Einstaklingsmiðuð hópþjálfun: Mörg verkefni eða margar lausnir?

Hvernig getum við einstaklingsmiðað færniþjálfun í raun, ef öll eru að vinna í sama verkefni? Þjálfarar þekkja vel hve mikilvægt það er að reyna að einstaklingsmiða þjálfunina til að ná sem bestum árangri. Þetta er í raun regla í þjálffræðinni, en þó vandi sem fylgir gerð hvers tímaseðlis.

Ef við styðjumst við hefðbundnar aðferðir þá standa okkur ekki margar leiðir til boða. Forsendurnar gera ráð fyrir að þjálfarinn kenni „réttu tæknina“ miðað við markmiðið hverju sinni. Til að einstaklingsmiða þá þjálfun þyrfti að útbúa sérstaka æfingu fyrir hvert og eitt, allar með ólíkum markmiðum. Það er svo gott sem ómögulegt í praktík.

Allar í eins búning, en engin af þeim “eins”. Photo by Jeffrey F Lin on Unsplash

Er til „einföld“ lausn á þessum vanda? Til þess að sjá það fyrir okkur þurfum við að breyta um útgangspunkt og aðferð. Einstaklingsmiðun æfinga horfir allt öðruvísi við ef, við aðeins styðjumst við kenningar hreyfivistkerfa (ecological dynamics) og skiljum við hinar hefðbundnu (áður fjallað um hér). Samkvæmt kenningum um hreyfivistkerfin lítum við svo á að hreyfingar birtist (emerge) undir takmörkunum hjá einstaklingnum og í umhverfinu. Hreyfingarnar eru undir áhrifum af stöðugu samspili skynjunar og hreyfinga. Þannig eru hreyfingar samhæfðar út frá aðstæðum hverju sinni, án eiginlegs stjórnanda, í flóknu, aðlögunarhæfu og síbreytilegu kerfi líkamans. Til að glöggva okkur á muninum getum við borið saman þessar tvær leiðir.

Hefðbundnar kenningar (information processing)Hreyfivistkerfi (ecological dynamics)
Línulegt eðli þjálfunar (lítil breyting í þjálfun hefur lítil áhrif).Ólínulegt eðli þjálfunar (lítil breyting í t.d. verkefninu getur breytt miklu varðandi hreyfingar).  
Þjálfun „réttu“ aðferðarinnar. Endurtekning endurtekningarinnar vegna (þrátt fyrir breytileika milli tilrauna). Lagt upp með að safna upp miklu magni endurtekninga til að festa hreyfiútfærsluna í langtímaminninu.Sjálfsskipulag (self-organization), margar leiðir að sama markmiði (degeneracy), lykilhugmyndin um endurtekningu án endurtekningar, og breytileiki nýttur til aðlögunar á framkvæmd hreyfinga.  
Breytileiki í æfingum getur af sér færni í að aðlaga „réttu tæknina“ að aðstæðum.Lausnaleit við áskorunum í hreyfingum. Breytileiki í aðstæðum. Læra að læra að hreyfa sig.  
Þekking okkar á hreyfingunni sjálfri er undirstaða færni. Við vitum hvernig á að hreyfa sig og reynum að fylgja því.Þekking byggir á sambandi okkar við umhverfið, tilfinningu. Stöðugu samspili hreyfingar við skynjun. Hægt er að einfalda verkefni (simplification) í þjálfun.
Þjálfun hreyfinga er hægt að brjóta niður í minni einingar og setja svo saman í heild. Hugmyndin um að hreyfingarnar séu byggðar á samsettum hreyfingum.Hreyfingar verða aðeins þjálfaðar upp í færni þegar hreyfingin er samtengd mikilvægustu upplýsingum í umhverfi okkar (skynjun). Skynjun og hreyfingu má ekki slíta í sundur, ef þjálfa á færni.
*tafla byggð á samantekt frá Rob Gray (höfundur). (2020, 29. október). The Two Skill Acquisition Approaches: Key Differences. https://www.youtube.com/watch?v=cCsezh7ijzs

Nokkrar leiðir sem byggja á hugmyndum hreyfivistkerfa hafa verið þróaðar til að koma þessum aðferðum til skila inn á æfingarnar sjálfar. Ólínuleg kennslufræði (Non-linear pedagogy) er ein og Takmarkana-miðuð nálgun (Constraint led approach) er önnur þó þær séu skyldar. Nánar verður fjallað um þessar aðferðir síðar.

