýsingar í umhverfinu til að stýra hreyfingum okkar, á sama tíma og við hreyfum okkur. Þannig er stundum sagt að við hreyfum okkur til að skynja og skynjum til að hreyfa. Það er svo í gegnum skynjun okkar á aðstæðum, út frá okkar eiginleikum sem við veljum hreyfingar úr því sem í boði er hverju sinni. Í gegnum öll þessi hreyfiboð (möguleika) getum við séð ólíka einstaklinga velja ólíkar hreyfingar í „sömu aðstæðunum“, allt út frá því hvaða tækifæri þau skynja. Tek ég gabbhreyfingu og fer framhjá eða fer ég beint í skotið? Það fer eftir ýmsu, hver er „ég“ (hæð, þyngd, færni, þreyta, sjálfstraust, einbeiting og fleira), hver er á móti mér (ótal þættir)? hver er staðan í leiknum (yfir, undir, tími eftir)? Eða er einhver í betra færi en ég (yfirsýn og leikskilningur)?

Hvernig getur þjálfarinn nýtt sér þessar upplýsingar? Til að halda lengra þurfum við að  viðurkenna að hreyfingarnar stýrast ekki bara frá heila viðkomandi heldur af mörgum þáttum í umhverfi viðkomandi, hjá einstaklingnum sjálfum og síðast en ekki síst verkefninu sjálfu. Hreyfingarnar sem við sjáum hjá hvort öðru á vellinum og utan vallar „birtast“ því út frá samspili ofangreindra þátta. Við sem þjálfarar getum átt þátt í að velja umhverfi æfinganna (aðstaða t.d. gras eða gervigras), og aðstoðarþjálfara (þekking og reynsla) með ákveðin markmið í huga. Með þjálfun erum við að reyna að hafa áhrif á færni og getu einstaklinga, bæði hugrænt og líkamlega. Það er þó sennilega verkefnið sjálft (íþróttin), hvaða æfingar við setjum fyrir og með hvaða áherslum þar sem við getum haft mjög mótandi áhrif á þær hreyfingar sem birtast (reglur, áhöld og markmið).

Að lokum til að setja allt í samhengi ber að líta á samhæfðar hreyfingar sem samspil margra þátta sem skipuleggja sig sjálfar út frá þeim aðstæðum sem eru hverju sinni. Það þýðir að skipanir heilans í gegnum miðtaugakerfið til vöðva er aðeins einn þáttur af mörgum sem útskýrir það hvernig hreyfingar birtast okkur. Fjölmörg fyrirbæri í náttúrunni skipuleggja sig á ótrúlegan hátt, alveg án þess að hafa stjórnanda. Frægar eru hreyfingar fulga á flugi og fiska í torfum sem þó eru án stjórnanda. Niðurstaðan er samt dáleiðandi, líkt og vel samhæfðar hreyfingar íþróttafólks.

Hver eru skilaboðin?

  • Þjálfun hreyfinga sem felur í sér endurtekningu hreyfinga, endurtekninganna vegna er ekki vel til þess fallinn að bæta færnina og yfirfærast í keppni.
  • Færniþjálfun (sem mörg hugsa til sem tækniþjálfun) er best þegar þjálfarar hanna sérstaklega verkefnið út frá þeim upplýsingum sem við skynjum (hreyfiboð) í umhverfinu. Það er gert á margvíslegan hátt með því að ýta undir sköpun og lausnaleit (mjög mikilsmetnir eiginleikar í íþróttum) í gegnum íþróttina. “Leiklíkt” er lykilorð hér sem mörg kannast við.
  • Við ættum ekki að reyna að forrita íþróttafólkið okkar og steypa því í sama „rétta“ mótið, heldur vinna með þeirra skynjun og hreyfingu út frá þeirra eiginleikum. Við getum svo stutt við betri hreyfilausnir með því að leggja inn einkenni hagkvæmra hreyfinga.
  • Þetta þýðir ekki að hlutverk þjálfarans verði síðra eða minna af því við höfum ekki „rétta hreyfimynstrið“ til að segja frá og hamra inn í heila íþróttafólks. Alls ekki, – hlutverkið er þó öðruvísi og leiðirnar að betri færni aðrar. Stundum er slíkri þjálfun líkt við garðyrkju (leiðbeinslu) sem miðar að því að aðstæður séu góðar til vaxtar og þroska, til móts við herforingja sem er í miðjunni og öll bíða skipana frá og hlýða.
  • Hér skal líka tekið fram að þrátt fyrir að hreyfingar birtist sem flókið samspil skynjunar og hreyfingar, undir takmörkunum einstaklingsins, umhverfis og verkefnis, þá er pláss fyrir margvíslega kennslufræði við að ná tilætluðum  markmiðum. Þjálfunin þarf sem fyrr að taka mið af forsendum og þroska iðkenda.
  • Þjálfarar gætu staldrað við þessa punkta þegar þeim finnst sem iðkendur heyri ekki skilaboðin þeirra á æfingum, heldur haldi áfram að endurtaka sömu „röngu“ hreyfingarnar. Það er í ykkar valdi að móta verkefnið, – og kennslufræðin að baki þessarar nálgunar segir að jafnvel litlar breytingar á verkefninu (t.d. áhöld eða önnur regla) geti breytt miklu í hreyfingunni sem birtist.

Sveinn Þorgeirsson, doktorsnemi

kennari áfangans Hreyfiþróun og -nám við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík

Heimildir sem m.a. er byggt er á

Button, C., Seifert, L., Chow, J. Y., Araujo, D., & Davids, K. (2020). Dynamics of Skill Acquisition (2nd ed.). Human Kinetics Publishers. https://online.vitalsource.com/books/9781492594741

Chow, J. Y., Davids, K., Button, C., & Renshaw, I. (2016). Nonlinear pedagogy in skill acquisition: An introduction. Routledge.

Davids, K., Araújo, D., Hristovski, R., Passos, P., & Chow, J. Y. (2012). Ecological dynamics and motor learning design in sport. https://doi.org/10.13140/RG.2.1.2297.0089

Otte, F. W., Davids, K., Millar, S.-K., & Klatt, S. (2021). Understanding How Athletes Learn: Integrating Skill Training Concepts, Theory and Practice from an Ecological Perspective. 7.

Seifert, L., & Davids, K. (2017). Ecological Dynamics: A Theoretical Framework for Understanding Sport Performance, Physical Education and Physical Activity. In P. Bourgine, P. Collet, & P. Parrend (Eds.), First Complex Systems Digital Campus World E-Conference 2015 (pp. 29–40). Springer International Publishing. https://doi.org/10.1007/978-3-319-45901-1_3