Lykilatriðið er að það er í höndum þjálfarans að hanna verkefnið sjálft (æfinguna) á þann hátt að þær hreyfingar sem leitast er við að þjálfa birtist náttúrulega í verkefninu eins og það er sett upp. Með þessu þarf þjálfarinn í raun lítið að segja til að leiðrétta sjálfa hreyfinguna því hún er mótuð af umhverfinu og samspili leikmannsins jafnóðum.

Áhersla þjálfarans á æfingum að vera fyrst og fremst á verkefninu sjálfu. Þar er átt við markmið og reglum æfingarinnar, svæði sem unnið er á (stærð), fjölda þátttakenda, áhöld sem notast er við, allt þættir sem hægt er að breyta á staðnum. Auk þess geta mikilvægir umhverfisþættir haft áhrif svosem undirlag og veður svo það helsta sé nefnt. Allir þessir þættir koma saman og mynda það umhverfi sem hreyfingin fer fram í og birtist. Ef hreyfingarnar eru ekki eins og upp var lagt með þarf að leita skýringa í öllum þessum þáttum, verkefninu, einstaklingnum sjálfum (líkamlega/hugarfarslega), eða mögulega ytri umhverfisþáttum (aðstöðu eða félagslegum þáttum).

Þríhyrningurinn hér til vinstri skýrir hvernig takmarkanir í umhverfi okkar, verkefninu sjálfu og í einstaklingnum spila saman og hafa áhrif á þær hreyfingar sem myndast. Til hægri tekur svo við samspil skynjunar og hreyfinga til að útfæra samhæfðar hreyfingar. https://www.researchgate.net/publication/10810355/figure/fig1/AS:394382139248644@1471039437457/Newells-model-of-interacting-constraints-adapted-to-illustrate-the-resulting-effects-on.png

Undir þessum aðstæðum hafa allir leikmenn sem taka þátt í verkefninu markmið til að vinna eftir (takmörkun á hreyfingu) og mikilvægt frelsi til að leita að leiða til að leysa þau sem best. Þau leita að bestu aðferðinni út frá eigin líkama, út frá eigin skynjun á möguleikum (hreyfiboðum, e. affordances). Þannig nýtum við fjölhæfni líkamans til að leysa sama verkefnið á ólíkan hátt til hins ítrasta, út frá hugmyndinni um að sömu hreyfinguna sé fræðilega ómögulegt að endurtaka (repetition without repetition).

Í þessari nálgun er mikið lagt upp úr lausnaleit við vandanum og því að prófa sig áfram með ólíkar leiðir (bæði þjálfarar og íþróttafólk). Í gegnum það ferli fer nám fram og við verðum betur samtengd (attuned) þeim þáttum í umhverfinu sem móta hreyfingar okkar. Við þessar aðstæður gæti þjálfarinn þurft að hugsa leiðbeiningar sínar upp á nýtt, en á móti gætu aðrar hugmyndir sem áður voru geymdar eignast nýtt líf.

Við höfum vitað að æfingar ættu að vera „leiklíkar“ (representative) í nokkurn tíma, en þessar kenningar hafa tvær ólíkar leiðir við að ná því fram. Kenningar hreyfivistkerfa leggja til að einfalda megi þá færni sem á að þjálfa og ýkja upp aðstæður til að leysa (viðhalda mikilvægum upplýsingum í umhverfinu til að skynja). Dæmi um slíkt væri að breyta áhöldum eða reglum verkefnisins, eins og að spila leik með minni/stærri/mýkri bolta. Á meðan myndu hefðbundnar aðferðir leggja til að “keppnisútgáfan” væri sneidd niður í einingar (mikilvægar upplýsingar sem móta hreyfingar teknar úr sambandi og samhengi), hreyfingarnar þjálfaðar í einangrun og settar saman líkt og Legokubbahús að lokum.

Eitt dæmi sem dregur fram þessi atriði gæti verið að rekja bolta milli keilna (t.d. handbolti/fótbolti/körfubolti). Í því verkefni vantar upplýsingarnar fyrir leikmenn til að búa til samtengingar sem þarf til að þjálfa færnina sem er mikilvæg í leik gegn lifandi mótherjum. Keilurnar hreyfast ekki, gera engar kröfur um viðbragð og þess utan beina þær athygli leikmanna að jörðinni þegar mikilvægustu upplýsingarnar í leik eru allt í kring.

Samkvæmt kenningum hreyfivistkerfa skortir mikilvægar upplýsingar inn í þetta verkefni fyrir leikmanninn til að styrkja færnina í því að rekja bolta í leik. Hér er aðeins verið að þjálfa meðferð boltans, sem gæti átt rétt á sér við einhverjar kringumstæður, en er ekki færni, né heldur hæfni sem gerir frábæra leikmenn að frábærum leikmönnum. Photo by Nigel Msipa on Unsplash.

Sjálfur hef ég margoft boðið upp á svona æfingar þar sem dripplað er á milli keilna og þær jafnvel „gabbaðar“, – en ekki meir. Það eru til aðrar og betri leiðir. Ég er líka þess fullviss að þjálfarar geta tekið gamalkunnar æfingar og betrumbætt þær með þessar kenningar að vopni. Leiðarstefið í þeirri hugsun er að búa til verkefni sem býður upp á þær hreyfingar sem á að þjálfa og festa í sessi. Meira um það síðar.

Heimildir sem meðal annars er stuðst við í þessari grein

Button, C. (2021). Dynamics of skill acquisition: An ecological dynamics approach (Second edition). Human Kinetics, Inc.

Chow, J. Y., Davids, K., Button, C., & Renshaw, I. (2016). Nonlinear pedagogy in skill acquisition: An introduction. Routledge.

Gray, R. (2021). Skill Acquisition Presentations—YouTube. https://www.youtube.com/

Á auto-pilot eða aðlögunarhæf? Tvö ólík sjónarhorn á þjálfun hreyfinga

Flest af því sem við höfum byggt á í tækniþjálfun gengur út frá því að heilinn starfi eins og tölva. Þjálfarar vinna við að forrita réttu lausnirnar inn í íþróttafólkið fyrir þau að nota í keppni og á æfingum eins og þarf. Með því að gera æfingarnar nógu oft, án þess að klikka þá festist þær í langtímaminninu, og séu þar til reiðu þegar á þarf að halda. Þegar best lætur má sjá íþróttafólk sigra keppnir á „auto-pilot“, helst án þess að gera mistök með réttum hreyfingum.  

Svona sá ég þetta fyrir mér lengi vel. En nú myndi ég vilja kynna aðra nálgun sem gengur út frá allt öðrum forsendum og hefur verið kölluð hreyfivistkerfi. Hún er margþættari, en um leið að mínu mati sannari því sem virkilega fram fer í íþróttum (og daglegu lífi) og þar af leiðandi mun gagnlegri.

Hvað ef í stað þess að einblína á að gera sömu hreyfinguna aftur og aftur,- að við myndum samþykkja að það sé ekki hægt yfir höfuð? Við munum aldrei geta endurtekið alveg nákvæmlega eins sömu hreyfinguna, því bæði eru þær svo margþættar (margir liðir og vöðvar), og í millitíðinni þá hefur eitthvað breyst. Því er stundum sagt að við förum ekki tvisvar sinnum yfir sama lækinn því hann er ekki sá sami, og ekki við heldur, og það á vel við hér.

Við erum aftur á móti fær um að geta leyst sama verkefnið aftur og aftur (t.d. að hitta í miðjuna á píluspjaldi) með tilheyrandi æfingum. Hér er grundvallarmunur á, og í því felst að við viðurkennum að það séu fleiri en ein leið til að leysa sama verkefnið og vandinn felist í að velja úr þær leiðir sem henta hverjum og einum best. Því sannleikurinn er sá að aðstæðurnar eru sjaldnast þær sömu og kalla því á öðruvísi hreyfingar í hvert sinn. Golf er frábært dæmi þar sem veður, vallaraðstæður, staða í keppni og lengd holu breytir markmiði sveiflunnar í hvert sinn. Það sem við þurfum er aðlögunarhæfni.

Hvað er þá það sem við þurfum að breyta í færniþjálfun? Áherslan ætti að vera á því stöðuga samspili sem ríkir milli skynjunar okkar á umhverfinu og svo hreyfinga okkar. Við nýtum upplýsingar í umhverfinu til að stýra hreyfingum okkar, á sama tíma og við hreyfum okkur. Þannig er stundum sagt að við hreyfum okkur til að skynja og skynjum til að hreyfa. Það er svo í gegnum skynjun okkar á aðstæðum, út frá okkar eiginleikum sem við veljum hreyfingar úr því sem í boði er hverju sinni. Í gegnum öll þessi hreyfiboð (möguleika) getum við séð ólíka einstaklinga velja ólíkar hreyfingar í „sömu aðstæðunum“, allt út frá því hvaða tækifæri þau skynja. Tek ég gabbhreyfingu og fer framhjá eða fer ég beint í skotið? Það fer eftir ýmsu, hver er „ég“ (hæð, þyngd, færni, þreyta, sjálfstraust, einbeiting og fleira), hver er á móti mér (ótal þættir)? hver er staðan í leiknum (yfir, undir, tími eftir)? Eða er einhver í betra færi en ég (yfirsýn og leikskilningur)?

Hvernig getur þjálfarinn nýtt sér þessar upplýsingar? Til að halda lengra þurfum við að  viðurkenna að hreyfingarnar stýrast ekki bara frá heila viðkomandi heldur af mörgum þáttum í umhverfi viðkomandi, hjá einstaklingnum sjálfum og síðast en ekki síst verkefninu sjálfu. Hreyfingarnar sem við sjáum hjá hvort öðru á vellinum og utan vallar „birtast“ því út frá samspili ofangreindra þátta. Við sem þjálfarar getum átt þátt í að velja umhverfi æfinganna (aðstaða t.d. gras eða gervigras), og aðstoðarþjálfara (þekking og reynsla) með ákveðin markmið í huga. Með þjálfun erum við að reyna að hafa áhrif á færni og getu einstaklinga, bæði hugrænt og líkamlega. Það er þó sennilega verkefnið sjálft (íþróttin), hvaða æfingar við setjum fyrir og með hvaða áherslum þar sem við getum haft mjög mótandi áhrif á þær hreyfingar sem birtast (reglur, áhöld og markmið).

Að lokum til að setja allt í samhengi ber að líta á samhæfðar hreyfingar sem samspil margra þátta sem skipuleggja sig sjálfar út frá þeim aðstæðum sem eru hverju sinni. Það þýðir að skipanir heilans í gegnum miðtaugakerfið til vöðva er aðeins einn þáttur af mörgum sem útskýrir það hvernig hreyfingar birtast okkur. Fjölmörg fyrirbæri í náttúrunni skipuleggja sig á ótrúlegan hátt, alveg án þess að hafa stjórnanda. Frægar eru hreyfingar fulga á flugi og fiska í torfum sem þó eru án stjórnanda. Niðurstaðan er samt dáleiðandi, líkt og vel samhæfðar hreyfingar íþróttafólks.

Hver eru skilaboðin?

  • Þjálfun hreyfinga sem felur í sér endurtekningu hreyfinga, endurtekninganna vegna er ekki vel til þess fallinn að bæta færnina og yfirfærast í keppni.
  • Færniþjálfun (sem mörg hugsa til sem tækniþjálfun) er best þegar þjálfarar hanna sérstaklega verkefnið út frá þeim upplýsingum sem við skynjum (hreyfiboð) í umhverfinu. Það er gert á margvíslegan hátt með því að ýta undir sköpun og lausnaleit (mjög mikilsmetnir eiginleikar í íþróttum) í gegnum íþróttina. “Leiklíkt” er lykilorð hér sem mörg kannast við.
  • Við ættum ekki að reyna að forrita íþróttafólkið okkar og steypa því í sama „rétta“ mótið, heldur vinna með þeirra skynjun og hreyfingu út frá þeirra eiginleikum. Við getum svo stutt við betri hreyfilausnir með því að leggja inn einkenni hagkvæmra hreyfinga.
  • Þetta þýðir ekki að hlutverk þjálfarans verði síðra eða minna af því við höfum ekki „rétta hreyfimynstrið“ til að segja frá og hamra inn í heila íþróttafólks. Alls ekki, – hlutverkið er þó öðruvísi og leiðirnar að betri færni aðrar. Stundum er slíkri þjálfun líkt við garðyrkju (leiðbeinslu) sem miðar að því að aðstæður séu góðar til vaxtar og þroska, til móts við herforingja sem er í miðjunni og öll bíða skipana frá og hlýða.
  • Hér skal líka tekið fram að þrátt fyrir að hreyfingar birtist sem flókið samspil skynjunar og hreyfingar, undir takmörkunum einstaklingsins, umhverfis og verkefnis, þá er pláss fyrir margvíslega kennslufræði við að ná tilætluðum  markmiðum. Þjálfunin þarf sem fyrr að taka mið af forsendum og þroska iðkenda.
  • Þjálfarar gætu staldrað við þessa punkta þegar þeim finnst sem iðkendur heyri ekki skilaboðin þeirra á æfingum, heldur haldi áfram að endurtaka sömu „röngu“ hreyfingarnar. Það er í ykkar valdi að móta verkefnið, – og kennslufræðin að baki þessarar nálgunar segir að jafnvel litlar breytingar á verkefninu (t.d. áhöld eða önnur regla) geti breytt miklu í hreyfingunni sem birtist.

Sveinn Þorgeirsson, doktorsnemi

kennari áfangans Hreyfiþróun og -nám við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík

Heimildir sem m.a. er byggt er á

Button, C., Seifert, L., Chow, J. Y., Araujo, D., & Davids, K. (2020). Dynamics of Skill Acquisition (2nd ed.). Human Kinetics Publishers. https://online.vitalsource.com/books/9781492594741

Chow, J. Y., Davids, K., Button, C., & Renshaw, I. (2016). Nonlinear pedagogy in skill acquisition: An introduction. Routledge.

Davids, K., Araújo, D., Hristovski, R., Passos, P., & Chow, J. Y. (2012). Ecological dynamics and motor learning design in sport. https://doi.org/10.13140/RG.2.1.2297.0089

Otte, F. W., Davids, K., Millar, S.-K., & Klatt, S. (2021). Understanding How Athletes Learn: Integrating Skill Training Concepts, Theory and Practice from an Ecological Perspective. 7.

Seifert, L., & Davids, K. (2017). Ecological Dynamics: A Theoretical Framework for Understanding Sport Performance, Physical Education and Physical Activity. In P. Bourgine, P. Collet, & P. Parrend (Eds.), First Complex Systems Digital Campus World E-Conference 2015 (pp. 29–40). Springer International Publishing. https://doi.org/10.1007/978-3-319-45901-1_3